Topp tíu spáin fyrir kvöldið og fordómar Páls Óskars

Kominn á skerið og lífið í svona nokkurnveginn fastar skorður. Og Evróvisjón í kvöld og ég hef ekki tjáð mig um það einu orði. Liggur við fyrsta Evróvisjónbloggfalli frá því ég byrjaði á þessu fyrir meira en … hvað … átta árum.

Sjitt. Ég hef dútlað við þetta í meira en átta ár (með hléum).

En, jæja.

Það er allavega ennþá tími fyrir topp tíu spá kvöldsins.

Við hjónin erum dálítið skotin í franska laginu. Við fyrstu hlustun heyrði maður fyrst og fremst hvað hann syngur þetta fantavel, strákurinn, án þess að lagið sæti beinlínis eftir. Svo áttaði ég mig á því strax frá upphafi annarrar hlustunar að maður gat sungið með hverju orði – þetta lag er einhvernveginn skrifað svo beint af augum. Svo er náttúrulega gefið að þetta mun falla í kramið hjá dómnefndunum, auk þess sem flutningurinn sjálfur virðist spyrjast vel út þarna úti í Düsseldorf. Ég held að þetta endi í svona sirkabát þriðja sæti. Og áður en næsta vetrarvertíð hefst verður þetta orðinn ómissandi partur af reppertoríi hvers einasta Garðars Thor Cortes útum allan heim.

Það er náttúrulega vitað að Rússar fá fullt af stigum frá þeim löndum sem Stalín flutti þá út til á sínum tíma. Þetta er ein af sterkustu blokkum keppninnar (sennilega sú fjórða, á eftir Grikklandi/Kýpur, Rúmeníu/Moldavíu og Skandinavíumafíunni). Og þýðir það að Rússum gengur vel, svo lengi sem þeir senda skítsæmilegt lag (og þurfa stundum ekki einusinni þess, sbr. Dima Bilan). Oftast senda þeir reyndar blessunarlega einhverja hörmung. En ekki núna. Hann Alexej er sætur og syngur skammlaust, lagið í skárri kantinum, dansararnir góðir og ljósagimmikkið flott. Hann lendir aldrei neðar en í öðru sæti. Og gæti þessvegna unnið.

Ef ekki væri fyrir Jedward. Fyrst þegar ég sá þá hugsaði ég bara jiminneinihvaðereinlamálið.  En svo náði ég því: þessir strákar eru bara gjörsamlega KICK-ASS. Gargandi (og þá meina ég bókstaflega gargandi) snillingar. Fyrsta sætið svogottsem í kassanum. Krakkarnir mínir fengu Evróvisjóndiskinn á heimilið núna fyrr í vikunni. Lipstick hefur verið á repeat-ad-nauseam síðan þá. Ég er ekki farinn að æla ennþá.

Svo grunar mig að bæði Serbía og Aserbadjan lendi þarna skammt fyrir neðan. Frábær lög hvortveggju og vel flutt. Það serbneska sérstaklega sjarmerandi. Og það er komið topp fimm.

– – –

(Innskot, því tengt…)

Ég hlustaði á útvarpið í gær. Heyrði hann Pál Óskar barma sér fyrir hönd hennar Stellu Mwangi yfir því að hún komst ekki áfram. Halda því fram að austantjaldsfólk kysi ekki góð lög ef þau væru flutt af þeldökku fólki. Segja nánast berum orðum: „Fólk af slavnesku bergi brotið er bara fullt af kynþáttafordómum.“

Vel gert Palli minn, hugsaði ég þá. Vel gert.

Fyrr um morguninn var frábær grein í Fréttablaðinu eftir landa okkar Palla, hann Pawel Bartoszek, þar sem hann benti á (og ég umorða svo henti betur minni eigin agendu) að ef hægt væri að saka einhverja um kynþáttafordóma í Evróvisjónstigagjöf, þá væru það Íslendingar: Við gefum austantjaldsþjóðum markvisst og kerfisbundið færri stig en þær ættu allajafna skilið. Á meðal þeirra þjóða sem verða hvað harðast úti hjá okkur eru Aserbadjan og Georgía. Ef þessum löndum gengur vel í kvöld, en verða dissuð í stigagjöf frá Íslandi, þá vil ég bara núna fyrirfram lýsa frati á hvern þann sem fyrstur eftir úrslitin segir „Austantjaldsmafía.“

Gerum núna smá Gedankenexperiment og berum saman tvö áþekk lög í ár, það danska og það aserbadjanska. Ég þori að veðja hverju sem er að það danska mun fá að minnsta kosti helmingi fleiri stig frá Íslendingum en hitt lagið. Vel líklegt að við gefum því frá Aserbadjan ekki eitt einasta stig, ef sagan segir okkur eitthvað.

(Innskot í innskoti: Akkúrat núna er aserbadjanska lagið í græjunum, og frúin spyr mig frá straubrettinu: „Er þetta Danmörk?“)

Nú fullyrði ég: Ef A New Tomorrow væri flutt af aserbadjönsku strákahljómsveitinni A Friend in London, og Running Scared af danska krúttdúóinu Elkjær og Nikkólínu, þá værum við öll að eipa einsog moðerfokkerar yfir því hvað dönsku krakkarnir væru sætir og lagið þeirra skemmtilegt, og gerði nú ekkert til þótt það væri smá U2/Britpop fílingur í því og svona. En þetta New Tomorrow frá Aserbadjan væri nú hálfmislukkað, auk þess sem það væri þrælstolið. Ég meina, þetta er bara nákvæmlega það sama og Roger Whittaker söng um í New World in the Morning, og það eru nú komin meira en þrjátíu ár síðan að það var sko.

– – –

Að því sögðu finnst mér vel líklegt að Danmörk verði einhversstaðar uppundir sjötta sætið, enda lagið gott (þótt það sé kannski pínulítið stolið). Svo ættu lögin frá Grikklandi (þrátt fyrir ömurlegan rappara og danslausasta takt sem nokkru sinni hefur verið notaður í lagi sem heitir Watch my dance), Finnlandi (ooooo, hann Óskar er svo mikið krútt) og Georgíu (bara tímaspursmál hvenær screamo mætti í Evrovisjón) að vera meðal tíu efstu líka.

Og vinirnir hans Sjonna. Þeir verða þarna líka – það stoppar enginn sjávarföll sögunnar.

(Og engan væl hérna um að sagan á bakvið lagið eigi ekki að skipta máli. Því hún gerir það, og hún á að gera það. Case in point: Þegar Dana International (sem datt verðskuldað út í ár) vann Evróvisjón árið 1998, þá var lagið eitt og sér alveg ágætt. En ekki svo gott. Óaðskiljanlegur partur af laginu var sú staðreynd að það var sungið af kynskiptum einstaklingi. Það er alltaf saga á bakvið lagið. Stundum er hún stórfengleg. Þá fylgir hún laginu. Það er bara svoleiðis.)

Stórbokkarnir Þýskaland og Stóra-Bretland verða þarna skammt undan og gætu skotið sér inn á topp tíu. Annað er langsóttara – ég held sjálfur með Moldavíu; Úkraína og Bosnía-Hersegóvína gætu troðið sér ofantil ef dómnefndirnar skipta sér ekki of mikið af nágrannakosningunni, og það eru þarna fleiri númer sem gætu komið á óvart ef vel gengur, s.s. lögin frá Litháen og  Eistlandi. En það er meiri vonarpeningur. Og hann Eiríkur sænski getur bara fengið sér rettu og gleymt þessu – hann var heppinn að ná að skríða inní úrslitin.

En Jedward munu rúlla upp kvöldinu. Sanniði til.