Evróvisjón!

Ég er dálítið mikið að hugsa um lög þessa dagana. Lög af ýmsu tagi. Í dag langar mig að skrifa um Evróvisjónlög. Kannski skrifa ég um einhvern veginn öðruvísi lög seinna. Svo skrifa ég ábyggilega meira um Evróvisjónlög líka. Ég meina, kommon, þetta blogg er búið að halda sér á lífi (eða svonaaaa, með mislöngum hléum og einni breytingu á heimilisfangi) í bráðum tíu ár og það er tvennt sem ég hef alltaf skrifað um, á hverju ári: Ignóbelverðlaunin og Evróvisjón. Það er ekkert að fara að breytast.

Mér hefur verið misvel við að skipta mér af forkeppnunum hér heima í gegnum tíðina; vanalega fundist alveg nóg að tjá mig um úrslitaþáttinn. Það hefur komið fyrir að í forkeppnum hafa troðið upp flytjendur sem hafa, ahemm, boðið uppá skemmtileg skrif á sinn kostnað. En maður kann ekki alveg við það. Eins og að sparka í liggjandi mann – maður gerir ekki svoleiðis. Í úrslitaþættinum eru þó eingöngu lög sem góður hluti þjóðarinnar er búinn að kvitta uppá að sé ekki alveg ómögulegur. Þá má nú alveg gera grín ef tilefni er til.

En það verður að tveimur vikum liðnum. Ég veit ekki alveg hvað gerist um næstu helgi – ég sá eitthvert rafrænt pískur um aukaþátt þarsem sérstökum jókerum yrði deilt út til frambærilegra laga sem hefðu setið eftir á undankvöldunum, en ekki hafa mig fyrir því elskan. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Allavega.

Um kvöldin tvö sem eru búin hef ég lítið annað en gott að segja. Fyrirfram fannst mér fyrsta kvöldið nokkuð jafnt, og þar var ekki eitt slakt lag að finna, en eftir flutning og úrslit var augljóst að bestu lögin tvö komust áfram. Annað kvöldið fannst mér í heildina síðra, en enginn landsdómsskandall í gangi þar heldur allavega.

En kvöldið í kvöld maður. Vó. Engir liggjandi menn hérna takk fyrir. Fimm páerballöður í röð. Hver annarri páeraðri og ballaðaðri. Erindi, viðlög, millikaflar, krókar og hálftónshækkanir, allt á réttum stöðum. Þetta verður rosalegt. Svo rosalegt að það verður roshalegt. Fyrirfram sýnist mér Magni öruggur áfram: „Hugarró“ er með sterkan krók sem maður losnar ekki við. Keppnin á milli hinna fjögurra verður óræðari. Ég þekki ekkert til hans Svenna Þórs sem syngur „Augun þín,“ lagið formúlukennt og by-the-numbers en kommon, þetta er Evróvisjón! og þungarokksöskrið vann mig á bandið í restina. Svo er hún Greta Salóme frá fyrsta kvöldinu komin aftur með annað lag sem er gott, en kannski ekki alveg eins gott og hitt (vantar agnhöld á krókinn), og Herbert Guðmundsson.

Herbert Guðmundsson.

Ég bara varð að skrifa það aftur. Þetta er svo epískt.

Humm. Ég sé nú reyndar að Wikipediugreinin um hann hefur tekið dálitlum breytingum frá því ég leit á hana síðast, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Fróðlegur lestur.

Einsog ég sagði, ég held að Magni fari áfram í kvöld. Og ef dívuhópurinn hennar Gretu Salómear (?) fer áfram með honum held ég að hann gæti átt eftir að fara alla leið til Baku (þarsem aðdáendur laganna hennar Gretu skiptast þá í tvennt). Ég held hinsvegar að Herbert fari áfram með honum í staðinn. For old times sake. Fyrir utan náttúrulega að „Eilíf ást“ er það besta sem úr þeirri áttinni hefur komið í meiren aldarfjórðung. (Og þá myndi ég veðja og Gretu Salóme og Jónsa til Baku, enda sá entrans svakalegur.)

En sjálfur stefni ég á að kjósa lagið sem ég skildi eftir þartil síðast. Mér er málið reyndar skylt þarsem ég er höfundinum málkunnugur. En lagið er skemmtilega öðruvísi en öll hin, það eina fyrir utan lagið hans Magna sem situr sjálfkrafa eftir í hausnum þegar flutningi er lokið, og mér sýnist á öllu að stelpan eigi að geta gert þetta vel á sviði. Ég hlakka til kvöldsins, hvernig sem fer: