Kristniboðar í baráttu gegn réttindum barna

Í gær birtist eftir mig á Vísi.is grein þar sem ég svara frekar furðulegri grein Daggar Harðardóttur. Dögg titlar sig sem stjórnlagaráðsfulltrúa sem á líklega að gefa orðum hennar meira vægi en hún er nú meira en bara það. Hún er fyrrverandi formaður Aglow – alþjóðlegra samtaka kristinna kvenna – á Íslandi. Aglow eru einhverskonar systursamtök Gídeon og eiga sér samskonar trúboðamarkmið. Dögg er líka gift Fjalari Frey Einarssyni sem er, þrátt fyrir að forðast að viðurkenna það opinberlega, formaður Gídeon á Íslandi.

Í dag birtist svo grein í Fréttablaðinu þar sem að það er tekið út fyrir allan vafa hvað það er sem að liggur á bakvið baráttuna gegn tillögum Mannréttindaráðs Reykjavíkur. Í greininni birtast þessar venjulega falsanir um að kvartanir vegna starfsemi trúfélaga og trúboðasamtaka séu einungis 22. En þar eru eingöngu tekin með þau dæmi þar sem lagðar voru fram formlegar kvartanir. Staðreyndin er sú, eins og allir vita sem hafa kynnt sér þessi mál, er að miklu fleiri hafa kvartað við stjórnendur viðkomandi skóla eða tómstundafélaga. Matti og Gyða, félagar mínir úr Vantrú, stóðu í svona baráttu í langan tíma. Þau eiga enga af þessum 22 kvörtunum. Það að halda því fram að einungis hafi 22 kvartað er fölsun og afvegaleiðing á umræðunni.

En tilgangurinn helgar líklega meðalið. Sérstaklega þegar haft  er í huga hvaða hugmyndir þetta fólk hefur um okkar sem styðja tillögurnar:

Við vitum að barátta okkar er ekki við menn heldur við andaverur vonskunnar í himingeiminum, samanber Efesusbréf 6. kafla Páls postula.

Þess vegna er svo mikilvægt að biðja fyrir þessu máli.

Önnur tilvitnun í greinina:

Við verðum að sjá til þess að börn fái að kynnast trúarlegri arfleifð okkar Íslendinga, að það sé eðlilegt að börn sem alast upp í kristnu landi fái Nýja testamentið að gjöf og að það sé eðlilegt að fara í kirkju og leita Guðs í öllum kringumstæðum lífsins.

Meira bull. Börn munu áfram fræðast um trúarlega arfleið okkar, með vörtum og öllu. Það stendur ekki til og hefur aldrei staðið til að breyta því. Enda liggur valdið til þess ekki hjá Mannréttindaráði. Þetta er ein algengasta lygi trúboðasinna í umræðunni. Og þetta er lygi. Því að þetta fólk, ég tala nú ekki um hina sprenglærðu klerka sem hafa tjáð sig á þennan hátt, einfaldlega hlýtur að vita að þetta er rangt.

Meirihlutarökin eru líka orðin þreytt. Jafnvel þó að meirihluti þjóðarinnar sé kristinnar trúar breytir það því ekki að öll börn hafa réttindi. Líka börn trúleysingja (andavera vonskunnar). Dögg Harðardóttur varð það á að vísa í réttindi barna og sérstaklega Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Því miður fyrir hana leiðir lestur á Barnasáttmálanum það í ljós að líklega er í dag brotið á réttindum barna og foreldra. Sjá fjórtándu grein sáttmálans (leturbreytingar mínar):

1. Aðildarríki skulu virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar.
2. Aðildarríki skulu virða rétt og skyldur foreldra, og lögráðamanna, eftir því sem við á, til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum á þann hátt sem samræmist vaxandi þroska þess.
3. Frelsi til að láta í ljós trú eða skoðun skal einungis háð þeim takmörkunum sem mælt er fyrir um í lögum og eru nauðsynlegar til að gæta öryggis almennings, allsherjarreglu, heilsu almennings eða siðgæðis, eða grundvallarréttinda og frelsis annarra.

Ef að barni og foreldrum er stillt upp við vegg þannig að valið standi á milli þess að sitja undir trúarstarfi og hreinu trúboði (eins og í tilfelli Gídeon) eða að vera fjarlægt frá félagahópnum á meðan er þá verið að virða rétt þeirra? Ekki get ég séð það. Enda segir skýrsla samstarfshóps á vegum Reykjavíkurborgar (sem fólkið sem skrifar greinina vitnar í sem könnun) sem gefin var út 2007 að slíkt eigi ekki að gerast. Merkilegt nokk átti ríkiskirkjan fulltrúa í samstarfshópnum. Hann gerði enga fyrirvara við þessa ábendingu. Hvað ætli hafi breyst síðan þá? Ætli menn hafi áttað sig á því að nú ætti kannski að byrja að fara eftir þessu?

Skýrasta dæmið um það hvað þessi barátta snýst um kemur þó í lok greinarinnar þar sem höfundar hennar skrifa undir.

Valgerður Þóra Benediktsson
Í Samtökum kristinna kennslukvenna

Erdna Varðardóttir
leiðtogi fyrir Jesúkonur á Íslandi

Benedikt Jasonarson
kristniboði og kennari

Margrét Hróbjartsdóttir
kristniboði og hjúkrunarfræðingur

Einmitt.

Gangi tillögur Mannréttindaráðs eftir munu ríkiskirkjuprestar ekki lengur geta nálgast börn inn í skólana. Gídeonmenn verða að fara að „ávinna menn og konur fyrir Jesú Krist“ utan skólastofunnar.

En foreldrar geta ennþá alið börn sín upp í trú. Þeir geta ennþá valið að senda þau í Sunnudagaskóla, æskulýðsstarf á vegum trúfélaga og sumarbúðir KFUM og K. Gídeonmenn geta ennþá dreift NT til allra sem það vilja t.d. í fyrrnefndu starfi trúfélaga eða á eigin vegum. Trúarlíf landsmanna ætti því ennþá að standa styrkum fótum því að þessar í raun litlu breytingar gætu ekki skaðað eitthvað sem væri byggt á tryggum grunni.

Eða er það kannski akkúrat það sem menn eru ekki vissir um?