Essasú?

Ég ætlaði að skrifa hérna eitthvað óvinsælt frá eigin hjarta um „Essasú“ myndina sem mér skilst að hafi farið ljósum logum um netheima undanfarið. Eitthvað í þá veruna að börnin okkar komi til með að borga fyrir IceSave hvað sem gert verður. Að þeir sem öskri um landráð að þeim sem vilja lágmarka þann skaða sem orðinn er ættu að athuga að hverjum þeir hrópi það.

En svo áttaði ég mig á því að myndin sem allir hafa séð alstaðar uppá síðkastið er vandfundnari en ég hélt. Ég hef ekki fundið hana ennþá. Vinir mínir eru greinilega snúnari manneskjur en að falla svo glatt fyrir tilfinningakláminu að senda það áfram til mín.

Mikið lifi ég blessunarlega vernduðu lífi.

Og tilraunir mínar til að leita að henni á internetinu leiddu ekki til neins (ég er greinilega næstumþví jafngóður að gúgla og Davíð Oddsson) nema þess má geta að þegar ég sló inn {essasú barn} í leit að myndum fékk ég uppástungu sem var furðulegri en svo að ég geti lýst því með orðum. Sjón verður bara að vera sögu ríkari.

Í hádeginu voru Cevapcici-bitar í paprikusósu. Ekki neitt voðalega svabískt, en virðist þó njóta töluverðrar hylli hérna í suðurríkjunum.