Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagur 2

Las viðtalið við Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra í Fréttablaði gærdagsins með athygli. Verð að segja að bæði Katrín og Árni Páll hafa komið mér ánægjulega á óvart síðustu daga. Þótt ég sé ekki búinn að útiloka að fartin á greiðslujöfnunarfrumvarpinu hans Árna hafi leitt til þess að þar hafi gleymst inni eitthvað óttalegt klúður sem eigi eftir að baka vandræði.

Í framhaldi af því sóttum við hjónin um undanþágu frá greiðslujöfnun hjá Íbúðalánasjóði. Undarleg tilfinning að þurfa að biðla auðmjúklega til yfirvalda til þess að fá að halda óbreyttri greiðslubyrði. „Afsakið okkur, við erum frávik.“

Ég hef frá upphafi haft hálfgerðan vara á mér fyrir Árna Páli. Sennilega fyrir það hvað hann er alltaf appelsínugulur í framan. Fitt og slank. En ræðan sem hann hélt í fyrradag varð til þess að ég fer að eiga erfitt með að fá ekki aukið álit á manninum. Og svarið frá formanni LÍÚ bætir enn á velþóknun mína á honum Árna – hann er greinilega að gera eitthvað rétt. Grímulausara verður það varla: „Hvur í anskotanum heldurðu eiginlega að þú sért? Hvað heldurðu að þú getir? Veistu ekki við hverja er að eiga?!“

Margur heldur mig sig, svo ég svari í orðastað hans Árna.

– – –

Gærdagurinn var annars yfirmáta tíðindalítill og ætlaði aukþess aldrei að verða búinn – hefur sennilega að gera með þessa tvo tíma sem bættust í sólarhringinn okkar við komuna. Mér fannst einsog það væri að koma kvöld frá því fljótlega uppúr hádegi.

Stelpurnar fóru í afmæli og heimsóknir til vina sinna meðan pjakkurinn lék sér úti í sandkassa. Við fórum ekki neitt. Enda þarf þess ekki: Grafarvogur er Ísland. Það þarf ekkert að sækja það lengra.

Tók mynd af Esjunni með gemsanum mínum til að nota sem veggfóður á skjánum.

Foreldrar mínir, bróðurfjölskylda og systurdóttir komu í kvöldmat: Grillað lamb af læri og hrygg, heimakryddlegið af tengdaföður mínum. Í framhaldinu var sest í betri stofuna, rætt um pólitík milli þess sem sagðar voru sögur af dvölinni ytra. Spilað fyrir svefninn þegar gestir voru farnir.

Foreldrar mínir renna hér við á eftir á leið norður. Vonandi áður en við förum úr húsi sjálf í morgunkaffi til ágætra vina.