Eru ekki örugglega fleiri en ég hugsi yfir því hvernig maður eigi að fara að því að velja sér frambjóðendur til að kjósa á stjórnlagaþingið? Er ekki nokkuð ljóst að með svona mikinn fjölda frambjóðenda þá hafi þeir sem eru þekktir og/eða vel tengdir töluvert forskot á hina? Á fólk ekki fyrst og fremst eftir að kjósa þá sem það þekkir eða hafa komið sér það vel á framfæri að flestir vita hvað þeir standa fyrir?
Ég er með nokkur mál í huga sem ég vil hafa á hreinu að þeir sem ég kýs séu nokkurn vegin sammála mér um. Hvernig á ég að komast yfir það að kynna mér afstöðu á fimmta hundrað einstaklinga á þessum tíma sem er til stefnu? Það er svo líka annað að kosningin sjálf er á akkúrat þegar ansi stór hópur er á fullu í upplestri fyrir próf þannig að ekki munu þeir hafa mikinn tíma til stefnu.
Kannski er ég að mála skrattann á vegginn. Ég vona það. Kannski verða upplýsingarnar sem koma frá kjörstjórn útfærðar þannig að auðvelt verður að kynna sér helstu stefnumál frambjóðenda og skoðanir á þeim málum sem helst hefur verið rætt um líkt og útfærslu á þrískiptingu ríkisvalds og aðskilnaði ríkis og kirkju. Eða, það sem mér finnst líklegra, að einhver af netsnillingunum sem ég veit að eru að vinna mikið hugsjónastarf í útfærslum á félagsmiðlatækninni í kringum öll þessi mál okkar (eins og Finnur frændi) geti kokkað upp eitthvað sem auðveldar manni úttektina á frambjóðendum.
En ég hef samt pínu áhyggjur af því að þetta verði meira og minna vinsældarkosningar, sem skila ekkert endilega góðum niðurstöðum fyrir þingið sjálft. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.