Viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur við gagnrýni stjórnarandstöðunnar á þingi í dag ollu mér heiftarlegu nostalgíukasti. Allt í einu fannst mér ég vera kominn aftur í menntaskóla hlustandi á stjórnendur nemendafélags svara gagnrýni.
Í mínum menntaskóla var það nefnilega þannig að allri gagnrýni á störf stjórnar nemendafélagsins var svarað með því að ef þeir sem gagnrýndu gætu bara boðið sig fram sjálfir ef þeir vildu að hlutirnir yrðu gerðir á annan hátt. Stjórnendurnir réðu nefnilega ekki nógu vel við gagnrýni. Vissulega hefði hún oft mátt vera betur sett fram og auðvitað brugðust sumir betur við. Og í dag lít ég til þessa tíma með hálfgerðri eftirþrá, þegar það gat skipt mann alveg ótrúlega miklu máli hvort að haldin væri 2 eða 3 böll á vorönn.
En ég hélt að fólk sem sæktist eftir frama í félagsmálum lærði með árunum að taka gagnrýni. En þessi ragmönun Jóhönnu í dag, manneskju sem hefur verið á þingi frá því áður en ég fæddist (og ég er s.s. orðin nógu gamall til að líta til menntaskólaáranna með eftirsjá), sýnir að það hefur líklega verið enn eitt ofmat mitt á öðru fólki.