Í vikunni var fjallað um kjaramál framhaldsskólakennara í fréttum á Stöð 2. Þetta var ágætis umfjöllun sem sýndi hæfa kennara sem þurfa að vinna aukavinnu til þess að hafa nægar tekjur yfir árið. En á twitter sá ég skondinn viðbrögð. Þar velti einn fyrir sér lesskilningi framhaldsskólakennara og getu til þess að meta tölur.
Þetta eru svosem skilaboð sem kennarar hafa heyrt áður. Að þeir hljóti að hafa vitað hvaða laun biðu þeirra þegar þeir ákváðu að fara í nám og hefja kennslu og þar af leiðandi eigi þeir ekki að vera að þessu væli. Og þetta er auðvitað alveg mögnuð vitleysa.
Með þessum rökum er hægt að afgreiða alla kjarabaráttu eins og hún leggur sig. Væntanlega hafa allir einhverja hugmynd um hvaða tekjur bíða þeirra þegar þeir leggja ákveðið fag fyrir sig. Sem betur fer þýðir það ekki að fólk megi ekki krefjast betri kjara. Það er ekkert lögmál að kjör stétta megi aldrei batna.
Árið 2007 skráði ég mig í leikskólakennaranám. Ég hafði auðvitað einhverja hugmynd um tekjurnar sem biðu mín að loknu námi. Ég ákvað ekki að verða leikskólakennari til þess að verða ríkur. Það var ákveðin hugsjón sem skipti mestu máli, ásamt mikilli ánægju af því að vinna með börnum. Mér finnst þetta skemmtilegt og krefjandi starf og sé ekkert eftir því að hafa fetað þessa braut.
En ég áskil mér, þrátt fyrir að vera í þessu af hugsjón, rétt til þess að krefjast betri kjara. Ég skrifaði ekki undir samning um það að vera alltaf á lélegum launum þegar ég fékk leyfisbréfið. Kjarasamningur leikskólakennara rennur út 30. apríl. Við teljum eins og framhaldsskólakennarar að það þurfi að bæta kjör okkar. Mér finnst alveg ótrúlega hæpið að launahækkun upp á 2,8% verði samþykkt og mun sjálfur ekki samþykkja slíkan samning nema eitthvað alveg ótrúlega magnað fylgi með í pakkanum. Ég tel að ég eigi skilið að fá betri laun fyrir vinnuna mína en ég fæ núna.
Jafnvel þó að ég hafi skoðað kjarasamninga leikskólakennara árið 2007.