Fasnet og fleira (TÍT6)

IMG_0059
Innan við mínúta til leiksloka og sigur næstum í höfn.

Gamla myndavélin okkar sem frúin notaði til að taka myndir hérna úti hefur látið á sjá eftir nokkrar byltur. Svo ég fór í raftækjabúðina Saturn um þarsíðustu helgi og keypti nýja. Strax þá um laugardagskvöldið vígði ég hana á körfuboltaleik í Paul Horn Arena þar sem Tígrarnir hans Walters völtuðu yfir EWE Baskets Oldenburg. Loksins, eftir fjórar tilraunir (í körfunni, og eina í viðbót í boltanum) upplifði ég gleðina sem felst í heimasigri. Hún er góð. Mín er freistað að mæta í síðasta sinn á heimaleik á laugardaginn kemur – Tígrarnir unnu Ulm á útivelli um liðna helgi og eru á góðum gangi með fimm sigra í röð í hnakktöskunni. Hillir undir séns á átta liða umspilinu um bikarinn með þessu áframhaldi.

Daginn eftir var samt hin eiginlega ástæða þess að ég dreif í myndavélarkaupunum: Tübinger Fasnetsumzug.

Vígalegar.
Vígalegar.

Aðdragandi lönguföstu er mun líflegri hér en heima. Og byrjar strax að kvöldi þrettándans (Dreikönigstag) þegar Fasnetsfélögin setja upp föstugrímurnar í fyrsta skipti. Síðan í gegnum janúar og febrúar ber smám saman meira á þeim þartil síðustu helgar fyrir lönguföstu eru skrúðgöngur í nánast hverjum bæ.

Norðar í landinu eru kjötkveðjuskrúðgöngurnar miklar gleðigöngur, sungið og dansað og trallað og hoppað og híað. Hér suðrí Schwaben er allt með mun myrkari blæ: Hér vaða nornir og draugar og allskonar narrar uppi og hrekkja þá sem mæta til að horfa, milli þess sem þau gauka sælgæti að börnunum. Það er eitthvað mjög frumstætt og heiðið við þetta, eitthvað svo miklu eldra en kristnu rætur lönguföstunnar. Hamslaus og dálítið ógnvekjandi tónn sem liggur undir allri leikgleðinni.

Vinurinn og vinnufélaginn á leiknum á laugardaginn. Takið eftir Tígratreflinum.
Vinurinn og vinnufélaginn á leiknum á laugardaginn. Takið eftir Tígratreflinum.

Á þriðjudeginum bauð ég til kveðjuveislu í vinnunni; eða, við vorum tveir sem slógum saman, ég að hætta og hinn að byrja, veisla fyrir þá sem mætast í gættinni þegar einar dyr opnast. Það lukkaðist vel. Á miðvikudagskvöldið spilaði ég á spil með vinum mínum.

Fyrir svona tveimur vikum hafði samband við mig vinnufélagi ofan af Hertie Institute (við unnum saman að þessu hérna sem birtist um daginn) og sagðist vilja fara út að borða með mér áður en ég færi. Svo við mæltum okkur mót á Pylsueldhúsinu á föstudagskvöldið var. Ég fékk minn síðasta disk af velútilátnu Schwäbische Küche og við sötruðum hveitibjór, ræddum um vinnuna, persónulegu málefnin og ástandið í heimsmálunum.

Nú líður senn að lokum dvalar hjá mér hérna úti. Sá fyrri af tveimur endapunktum var á mánudaginn var, þegar allir sem koma að verkefninu hérna úti og í Reykjavík hittust á fundi í Frankfurt til að fara yfir stöðuna með fulltrúum frá Evrópusambandinu til að sjá hvort peningunum frá þeim væri vel varið. Og voru bara allir vel sáttir. Um kvöldið mælti ég mér mót við vin og vinnufélaga á tónleikum í Neue Aula til að halda uppá vel lukkaðan dag: Hagen Quartett lék verk eftir Mozart, Schostakovich og Beethoven.

Seinni endapunkturinn verður í næstu viku, þegar ég fer á ráðstefnu í Barcelona og kynni þar niðurstöður úr hluta þess sem ég hef verið að gera hérna úti. Og í lok vikunnar eftir það flýg ég heim.