Eins og þeir sem hafa ratað hingað inn eða fylgjast með mér á Facebook og Twitter hafa tekið eftir set ég nú inn eina mynd á viku undir hinu frekar lýsandi nafni ‘Mynd á viku’. Þetta er ákveðið verkefni sem ég setti mér fyrir árið, að taka, vinna og birta eina mynd á viku. Ég hef gert þetta áður, árið 2010.
Ástæðan fyrir því að ég ákvað að gera þetta núna er að mér finnst ég hafa staðnað í ljósmyndun undanfarið. Ég er fastur í einhverju fari sem mér gengur illa að losna úr og finnst ég lítið hafi þróast áfram sem ljósmyndari. Vegna þessa hef ég alls ekki verið nógu duglegur að taka myndir, ef ég undanskil myndir sem ég tek í vinnunni á leikskólanum. Ég hef lítið farið úr húsi með myndavél í þeim eina tilgangi að taka myndir. Ég hef líka ekki verið nógu duglegur að hafa með mér myndavél þó að ég fari eitthvað í öðrum erindagjörðum og latur að taka upp vél í þau skipti sem hún hefur fengið að fljóta með.
Í byrjun árs í fyrra reyndi ég að leysa þetta vandamál með því að kaupa mér myndavél. Ég keypti litla Micro Four Thirds vél frá Olympus með tveimur kit-linsum (14-42 3.5-5.6 og 40-150 4-5.6) og bætti við 17 mm 1.8 linsunni frá Oly. Þetta er fínasti pakki. Vélin með 14-42mm eða 17 mm linsunum (sú síðarnefnda er oftast á) passar í góðan úlpuvasa ef svo ber undir og þó vélin mætti alveg vera betri á háu ISO (hér er dæmi af tónleikum, þetta sleppur svosem alveg) þá er ég mjög sáttur við hana.
En eins og ég hefði getað sagt mér sjálfur þá gera nýjar græjur mann ekki betri og auka bara áhugan rétt á meðan nýjabrumið er enn til staðar. Þess vegna ákvað ég að „neyða“ sjálfan mig til þess að taka myndir. Ég var að spá í PAD (mynd á dag – photo a day) verkefni en fannst það full mikið verk. Þess vegna varð PAW (mynd á viku – photo a week) fyrir valinu. Ef ég stend mig þá koma 52 myndir út úr þessu. Ég er nokkuð sáttur við heildarútkomuna frá 2010. Auðvitað eru þar myndir sem bera tímaskorti og leti vitni en þar eru líkar myndir þar sem ég ákvað sérstaklega að nota ákveðna tækni við myndatöku eða myndvinnslu og prófa mig þannig áfram. Það sama ætla ég að gera núna. En það besta við 2010 verkefnið var að ég tók alveg heilan helling af myndum yfir allt árið því að ég var svo oft með vél á mér. Ég vona að það sama gerist núna.