Söngvakeppni Sjónvarpsins: Úrslit! Í beinni!!!

Ji þaðeru bara úrslit í kvöld. Þetta verður aldeilis spennandi. Og allt í beinni útsendingu.

Nei í alvörunni. Sjö lög, misgóð einsog gengur, en ekkert þeirra afspyrnuslæmt. Og stefnir að óséðu í að þetta fari alltsaman ágætlega, hvernig sem fer.

Ég dundaði mér við það í dag að telja saman hvaða lög hefðu fengið mesta spilun í Þjónvarpinu. Eins og fólk gerir og er bara alveg fullkomlega eðlilegt. Ekkert bogið við það. Og. samkvæmt lauslegri könnun ættu strákarnir í Bláum Ópal að rúlla þessu upp. Mér sýnist sem það sé búið að glápa helmingi meira á þá helduren þau Gretu og Jónsa. Regína kom næst og svo Magni eitthvað þar fyrir aftan, og restin með enn minni athygli en það.

Sjálfur held ég að slagurinn verði á milli Gretu og Jónsa, Magna og strákanna í Bláum Ópal. Það vinnur dálítið gegn henni Gretu að eiga tvö góð (og dálítið svipuð) lög á úrslitakvöldinu. Ef þær Heiða og Guðrún Árdný stela ekki of miklu af athyglinni ættu Greta og Jónsi samt vel að geta unnið þetta. Ég vona það bara, held ég. Rokkballöðuslagurinn stendur á milli þeirra og Magna. Lagið hans er það besta sem hann hefur verið sendur með inní Söngvakeppni Sjónvarpsins. Og það er meiraðsegja bara býsna gott. Það gæti vel unnið líka. Strákarnir í Bláum Ópal hafa það með sér að vera með eina hressa stuðlagið í kvöld. Og gegn þeirri hefð sem hefur mótast í kringum hress stuðlög í Söngvakeppni Sjónvarpsins, þá er það alveg ljómandi fínt. Og þeir sungu það ekkert svo illa á undankvöldinu. Mér fyndist það síðri kostur en hin tvö, en samt alveg í góðu lagi. Ef þannig færi.

Jæja. Nú er það bara barnaþátturinn Merlín, meðan við bíðum. Hvað er eiginlega málið með að sýna þetta klukkan hálfátta á laugardagskvöldi? Er ég orðinn svona gamall, eða er þetta kannski ekki alveg sniðugasta sjónvarpsefnið til að sameina fjölskylduna við imbakassann?

Hvað er orðið af Fyrirmyndarföður æsku minnar?

Meðan við bíðum, er hægt að þegja um stóra Kristalhallarmálið? Ég veit ekki alveg hvað mér finnst. Ég skil æsinginn í honum Palla Óskari afskaplega vel; ég er bara ekki sannfærður um að það að segja sig frá keppni sé sjálfkrafa það rétta að gera í stöðunni.

Nú hef ég ekki sett mig inní þetta alltof náið. Þó er ljóst að fólk hefur verið borið út og farið illa með það. Tvennum sögum fer af því hversu beint það tengist því að verið er að reisa höll utanum söngvakeppnina.

Æ, ég veit það ekki. Það er hægt að bregðast við þessu á svo marga vegu sem væru bara hræsni. Eitthvað er sjálfsagt að gera. En að hætta við er ekkert endilega það rétta. Tala nú ekki um að halda sína eigin keppni með góða fólkinu og vinum okkar á Norðurlöndum. Mér finnst það, afsakiði, bara anga af Slavafordómum. Svona, „þið eruð búin að eyðileggja keppnina okkar og nú tökum við hana til baka“ fílingur.

En það er kannski bara ég.

Ooooog við erum byrjuð. Hera Björk tekur Evróvisjónsyrpu: Serbneska lagið Molitva (eða e-ð svoleiðis) hennar, þarna, Dijon. Eða, er hægt að tala um syrpu þegar lögin eru bara tvö? Hvað segja orðsifjarnar?

Á ég að tala um kjólana og svoleiðis? Æ, ég veit ekki. Jú auðvitað. Hvað er hún Brynja með um hálsinn?! Og hvar í andskotanum eru eiginlega Pallaétturnar?!!!

Noh. Græna herbergið bara grænt og alltsaman. Það munar ekki um það.

Jæja, þá eru það þær Heiða og Guðrún Árdný með „Aldrei sleppir mér.“ Það verður spennandi að sjá hvort þær verði aftur í hofgyðjudressunum. Og hvort Heiða „kafnar úr gæsahúð“ við flutninginn. Sjálfum finnst mér þetta það síðra af lögunum hennar Gretu Salóme. En ágætt lag samt.

Já, það eru hofgyðjudressin. Ambáttirnar í bakröddunum reyndar komnar í pils. Annars afskaplega ágætt. Þetta verður sennilega aldrei lagið sem vinnur — stóra spurningin hvað þetta stelur miklu frá hinu laginu hennar Gretu Salómear.

Og þá er Magni mættur. Er búið að taka saman tölfræði um það hvort að slott númer tvö sé sama bölvun í heimakeppninni og í Evróvisjónkeppninni sjálfri? Maður veltir því fyrir sér… en hann er hress og fyndinn gaur, hann Magni. Ég sá á biðröðinni í Bónus að hann og Eyrún eru á forsíðu Vikunnar. „Tapaði áttum eftir Rock Star.“ Synd að hafa ekki lesið þetta.

Myndastyttueffekt á gítarleikurunum í upphafi. Ééééveitekki. En hann syngur þetta vel, strákurinn. Og VÓ! bara tekur heddsettið úr eyranu og alltsaman. Áhættuatriði í beinni.

„Hugarró“ er gott lag. Besta lag sem Magni hefur verið sendur með í söngvakeppnina. Og þótt hann Sveinn Rúnar eigi tvö lög í keppninni þá eru þau það ólík að þau eru sennilega ekki mikið að bítast um sömu atkvæðin. Hann á góðan séns, hann Magni.

Þá er það hitt lagið hans Sveins Rúnars, „Stund með þér.“ Ég verð að segja að ég var ekki alveg sannfærður eftir flutninginn á forkvöldinu. Sjáum til núna.

Páll Óskar með óléttutölfræðina á tæru. Hún Rósa Birgitta vinnur mig ekki alveg á sitt band sem söngkona. En mikið óskaplega er hún falleg frumbyrja. Nei ókei, þetta er miklu betur lukkaður flutningur en á forkvöldinu. Ég fer að verða pínu hrifinn af þessu. Eiginlega bara mjög hrifinn. Eða kannski er það bara bumban og netatoppurinn.

Jæja, þá er það flippnúmer kvöldsins. Nú hneigist ég til að vera svag fyrir flippuðum atriðum: Botnleðju, Hvanndalsbræðrum. En ég var ekkert yfir mig hrifinn af Simba og Hrútspungunum þarna um daginn. Það vantaði eitthvað. Meira öryggi, til dæmis. Og nokkra sentimetra neðanundir forsöngvarann. Þeir byrja dálítið falskir. Og ekki alveg á slaginu. Farnir að syngja saman í erindinu. Æ, einhvernveginn gerir það þetta alltsaman bara enn líkara portúgalska flippnúmerinu frá í fyrra. Það er eiginlega fyrsta krafa á flippnúmer að það sé virkilega flippað. Ef það næst ekki almennilega, þá bara, tjah, þá er það ekki alveg nógu gott.

Noh. Tékknesku klaufabárðarnir á borðum í græna herberginu. Ég vil heyra söguna um það.

Ja mikið sem hann Sigtryggur Baldursson er nú alltaf heimilislegur.

Þá er það hún Regína og „Hjartað brennur.“ Og. loksins. eru. Pallaéttur. Gullskór og vindvél. Ég hef ekki séð svona hressilega notkun á vindvél síðan Eyvi söng „Ég er vindurinn sem þýtur“ hérna um árið.

Þess má annars geta að „Hjartað brennur“ er fyrsta lagið í söngvakeppninni sem er samið af samnorrænni nefnd. Hún var skipuð Svíum að þremur fimmtu. Og, æ, ég veit það ekki. Þetta er óttalega sænskt eitthvað, finnst mér. Og samið af nefnd. En hún gerði þetta vel stelpan, o seisei já.

Þá eru það hressu strákarnir í Bláum Ópal. Nú er ég búinn að tala vel um þetta lag, og þá vil ég bara segja strax að „Stattu upp fyrir sjálfum sér“ er pínlegasti texti sem heyrst hefur í gervalli Evróvisjónsögu Íslands frá upphafi. Evver.

Ég er svag fyrir austur-berlínska gangbrautarkarlinum. Og það er ánægjuleg tilbreyting að heyra unga stráka sem ekki syngja beinlínis illa. Ég er samt ekki alveg að kaupa blágráa Lumberdjakklúkkið. Hvar eru Hawaiiskyrturnar? Í það heila tekið: Hresst og vel flutt lag, ef ekki það merkilegasta frá upphafi Evróvisjón. Ég fer ekki að grenja ofaní glasið mitt þótt þetta stingi sér framúr þeim Gretu/Jónsa og Magna.

Einsog konan mín sagði um hana Gretu Salóme: Hún er með munninn fullan af tönnum. Afskaplega fallegum tönnum og hvítum, vissulega. En munnurinn á henni er fullur af þeim. Og hann er þó ekki lítill. Ji hvað þetta er svo fallegur kjóll. Hún er að stela hugmynd sem kviknaði á milli okkar hjónanna einusinni eftir að við vorum búin að kaupa okkur Volkstrachten þarna um árið: Það þarf að hæpa upp ódýrari og kúlaðri útgáfu af íslenska þjóðbúningnum. Og núna er hún til. Hún er á Eldborgarsviðinu í Hörpu.

Þetta er eiginlega bara dálítið ógeðslega flott. Ég held með þessu. Þetta gerir allt það rétt með þjóðlega væbið sem Simbi og Hrútspungarnir klúðruðu fyrr í kvöld.

Hei, höfundur „Stattu upp“ með annan klaufabárðinn í Græna herberginu. Hver er sagan? HVEEER EEER SAAAGAAAN?!!!  Fokk, hvernig í helvítinu er hægt að tala við mann með Napóleónshatt á hausnum og spyrja hann EKKI afhverju hann sé með tékkneska tuskudúkku í fanginu? Brynja, ertu ekki starfi þínu vaxin?!

Greiningardeildin leggst yfir tónlistarsögu Aserbæsjan. Og þykir mér hún öll hin fróðlegasta. Ég vil færa til bókar að ég hef alltaf haft gaman af Evróvisjónframlögum Aserbæsjana. Trú storí. Það er hægt að lúslesa bakklogginn minn því til staðfestingar.

Noh. Páll Óskar með mannréttindamónólóg. („Hvað er þetta með karlmenn og mónólóga?“) Ég tek ofan Napóleónshattinn: Hann þurfti að dansa eftir fínni línu í kvöld milli þess að kynna Evróvisjónforkeppni og agítera fyrir þeim sömu mannréttindum og hann vill að barist verði fyrir með því að draga sig útúr keppninni. And he’s actually pulling it off.

Ekki það að nokkur hafi þurft að efast.

Er að horfa á endurrennslið á þessu öllusaman. Það gerði sig ekki alveg hjá honum Simba og þeim að hrópa „Hey!“ og reka hnefann uppí loftið sem einn maður. Vakti ekki alveg réttu kenndirnar. Og þá er ég hættur að tala illa um þá, strákana. Nema að það kom smá sjokk hjá þeirri átta ára þegar hún áttaði sig á því að hún hafði óvart kosið „Hey“ í staðinn fyrir „Stattu upp.“ Hún fékk að kjósa aftur. Önnur atkvæði á heimilinu fóru til Magna og Gretu/Jónsa.

Spurningakeppni græna herbergisins. Sveinn Rúnar, HVERNIG ER HÆGT AÐ VITA EKKI AÐ HERREYS-SKÓRNIR VORU GYLLTIR, FOR KRÆNG ÁT LÁD?!!!

Jæja, þá fer þetta að verða búið. Mín spá er óbreytt: Ég bæði held og vona að „Mundu eftir mér“ muni vinna. Ef „Hugarró“ eða „Stattu upp“ hnuplar sigrinum þá verður það ágætt. Önnur úrslit myndu koma mér óþægilegar á óvart.

Greiningardeildin með fullt af góðum lögum sem aldrei tóku þátt. Tek undir hverja tillögu. Mér hefur tildæmis alltaf fundist að Sigurrós ætti að semja þriggja mínútna popplag og fara í Evróvisjón. Alas, allt það sem aldrei varð en hefði getað orðið.

Rennt yfir samkeppnina. Mér sýnist Noregur ætla að fara all-in í ár. Páll Óskar varpar sprengju: Hættur með Evróvisjónþáttinn Alla leið. Could life ever be same again? Hera Björk og Valgerður ræða um breytt fyrirkomulag með hlutverki aðdáenda í sjónvarpssal. Ef mér verður ekki boðið þangað verð ég verulega móðgaður.

Oooog úrslitin eftir bókinni. „Mundu eftir mér“ til Bakú og „Stattu upp“ í öðru sætinu. Allir sáttir bara. Takk fyrir kvöldið.