Söngvakeppni Sjónvarpsins: Úrslit! Í beinni!!!

Ji þaðeru bara úrslit í kvöld. Þetta verður aldeilis spennandi. Og allt í beinni útsendingu.

Nei í alvörunni. Sjö lög, misgóð einsog gengur, en ekkert þeirra afspyrnuslæmt. Og stefnir að óséðu í að þetta fari alltsaman ágætlega, hvernig sem fer.

Ég dundaði mér við það í dag að telja saman hvaða lög hefðu fengið mesta spilun í Þjónvarpinu. Eins og fólk gerir og er bara alveg fullkomlega eðlilegt. Ekkert bogið við það. Og. samkvæmt lauslegri könnun ættu strákarnir í Bláum Ópal að rúlla þessu upp. Mér sýnist sem það sé búið að glápa helmingi meira á þá helduren þau Gretu og Jónsa. Regína kom næst og svo Magni eitthvað þar fyrir aftan, og restin með enn minni athygli en það.

Sjálfur held ég að slagurinn verði á milli Gretu og Jónsa, Magna og strákanna í Bláum Ópal. Það vinnur dálítið gegn henni Gretu að eiga tvö góð (og dálítið svipuð) lög á úrslitakvöldinu. Ef þær Heiða og Guðrún Árdný stela ekki of miklu af athyglinni ættu Greta og Jónsi samt vel að geta unnið þetta. Ég vona það bara, held ég. Rokkballöðuslagurinn stendur á milli þeirra og Magna. Lagið hans er það besta sem hann hefur verið sendur með inní Söngvakeppni Sjónvarpsins. Og það er meiraðsegja bara býsna gott. Það gæti vel unnið líka. Strákarnir í Bláum Ópal hafa það með sér að vera með eina hressa stuðlagið í kvöld. Og gegn þeirri hefð sem hefur mótast í kringum hress stuðlög í Söngvakeppni Sjónvarpsins, þá er það alveg ljómandi fínt. Og þeir sungu það ekkert svo illa á undankvöldinu. Mér fyndist það síðri kostur en hin tvö, en samt alveg í góðu lagi. Ef þannig færi.

Jæja. Nú er það bara barnaþátturinn Merlín, meðan við bíðum. Hvað er eiginlega málið með að sýna þetta klukkan hálfátta á laugardagskvöldi? Er ég orðinn svona gamall, eða er þetta kannski ekki alveg sniðugasta sjónvarpsefnið til að sameina fjölskylduna við imbakassann?

Hvað er orðið af Fyrirmyndarföður æsku minnar?

Meðan við bíðum, er hægt að þegja um stóra Kristalhallarmálið? Ég veit ekki alveg hvað mér finnst. Ég skil æsinginn í honum Palla Óskari afskaplega vel; ég er bara ekki sannfærður um að það að segja sig frá keppni sé sjálfkrafa það rétta að gera í stöðunni.

Nú hef ég ekki sett mig inní þetta alltof náið. Þó er ljóst að fólk hefur verið borið út og farið illa með það. Tvennum sögum fer af því hversu beint það tengist því að verið er að reisa höll utanum söngvakeppnina.

Æ, ég veit það ekki. Það er hægt að bregðast við þessu á svo marga vegu sem væru bara hræsni. Eitthvað er sjálfsagt að gera. En að hætta við er ekkert endilega það rétta. Tala nú ekki um að halda sína eigin keppni með góða fólkinu og vinum okkar á Norðurlöndum. Mér finnst það, afsakiði, bara anga af Slavafordómum. Svona, „þið eruð búin að eyðileggja keppnina okkar og nú tökum við hana til baka“ fílingur.

En það er kannski bara ég.

Ooooog við erum byrjuð. Hera Björk tekur Evróvisjónsyrpu: Serbneska lagið Molitva (eða e-ð svoleiðis) hennar, þarna, Dijon. Eða, er hægt að tala um syrpu þegar lögin eru bara tvö? Hvað segja orðsifjarnar?

Á ég að tala um kjólana og svoleiðis? Æ, ég veit ekki. Jú auðvitað. Hvað er hún Brynja með um hálsinn?! Og hvar í andskotanum eru eiginlega Pallaétturnar?!!!

Noh. Græna herbergið bara grænt og alltsaman. Það munar ekki um það.

Jæja, þá eru það þær Heiða og Guðrún Árdný með „Aldrei sleppir mér.“ Það verður spennandi að sjá hvort þær verði aftur í hofgyðjudressunum. Og hvort Heiða „kafnar úr gæsahúð“ við flutninginn. Sjálfum finnst mér þetta það síðra af lögunum hennar Gretu Salóme. En ágætt lag samt.

Já, það eru hofgyðjudressin. Ambáttirnar í bakröddunum reyndar komnar í pils. Annars afskaplega ágætt. Þetta verður sennilega aldrei lagið sem vinnur — stóra spurningin hvað þetta stelur miklu frá hinu laginu hennar Gretu Salómear.

Og þá er Magni mættur. Er búið að taka saman tölfræði um það hvort að slott númer tvö sé sama bölvun í heimakeppninni og í Evróvisjónkeppninni sjálfri? Maður veltir því fyrir sér… en hann er hress og fyndinn gaur, hann Magni. Ég sá á biðröðinni í Bónus að hann og Eyrún eru á forsíðu Vikunnar. „Tapaði áttum eftir Rock Star.“ Synd að hafa ekki lesið þetta.

Myndastyttueffekt á gítarleikurunum í upphafi. Ééééveitekki. En hann syngur þetta vel, strákurinn. Og VÓ! bara tekur heddsettið úr eyranu og alltsaman. Áhættuatriði í beinni.

„Hugarró“ er gott lag. Besta lag sem Magni hefur verið sendur með í söngvakeppnina. Og þótt hann Sveinn Rúnar eigi tvö lög í keppninni þá eru þau það ólík að þau eru sennilega ekki mikið að bítast um sömu atkvæðin. Hann á góðan séns, hann Magni.

Þá er það hitt lagið hans Sveins Rúnars, „Stund með þér.“ Ég verð að segja að ég var ekki alveg sannfærður eftir flutninginn á forkvöldinu. Sjáum til núna.

Páll Óskar með óléttutölfræðina á tæru. Hún Rósa Birgitta vinnur mig ekki alveg á sitt band sem söngkona. En mikið óskaplega er hún falleg frumbyrja. Nei ókei, þetta er miklu betur lukkaður flutningur en á forkvöldinu. Ég fer að verða pínu hrifinn af þessu. Eiginlega bara mjög hrifinn. Eða kannski er það bara bumban og netatoppurinn.

Jæja, þá er það flippnúmer kvöldsins. Nú hneigist ég til að vera svag fyrir flippuðum atriðum: Botnleðju, Hvanndalsbræðrum. En ég var ekkert yfir mig hrifinn af Simba og Hrútspungunum þarna um daginn. Það vantaði eitthvað. Meira öryggi, til dæmis. Og nokkra sentimetra neðanundir forsöngvarann. Þeir byrja dálítið falskir. Og ekki alveg á slaginu. Farnir að syngja saman í erindinu. Æ, einhvernveginn gerir það þetta alltsaman bara enn líkara portúgalska flippnúmerinu frá í fyrra. Það er eiginlega fyrsta krafa á flippnúmer að það sé virkilega flippað. Ef það næst ekki almennilega, þá bara, tjah, þá er það ekki alveg nógu gott.

Noh. Tékknesku klaufabárðarnir á borðum í græna herberginu. Ég vil heyra söguna um það.

Ja mikið sem hann Sigtryggur Baldursson er nú alltaf heimilislegur.

Þá er það hún Regína og „Hjartað brennur.“ Og. loksins. eru. Pallaéttur. Gullskór og vindvél. Ég hef ekki séð svona hressilega notkun á vindvél síðan Eyvi söng „Ég er vindurinn sem þýtur“ hérna um árið.

Þess má annars geta að „Hjartað brennur“ er fyrsta lagið í söngvakeppninni sem er samið af samnorrænni nefnd. Hún var skipuð Svíum að þremur fimmtu. Og, æ, ég veit það ekki. Þetta er óttalega sænskt eitthvað, finnst mér. Og samið af nefnd. En hún gerði þetta vel stelpan, o seisei já.

Þá eru það hressu strákarnir í Bláum Ópal. Nú er ég búinn að tala vel um þetta lag, og þá vil ég bara segja strax að „Stattu upp fyrir sjálfum sér“ er pínlegasti texti sem heyrst hefur í gervalli Evróvisjónsögu Íslands frá upphafi. Evver.

Ég er svag fyrir austur-berlínska gangbrautarkarlinum. Og það er ánægjuleg tilbreyting að heyra unga stráka sem ekki syngja beinlínis illa. Ég er samt ekki alveg að kaupa blágráa Lumberdjakklúkkið. Hvar eru Hawaiiskyrturnar? Í það heila tekið: Hresst og vel flutt lag, ef ekki það merkilegasta frá upphafi Evróvisjón. Ég fer ekki að grenja ofaní glasið mitt þótt þetta stingi sér framúr þeim Gretu/Jónsa og Magna.

Einsog konan mín sagði um hana Gretu Salóme: Hún er með munninn fullan af tönnum. Afskaplega fallegum tönnum og hvítum, vissulega. En munnurinn á henni er fullur af þeim. Og hann er þó ekki lítill. Ji hvað þetta er svo fallegur kjóll. Hún er að stela hugmynd sem kviknaði á milli okkar hjónanna einusinni eftir að við vorum búin að kaupa okkur Volkstrachten þarna um árið: Það þarf að hæpa upp ódýrari og kúlaðri útgáfu af íslenska þjóðbúningnum. Og núna er hún til. Hún er á Eldborgarsviðinu í Hörpu.

Þetta er eiginlega bara dálítið ógeðslega flott. Ég held með þessu. Þetta gerir allt það rétt með þjóðlega væbið sem Simbi og Hrútspungarnir klúðruðu fyrr í kvöld.

Hei, höfundur „Stattu upp“ með annan klaufabárðinn í Græna herberginu. Hver er sagan? HVEEER EEER SAAAGAAAN?!!!  Fokk, hvernig í helvítinu er hægt að tala við mann með Napóleónshatt á hausnum og spyrja hann EKKI afhverju hann sé með tékkneska tuskudúkku í fanginu? Brynja, ertu ekki starfi þínu vaxin?!

Greiningardeildin leggst yfir tónlistarsögu Aserbæsjan. Og þykir mér hún öll hin fróðlegasta. Ég vil færa til bókar að ég hef alltaf haft gaman af Evróvisjónframlögum Aserbæsjana. Trú storí. Það er hægt að lúslesa bakklogginn minn því til staðfestingar.

Noh. Páll Óskar með mannréttindamónólóg. („Hvað er þetta með karlmenn og mónólóga?“) Ég tek ofan Napóleónshattinn: Hann þurfti að dansa eftir fínni línu í kvöld milli þess að kynna Evróvisjónforkeppni og agítera fyrir þeim sömu mannréttindum og hann vill að barist verði fyrir með því að draga sig útúr keppninni. And he’s actually pulling it off.

Ekki það að nokkur hafi þurft að efast.

Er að horfa á endurrennslið á þessu öllusaman. Það gerði sig ekki alveg hjá honum Simba og þeim að hrópa „Hey!“ og reka hnefann uppí loftið sem einn maður. Vakti ekki alveg réttu kenndirnar. Og þá er ég hættur að tala illa um þá, strákana. Nema að það kom smá sjokk hjá þeirri átta ára þegar hún áttaði sig á því að hún hafði óvart kosið „Hey“ í staðinn fyrir „Stattu upp.“ Hún fékk að kjósa aftur. Önnur atkvæði á heimilinu fóru til Magna og Gretu/Jónsa.

Spurningakeppni græna herbergisins. Sveinn Rúnar, HVERNIG ER HÆGT AÐ VITA EKKI AÐ HERREYS-SKÓRNIR VORU GYLLTIR, FOR KRÆNG ÁT LÁD?!!!

Jæja, þá fer þetta að verða búið. Mín spá er óbreytt: Ég bæði held og vona að „Mundu eftir mér“ muni vinna. Ef „Hugarró“ eða „Stattu upp“ hnuplar sigrinum þá verður það ágætt. Önnur úrslit myndu koma mér óþægilegar á óvart.

Greiningardeildin með fullt af góðum lögum sem aldrei tóku þátt. Tek undir hverja tillögu. Mér hefur tildæmis alltaf fundist að Sigurrós ætti að semja þriggja mínútna popplag og fara í Evróvisjón. Alas, allt það sem aldrei varð en hefði getað orðið.

Rennt yfir samkeppnina. Mér sýnist Noregur ætla að fara all-in í ár. Páll Óskar varpar sprengju: Hættur með Evróvisjónþáttinn Alla leið. Could life ever be same again? Hera Björk og Valgerður ræða um breytt fyrirkomulag með hlutverki aðdáenda í sjónvarpssal. Ef mér verður ekki boðið þangað verð ég verulega móðgaður.

Oooog úrslitin eftir bókinni. „Mundu eftir mér“ til Bakú og „Stattu upp“ í öðru sætinu. Allir sáttir bara. Takk fyrir kvöldið.

Evróvisjón!

Ég er dálítið mikið að hugsa um lög þessa dagana. Lög af ýmsu tagi. Í dag langar mig að skrifa um Evróvisjónlög. Kannski skrifa ég um einhvern veginn öðruvísi lög seinna. Svo skrifa ég ábyggilega meira um Evróvisjónlög líka. Ég meina, kommon, þetta blogg er búið að halda sér á lífi (eða svonaaaa, með mislöngum hléum og einni breytingu á heimilisfangi) í bráðum tíu ár og það er tvennt sem ég hef alltaf skrifað um, á hverju ári: Ignóbelverðlaunin og Evróvisjón. Það er ekkert að fara að breytast.

Mér hefur verið misvel við að skipta mér af forkeppnunum hér heima í gegnum tíðina; vanalega fundist alveg nóg að tjá mig um úrslitaþáttinn. Það hefur komið fyrir að í forkeppnum hafa troðið upp flytjendur sem hafa, ahemm, boðið uppá skemmtileg skrif á sinn kostnað. En maður kann ekki alveg við það. Eins og að sparka í liggjandi mann – maður gerir ekki svoleiðis. Í úrslitaþættinum eru þó eingöngu lög sem góður hluti þjóðarinnar er búinn að kvitta uppá að sé ekki alveg ómögulegur. Þá má nú alveg gera grín ef tilefni er til.

En það verður að tveimur vikum liðnum. Ég veit ekki alveg hvað gerist um næstu helgi – ég sá eitthvert rafrænt pískur um aukaþátt þarsem sérstökum jókerum yrði deilt út til frambærilegra laga sem hefðu setið eftir á undankvöldunum, en ekki hafa mig fyrir því elskan. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Allavega.

Um kvöldin tvö sem eru búin hef ég lítið annað en gott að segja. Fyrirfram fannst mér fyrsta kvöldið nokkuð jafnt, og þar var ekki eitt slakt lag að finna, en eftir flutning og úrslit var augljóst að bestu lögin tvö komust áfram. Annað kvöldið fannst mér í heildina síðra, en enginn landsdómsskandall í gangi þar heldur allavega.

En kvöldið í kvöld maður. Vó. Engir liggjandi menn hérna takk fyrir. Fimm páerballöður í röð. Hver annarri páeraðri og ballaðaðri. Erindi, viðlög, millikaflar, krókar og hálftónshækkanir, allt á réttum stöðum. Þetta verður rosalegt. Svo rosalegt að það verður roshalegt. Fyrirfram sýnist mér Magni öruggur áfram: „Hugarró“ er með sterkan krók sem maður losnar ekki við. Keppnin á milli hinna fjögurra verður óræðari. Ég þekki ekkert til hans Svenna Þórs sem syngur „Augun þín,“ lagið formúlukennt og by-the-numbers en kommon, þetta er Evróvisjón! og þungarokksöskrið vann mig á bandið í restina. Svo er hún Greta Salóme frá fyrsta kvöldinu komin aftur með annað lag sem er gott, en kannski ekki alveg eins gott og hitt (vantar agnhöld á krókinn), og Herbert Guðmundsson.

Herbert Guðmundsson.

Ég bara varð að skrifa það aftur. Þetta er svo epískt.

Humm. Ég sé nú reyndar að Wikipediugreinin um hann hefur tekið dálitlum breytingum frá því ég leit á hana síðast, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Fróðlegur lestur.

Einsog ég sagði, ég held að Magni fari áfram í kvöld. Og ef dívuhópurinn hennar Gretu Salómear (?) fer áfram með honum held ég að hann gæti átt eftir að fara alla leið til Baku (þarsem aðdáendur laganna hennar Gretu skiptast þá í tvennt). Ég held hinsvegar að Herbert fari áfram með honum í staðinn. For old times sake. Fyrir utan náttúrulega að „Eilíf ást“ er það besta sem úr þeirri áttinni hefur komið í meiren aldarfjórðung. (Og þá myndi ég veðja og Gretu Salóme og Jónsa til Baku, enda sá entrans svakalegur.)

En sjálfur stefni ég á að kjósa lagið sem ég skildi eftir þartil síðast. Mér er málið reyndar skylt þarsem ég er höfundinum málkunnugur. En lagið er skemmtilega öðruvísi en öll hin, það eina fyrir utan lagið hans Magna sem situr sjálfkrafa eftir í hausnum þegar flutningi er lokið, og mér sýnist á öllu að stelpan eigi að geta gert þetta vel á sviði. Ég hlakka til kvöldsins, hvernig sem fer:

ljóð (þýðing úr táknmáli)

Ég var á hjartnæmum tónleikum fyrr í kvöld: Tónleikum sem Félag heyrnarlausra hélt til að fagna því að Alþingi skyldi hafa viðurkennt íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra í vor sem leið. Heyrandi og heyrnarlausir listamenn fluttu tónlist hlið við hlið fyrir nánast fullri Langholtskirkju.

Falleg stund.

Hún minnti mig á dálítið. Mér varð hugsað til þess að öll lög kvöldsins voru lög við ljóð sem upphaflega voru samin við íslenskan eða enskan texta og svo þýdd yfir á táknmál fyrir tilefnið. Mér varð hugsað til þess að það er til ljóðlist á táknmáli sem hefur ekki verið þýdd yfir á íslenskt raddmál, hvað þá sett við tónlist. Og allt í einu rifjaðist upp fyrir mér kvöld á liðinni öld þegar ég sat með konunni minni á öldurhúsi í hópi heyrnarlausra og einn þeirra fór með ljóð fyrir okkur. Ég sá hann flytja það og hugsaði að þetta væri ekki hægt að þýða. En það skondna var að um leið og ég sá hann fara með ljóðið skildi ég um hvað það var, þótt ég kynni ekki tungumálið. Þetta ljóð rifjaðist upp fyrir mér í kvöld og mér datt í hug að ef það yrði þýtt, þá væri það einhvern veginn svona:

– – –

flýgur fugl yfir

(kyssir sléttan vatnsflötinn)

flýgur fugl undir

– – –

En svo hefðuð þið náttúrulega bara þurft að sjá það.

Ignóbelsverðlaunin 2011

Ignóbelsverðlaunin 2011 voru veitt við hátíðlega athöfn á fimmtudagskvöldið var. Eins og ég hef rakið á þessu bloggi á hverju einasta ári síðan ég byrjaði, þá eru þetta verðlaun sem kallast á við Nóbelsverðlaunin, en í stað þess að verðlauna það merkasta úr vísindaheiminum, þá eiga verðlaunahafarnir það sameiginlegt að hafa miðlað heiminum nýrri og áður óþekktri þekkingu sem fær fólk fyrst til að skella uppúr, og síðan til að hugsa. Í einhverjum tilvikum (þetta er þó ekki reglan) er um að ræða rannsóknir sem er ekki hægt og á ekki að vera hægt að endurtaka.

Meðal verðlaunahafa í ár kenndi margra grasa.

Ignobel2011-1
Skjaldbaka geispar. Skýringarmynd.

Frá örófi alda hefur fólk velt fyrir sér geispum og tilgangi þeirra, smithættu og þróunarfræðilegum uppruna. Ignóbelsverðlaunin í lífeðlisfræði í ár fara til vísindamanna frá Bretlandi, Hollandi, Ungverjalandi og Austurríki fyrir framlag sitt til rannsókna á þessu sviði, greinina „No Evidence of Contagious Yawning in the Red-Footed Tortoise,“ (PDF) þar sem einmitt er sýnt fram á (titillinn segir þetta alltsaman, raunar) að ekkert bendi til þess að geispar rauðfættra skjaldbaka séu smitandi. Ekki fer neinum sögum af rannsóknum á geispatíðni rannsakenda meðan rannsóknin fór fram.

Ignóbelsverðlaunin í efnafræði fóru í ár til japanskra rannsakenda fyrir þróun þeirra á Wasabi-bjöllunni, brunavarnarkerfi sem er ætlað að vekja sofandi fólk í brennandi húsum um nótt með því að úða ertandi wasabi-dufti um vistarverurnar, eins og lesa má um í einkaleyfisumsókn þeirra þar að lútandi (PDF).

Hver kannast ekki við að hafa verið alveg í spreng, og láta það hafa áhrif á ákvarðanir sínar. Verðlaunin í læknisfræði fóru í ár til fjölþjóðlegs rannsóknarhóps (Holland, Bretland, Belgía, Bandaríkin, Ástralía) sem bar saman ákvarðanatöku fólks þegar því var ýmist 1) ekkert mál, 2) dálítið mál, 3) mikið mál, 4) óþægilega mikið mál, eða 5) þegar það var nýbúið að pissa. Rannsóknirnar sýndu fram á það að þegar maður er í alveg ógeðslega miklum hlandspreng, þá hættir fólki til að taka betri ákvarðanir um sumt, en verri ákvarðanir um annað.

"Tasks that make one sigh" - Titillinn segir það alltsaman.
"Tasks that make one sigh" - Titillinn segir það alltsaman.

Ignóbelsverðlaunin í sálfræði fóru í ár til hans Karls Halvor Teigen við Háskólann í Osló, fyrir rannsóknir hans á því hvað það er sem fær fólk til að stynja úr leiðindum. Það gerði hann með því að leggja fyrir viðföng sín ýmis leiðinleg úrlausnarefni (sjá mynd), og fylgjast með viðbrögðum þeirra við úrlausnina. Niðurstöður hans má lesa um í greininni „Is a Sigh ‘Just a Sigh’? Sighs as Emotional Signals and Responses to a Difficult Task„. Ekki fylgir sögunni hversu mikið hann Karl Halvor dæsti sjálfur við rannsóknirnar, en gera má því skóna að á verðlaunakvöldinu hafi hann haft um nóg að spjalla við handhafa lífeðlisfræðiverðlaunanna.

Bókmenntaverðlaun Ignóbels í ár féllu í skaut John Perry við Stanfordháskóla í Bandaríkjunum fyrir kenningu hans um skipulagða frestunaráráttu (Theory of Structured Procrastination), sem gengur í grófum dráttum út á að ágæt leið til að afkasta miklu sé að nota vinnu sína við eitthvað mikilvægt sem afsökun til að koma sér undan því að gera eitthvað ennþá mikilvægara. Verðlaunaverkið, „How to Procrastinate and Still Get Things Done,“ er aðgengilegt í fullri lengd á internetinu og hver sá sem ætlar sér stóra hluti í lífinu getur hérmeð notað lestur þess sem hina fullkomnu afsökun fyrir því að vera ekki að gera eitthvað annað akkúrat núna.

Ignobel2011-3
Karlkyns bjöllur í ástaleik. Við bjórflöskur.

Ignóbelsverðlaunin í líffræði fóru til Ástralíu, þar sem vísindamennirnir Darryl Gwynne og David Rentz komust að því að karldýrum bjöllunnar Julodimorpha bakewelli er gjarnt að reyna að maka sig við bjórflöskur. Í greininni „Beetles on the Bottle: Male Buprestids Mistake Stubbies for Females (Coleoptera)“ velta þeir fyrir sér mögulegum afleiðingum þess á vistfræði tegundarinnar og þróunarfræðilegum afleiðingum með tillliti til kenningarinnar um kynjað val.

Ignóbelsverðlaunin í eðlisfræði voru veitt frönskum og hollenskum vísindamönnum, fyrir rannsóknir þeirra á því hvers vegna keppendur í ólympísku kringlukasti verða ringlaðir, en keppendur í sleggjukasti hinsvegar ekki.

Heimsendaspámenn eiga sér langa og þyrnum stráða sögu. Í ár ákvað Ignóbelsverðlaunanefndin að heiðra þau Dorothy Martin (sem spáði heimsendi árið 1954), Pat Robertson (sem spáði heimsendi árið 1982), Elizabeth Clare Prophet (sem spáði heimsendi árið 1990), Lee Jang Rim (sem spáði heimsendi árið 1992), Credonia Mwerinde (sem spáði heimsendi árið 1999) og loks Harold Camping (sem spáði heimsendi í september 1994, og svo aftur í maí síðastliðnum og enn aftur núna síðar í þessum mánuði) með Ignóbelsverðlaununum í stærðfræði fyrir að kenna fólki að fara varlega í stærðfræðilegum útreikningum og ályktunum um afleiðingar þeirra.

Friðarverðlaun Ignóbels í ár hlaut hann Arturas Zuokas, borgarstjórinn í Vilnius, fyrir nýstárlega áætlun sína þess efnis að nota skriðdreka til að stemma stigu við ólöglega lögðum bílum í miðborginni. Jón Gnarr gæti íhugað einhverjar lausnir í líkingu við þessa til að taka fyrir það að fólk leggi ólöglega við íþróttamiðstöðvar og í miðborg Reykjavíkur á stórhátíðum:

Að síðustu má geta þess að John Senders við Torontoháskóla hlaut lýðheilsuverðlaunin fyrir tilraunir sínar í umferðaröryggi, sem fólust í því að aka eftir hraðbraut með hjálm á hausnum sem reglulega skellti hlíf fyrir augun á honum þannig að hann sá ekki hvert hann var að keyra. Hér er sjón svo sannarlega sögu ríkari:

Topp tíu spáin fyrir kvöldið og fordómar Páls Óskars

Kominn á skerið og lífið í svona nokkurnveginn fastar skorður. Og Evróvisjón í kvöld og ég hef ekki tjáð mig um það einu orði. Liggur við fyrsta Evróvisjónbloggfalli frá því ég byrjaði á þessu fyrir meira en … hvað … átta árum.

Sjitt. Ég hef dútlað við þetta í meira en átta ár (með hléum).

En, jæja.

Það er allavega ennþá tími fyrir topp tíu spá kvöldsins.

Við hjónin erum dálítið skotin í franska laginu. Við fyrstu hlustun heyrði maður fyrst og fremst hvað hann syngur þetta fantavel, strákurinn, án þess að lagið sæti beinlínis eftir. Svo áttaði ég mig á því strax frá upphafi annarrar hlustunar að maður gat sungið með hverju orði – þetta lag er einhvernveginn skrifað svo beint af augum. Svo er náttúrulega gefið að þetta mun falla í kramið hjá dómnefndunum, auk þess sem flutningurinn sjálfur virðist spyrjast vel út þarna úti í Düsseldorf. Ég held að þetta endi í svona sirkabát þriðja sæti. Og áður en næsta vetrarvertíð hefst verður þetta orðinn ómissandi partur af reppertoríi hvers einasta Garðars Thor Cortes útum allan heim.

Það er náttúrulega vitað að Rússar fá fullt af stigum frá þeim löndum sem Stalín flutti þá út til á sínum tíma. Þetta er ein af sterkustu blokkum keppninnar (sennilega sú fjórða, á eftir Grikklandi/Kýpur, Rúmeníu/Moldavíu og Skandinavíumafíunni). Og þýðir það að Rússum gengur vel, svo lengi sem þeir senda skítsæmilegt lag (og þurfa stundum ekki einusinni þess, sbr. Dima Bilan). Oftast senda þeir reyndar blessunarlega einhverja hörmung. En ekki núna. Hann Alexej er sætur og syngur skammlaust, lagið í skárri kantinum, dansararnir góðir og ljósagimmikkið flott. Hann lendir aldrei neðar en í öðru sæti. Og gæti þessvegna unnið.

Ef ekki væri fyrir Jedward. Fyrst þegar ég sá þá hugsaði ég bara jiminneinihvaðereinlamálið.  En svo náði ég því: þessir strákar eru bara gjörsamlega KICK-ASS. Gargandi (og þá meina ég bókstaflega gargandi) snillingar. Fyrsta sætið svogottsem í kassanum. Krakkarnir mínir fengu Evróvisjóndiskinn á heimilið núna fyrr í vikunni. Lipstick hefur verið á repeat-ad-nauseam síðan þá. Ég er ekki farinn að æla ennþá.

Svo grunar mig að bæði Serbía og Aserbadjan lendi þarna skammt fyrir neðan. Frábær lög hvortveggju og vel flutt. Það serbneska sérstaklega sjarmerandi. Og það er komið topp fimm.

– – –

(Innskot, því tengt…)

Ég hlustaði á útvarpið í gær. Heyrði hann Pál Óskar barma sér fyrir hönd hennar Stellu Mwangi yfir því að hún komst ekki áfram. Halda því fram að austantjaldsfólk kysi ekki góð lög ef þau væru flutt af þeldökku fólki. Segja nánast berum orðum: „Fólk af slavnesku bergi brotið er bara fullt af kynþáttafordómum.“

Vel gert Palli minn, hugsaði ég þá. Vel gert.

Fyrr um morguninn var frábær grein í Fréttablaðinu eftir landa okkar Palla, hann Pawel Bartoszek, þar sem hann benti á (og ég umorða svo henti betur minni eigin agendu) að ef hægt væri að saka einhverja um kynþáttafordóma í Evróvisjónstigagjöf, þá væru það Íslendingar: Við gefum austantjaldsþjóðum markvisst og kerfisbundið færri stig en þær ættu allajafna skilið. Á meðal þeirra þjóða sem verða hvað harðast úti hjá okkur eru Aserbadjan og Georgía. Ef þessum löndum gengur vel í kvöld, en verða dissuð í stigagjöf frá Íslandi, þá vil ég bara núna fyrirfram lýsa frati á hvern þann sem fyrstur eftir úrslitin segir „Austantjaldsmafía.“

Gerum núna smá Gedankenexperiment og berum saman tvö áþekk lög í ár, það danska og það aserbadjanska. Ég þori að veðja hverju sem er að það danska mun fá að minnsta kosti helmingi fleiri stig frá Íslendingum en hitt lagið. Vel líklegt að við gefum því frá Aserbadjan ekki eitt einasta stig, ef sagan segir okkur eitthvað.

(Innskot í innskoti: Akkúrat núna er aserbadjanska lagið í græjunum, og frúin spyr mig frá straubrettinu: „Er þetta Danmörk?“)

Nú fullyrði ég: Ef A New Tomorrow væri flutt af aserbadjönsku strákahljómsveitinni A Friend in London, og Running Scared af danska krúttdúóinu Elkjær og Nikkólínu, þá værum við öll að eipa einsog moðerfokkerar yfir því hvað dönsku krakkarnir væru sætir og lagið þeirra skemmtilegt, og gerði nú ekkert til þótt það væri smá U2/Britpop fílingur í því og svona. En þetta New Tomorrow frá Aserbadjan væri nú hálfmislukkað, auk þess sem það væri þrælstolið. Ég meina, þetta er bara nákvæmlega það sama og Roger Whittaker söng um í New World in the Morning, og það eru nú komin meira en þrjátíu ár síðan að það var sko.

– – –

Að því sögðu finnst mér vel líklegt að Danmörk verði einhversstaðar uppundir sjötta sætið, enda lagið gott (þótt það sé kannski pínulítið stolið). Svo ættu lögin frá Grikklandi (þrátt fyrir ömurlegan rappara og danslausasta takt sem nokkru sinni hefur verið notaður í lagi sem heitir Watch my dance), Finnlandi (ooooo, hann Óskar er svo mikið krútt) og Georgíu (bara tímaspursmál hvenær screamo mætti í Evrovisjón) að vera meðal tíu efstu líka.

Og vinirnir hans Sjonna. Þeir verða þarna líka – það stoppar enginn sjávarföll sögunnar.

(Og engan væl hérna um að sagan á bakvið lagið eigi ekki að skipta máli. Því hún gerir það, og hún á að gera það. Case in point: Þegar Dana International (sem datt verðskuldað út í ár) vann Evróvisjón árið 1998, þá var lagið eitt og sér alveg ágætt. En ekki svo gott. Óaðskiljanlegur partur af laginu var sú staðreynd að það var sungið af kynskiptum einstaklingi. Það er alltaf saga á bakvið lagið. Stundum er hún stórfengleg. Þá fylgir hún laginu. Það er bara svoleiðis.)

Stórbokkarnir Þýskaland og Stóra-Bretland verða þarna skammt undan og gætu skotið sér inn á topp tíu. Annað er langsóttara – ég held sjálfur með Moldavíu; Úkraína og Bosnía-Hersegóvína gætu troðið sér ofantil ef dómnefndirnar skipta sér ekki of mikið af nágrannakosningunni, og það eru þarna fleiri númer sem gætu komið á óvart ef vel gengur, s.s. lögin frá Litháen og  Eistlandi. En það er meiri vonarpeningur. Og hann Eiríkur sænski getur bara fengið sér rettu og gleymt þessu – hann var heppinn að ná að skríða inní úrslitin.

En Jedward munu rúlla upp kvöldinu. Sanniði til.

Frá Tübingen til Barcelona

Um liðna helgi buðu búlgörsku vinirnir mér í mat á sunnudagskvöldinu. Það var ljúft. Svo voru tveir vinnudagar og að kvöldi þriðjudagsins flaug ég til Barcelona. Mestur tíminn síðan þá hefur farið í að sitja ráðstefnu og fundi, en samt hafði ég tíma til þess að skoða Sagrada Familia á miðvikudaginn og Picassosafnið og Römbluna í gær. Áður en ég lagði í hann hafði ég samband við gamlan skólafélaga sem á heima hér í borginni uppá að hitta hann meðan ég væri hérna. Það verður í kvöld.

Á morgun flýg ég aftur til Þýskalands. Ég á eftir tvo vinnudaga á deildinni, svo verða tveir dagar sem ég hef til að pakka niður og þrífa, og á föstudaginn flýg ég heim.

Þetta er bara að verða búið.

Fasnet og fleira (TÍT6)

IMG_0059
Innan við mínúta til leiksloka og sigur næstum í höfn.

Gamla myndavélin okkar sem frúin notaði til að taka myndir hérna úti hefur látið á sjá eftir nokkrar byltur. Svo ég fór í raftækjabúðina Saturn um þarsíðustu helgi og keypti nýja. Strax þá um laugardagskvöldið vígði ég hana á körfuboltaleik í Paul Horn Arena þar sem Tígrarnir hans Walters völtuðu yfir EWE Baskets Oldenburg. Loksins, eftir fjórar tilraunir (í körfunni, og eina í viðbót í boltanum) upplifði ég gleðina sem felst í heimasigri. Hún er góð. Mín er freistað að mæta í síðasta sinn á heimaleik á laugardaginn kemur – Tígrarnir unnu Ulm á útivelli um liðna helgi og eru á góðum gangi með fimm sigra í röð í hnakktöskunni. Hillir undir séns á átta liða umspilinu um bikarinn með þessu áframhaldi.

Daginn eftir var samt hin eiginlega ástæða þess að ég dreif í myndavélarkaupunum: Tübinger Fasnetsumzug.

Vígalegar.
Vígalegar.

Aðdragandi lönguföstu er mun líflegri hér en heima. Og byrjar strax að kvöldi þrettándans (Dreikönigstag) þegar Fasnetsfélögin setja upp föstugrímurnar í fyrsta skipti. Síðan í gegnum janúar og febrúar ber smám saman meira á þeim þartil síðustu helgar fyrir lönguföstu eru skrúðgöngur í nánast hverjum bæ.

Norðar í landinu eru kjötkveðjuskrúðgöngurnar miklar gleðigöngur, sungið og dansað og trallað og hoppað og híað. Hér suðrí Schwaben er allt með mun myrkari blæ: Hér vaða nornir og draugar og allskonar narrar uppi og hrekkja þá sem mæta til að horfa, milli þess sem þau gauka sælgæti að börnunum. Það er eitthvað mjög frumstætt og heiðið við þetta, eitthvað svo miklu eldra en kristnu rætur lönguföstunnar. Hamslaus og dálítið ógnvekjandi tónn sem liggur undir allri leikgleðinni.

Vinurinn og vinnufélaginn á leiknum á laugardaginn. Takið eftir Tígratreflinum.
Vinurinn og vinnufélaginn á leiknum á laugardaginn. Takið eftir Tígratreflinum.

Á þriðjudeginum bauð ég til kveðjuveislu í vinnunni; eða, við vorum tveir sem slógum saman, ég að hætta og hinn að byrja, veisla fyrir þá sem mætast í gættinni þegar einar dyr opnast. Það lukkaðist vel. Á miðvikudagskvöldið spilaði ég á spil með vinum mínum.

Fyrir svona tveimur vikum hafði samband við mig vinnufélagi ofan af Hertie Institute (við unnum saman að þessu hérna sem birtist um daginn) og sagðist vilja fara út að borða með mér áður en ég færi. Svo við mæltum okkur mót á Pylsueldhúsinu á föstudagskvöldið var. Ég fékk minn síðasta disk af velútilátnu Schwäbische Küche og við sötruðum hveitibjór, ræddum um vinnuna, persónulegu málefnin og ástandið í heimsmálunum.

Nú líður senn að lokum dvalar hjá mér hérna úti. Sá fyrri af tveimur endapunktum var á mánudaginn var, þegar allir sem koma að verkefninu hérna úti og í Reykjavík hittust á fundi í Frankfurt til að fara yfir stöðuna með fulltrúum frá Evrópusambandinu til að sjá hvort peningunum frá þeim væri vel varið. Og voru bara allir vel sáttir. Um kvöldið mælti ég mér mót við vin og vinnufélaga á tónleikum í Neue Aula til að halda uppá vel lukkaðan dag: Hagen Quartett lék verk eftir Mozart, Schostakovich og Beethoven.

Seinni endapunkturinn verður í næstu viku, þegar ég fer á ráðstefnu í Barcelona og kynni þar niðurstöður úr hluta þess sem ég hef verið að gera hérna úti. Og í lok vikunnar eftir það flýg ég heim.

Rassskelling í Stuttgart (TíT5)

P2125880
Fyrir leik, meðan allir voru enn í góðum fíling.

Ég fór við annan mann til Stuttgart á laugardaginn var. Við skoðuðum Mercedes Benz safnið og sáum FC Nürnberg rassskella VfB Stuttgart á útivelli, 1:4. Það var bjart yfir öllum fyrir leik, VfB hafði átt góðan útisigur gegn Borussia Mönchengladbach helgina áður og Cacau allur að koma til eftir meiðsli. Og heimaliðið byrjaði mun betur, fyrstu tíu mínúturnar. Svo var staðan alltíeinu orðin 0:2. Þá kom ágætur fimm mínútna kafli og munurinn minnkaður í 1:2 fyrir leikhlé. Cacau kom inná í hálfleik og smá von fyrstu fimm mínútur þar á eftir. Svo var þetta bara ömurleg frammistaða. Dómarinn nennti þessu ekki lengur og blés leikinn af eftir 89 mínútur og 48 sekúndur. Það kvartaði enginn yfir því. En við heyrðum leikvanginn blístra og púa á sína menn meðan við gengum út.

P2125875
Silfurörin.

Safnið var flott. Ég mæli með því.  Og reyndar ógeðslega gaman að fara á leikinn, þótt „sínir menn“ hafi staðið sig hörmulega. Ég er dæmdur til að verða fylgjandi fyrir lífstíð. Kominn með trefil og allt. Og fullkomin byrjun á aðdáandaferlinum ef þeir byrja svo á því að falla niður í aðra deild, eins og allt lítur út fyrir.

– – –

Út-að-borða-með-allra-þjóða-kvikindunum datt hinsvegar uppfyrir. Og sá sem var e.t.v. að snúa aftur er ekki að snúa aftur. Hann flaug í dag til Ítalíu þar sem hann á fjölskyldu og verður þar eitthvað áfram.

Í staðinn vorum við fimm sem hittumst á gríska veitingastaðnum handan við Waldhausen á þriðjudagskvöldið var. Fórum svo þaðan heim til Frakkans í félagsskapnum og spiluðum á spil framyfir miðnættið.

Annars hefur ekkert verið að gerast. Nema vinnan. Sem er skemmtileg þessa síðustu daga fyrir heimför, en sosum ekki til að segja frá henni þannig að lifni ljós í augum barnanna.

– – –

Síðustu dagar fyrir heimför. Núna eru akkúrat fjórar vikur þangað til ég halla höfði í mínu eigin rúmi eftir tveggja ára hlé, þar af tvo og hálfan mánuð fjarri hlýju hjónasængur. Ég er farinn að telja dagana.

En þetta er búinn að vera góður tími hérna úti. Mjög góður.

– – –

Það stefnir í að ég fari eitthvað út með indverskum vinnufélaga (og e.t.v. einhverjum fleirum) ofan af Hertie Institut á föstudaginn eftir viku. Á þriðjudagsmorguninn hef ég rottað mig saman við annan niðri á Med.Gen.Abt. í smá kaffi, Sect og meððí handa öllum á deildinni. Og á sunnudaginn er Tübinger Fasnettsumzug. Vonandi get ég tekið einhverjar myndir til að sýna frá því hérna. Myndirnar hér að ofan eru frá bandaríska meðreiðarsveininum.

– – –

Ég hef fylgst með tíðindum undanfarinna daga og vikna heimanað. En mig langar einhvernveginn takmarkað að tjá mig um þá. Ekki úr þessu, ekki fyrr en ég verð kominn heim, held ég. Þangað til verð ég hérna úti.

Tepokar í Tübingen (4)

Það er ekki margt sem drífur á dagana. En eitthvað þó.

Tónleikarnir með Joy Kills Sorrow í þýsk-bandarísku vináttumiðstöðinni voru frábærir. Svo frábærir að ég keypti tvo diska með þeim, einn fyrir mig og einn fyrir þýskan vin minn, vinnufélaga og fjölskylduföður sem bauð mér og fleirum út að borða í afmælismorgunkaffi á sunnudeginum. Það var drukkið kaffi og spjallað, tvær af fjölskyldunum eru á leið til Íslands í sumar og því var töluvert rætt um það hvað ætti að gera þar. Svo börðust krakkarnir fyrir því að farið var í arabíska símann. Nokkra hringi.

Bakkushan nennti ég enganveginn, þegar til átti að taka.

Á fimmtudagskvöldið var ég boðinn í mat til bandarískra nágranna. Þar var boðið uppá hið ágætasta „Gumbo,“ sötraður Stuttgarter Hofbräu og rætt um hin ýmsustu mál. Mér var boðið með niðrí D.A.I. að horfa á Superbowl í nótt, en ég þakkaði pent. Í staðinn ætlaði ég að fara með bóndanum á heimaleik með Walter Tígrunum niðri í Paul Horn Arena á laugardagskvöldinu. Um laugardagsmorguninn beið mín hinsvegar tölvupóstur frá honum þar sem hann sagðist vera veikur og ekki treysta sér. Í staðinn fyrir að fara einn á leikinn (þar sem ég hefði reyndar hitt a.m.k. tvo ef ekki þrjá vinnufélaga) ákvað ég að vera heima og reyna mig við að elda Maultaschen frá grunni. Það lukkaðist ekki nema svona og svona. Kannski engin skelfileg katastrófa, alveg ætt svosem, en bara ekki nógu gott. Það verður reynt aftur síðar.

Það er eitthvað sem stendur til á næstunni. Ég ætla að reyna að gleyma ekki að horfa á seinni undanúrslitaþáttinn á morgun (ólíkt þeim fyrri fyrir viku síðan), þar sem Þjóðverjar velja lag handa henni Lenu Meyer-Landruth til að keppa með í Evróvisjón í Düsseldorf seinna í vor. Ég segi kannski eitthvað um það seinna. Og jafnvel um íslensku keppnina – ég á mér hefð til þess.

Á miðvikudagskvöldið stefnir í að við förum út að borða nokkur á deildinni, með vinnufélaga og ágætum vini mínum sem veiktist í september síðastliðnum og er e.t.v. að snúa aftur þessa dagana. Um næstu helgi ætla ég svo að fara með bandaríska húsbóndanum að sjá heimaleik með VfB.

En núna ætla ég að horfa á annan þáttinn af sex í Das Boot – miniseríunni, sem ég gat ekki staðist að kaupa mér um daginn.