Risastórt bandarískt verslunarfyrirtæki sýnir því nú áhuga að opna verslanir á Íslandi. Fyrirtækið vill geta selt lyf, áfengi og innflut kjöt í verslunum sínum hér á landi. Ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins taka vel í að breyta lögum og jafnvel veita undanþágur svo að það sé hægt.
Nú ætti ég auðvitað að gleðjast yfir því að hugmyndir um aukið frjálsræði í þessum málum fái góðar undirtektir hjá stjórnvöldum, og geri það svosem að einhverju leyti. En þetta er bara svo innilega lýsandi fyrir hentistefnu Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að hugmyndafræði.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður, vísar á fréttina sem ég bendi á hér að ofan með þeim orðum að nú sé góður tími til þess að auka frelsi í viðskiptum. Af hverju fyrst núna? Flokkurinn hans hefur verið í ríkisstjórn í 19 ár af seinustu 23. Það hefur verið nægur tími til þess að leyfa sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum og að rýmka löggjöf um innflutning á kjöti. Vilja þingmenn Sjálfstæðisflokksins meina að það hafi bara ekki verið góður tími til þess?
Getur í alvörunni verið að það sé góður tími núna af því að Costco ætlar á móti að kaupa fisk af Íslendingum til þess að selja í verslunum sínum? Eða af því að Costco er svona alvöru, stórt bandarískt fyrirtæki?
Ef einhverjar breytingar (lagabreytingar nota bene, ekki undanþágur) í átt til frjálsræðis verða gerðar þá er það fínt. En mikið ofboðslega finnst mér tilefnið hallærislegt.