Hommar, lesbíur og prestar

Þessa dagana fer víst fram eitthvað sem heitir prestastefna. Ég veit svosem ekki nákvæmlega hvaða samkunda það er en sýnist svona á flestu að þetta sé einhverskonar rabb- og röflsamkoma presta um hin og þessi málefni. Þetta er ekki það sama og kirkjuþing, svo mikið veit ég. Í hverju munurinn felst veit ég hins vegar ekki og mér er eiginlega sama.

Það sem vakti athygli mína varðandi þessa samkundu prestanna er að af einhverjum ástæðum vildi hluti þeirra álykta um þá ráðagerð Alþingis að ætla að drífa loksins í því að sameina hjúskaparlögin sem ríkja í landingu í ein lög. Það var s.s. lögð fram tillaga um að prestastefna lýsti sig samþykka þessari breytingu. Það gátu svartstakkar í sveit presta ekki sætt sig við og lögðu fram sína eigin tillögu sem hljóðaði á þá leið að yrðu lögin samþykkt þá myndu þeir fara fram á það við ríkið að lögformlegu vígsluhlutverki yrði létt af þeim.

Seinni tillagan er auðvitað fullkomlega rétt, algjörlega óháð hjúskaparlögum. Það að ganga í hjónaband er út frá lögum ekki trúarlegur gjörningur og því ætti lögformleg staðfesting á honum ekki að vera á valdi trúarleiðtoga. Fyrri tillagan er, þrátt fyrir að ég sé efnislega sammála því að hjúskaparlögin verði sameinuð, fáránleg. Kirkjunni bara kemur þetta ekki við.

Lúthersk Evangelíska kirkjan á Íslandi má auðvitað hafa hvaða skoðanir og túlkanir sem hún vill í heiðri líkt og önnur trúfélög. En henni kemur ekki við hvernig lagaumgjörð utan um veraldlegar stofnanir eins og hjónaband er úr garði gerð, frekar en henni kemur við hver hámarkshraði er á þjóðvegi 1.

Það sem er svo eiginlega meira sorglegt en nokkuð annað er ruglið í Séra Halldóri Gunnarssyni. Enn einu sinni detta prestar þjóðkirkjunnar í þann daunilla pytt að gera lítið úr samböndum samkynhneigðra. Í þetta skiptið með sögu um eitthvert sóknarbarn sem á í öngum sínum að hafa lýst því yfir að hjónabandi sitt sé eyðilagt verði ein lítil orðalagsbreyting gerð í núverandi hjúskaparlögum þannig að þau gildi ekki lengur bara fyrir karl og konu heldur geri ráð fyrir því að fólk kjósi af fúsum og frjálsum vilja að ganga að eiga aðila af sama kyni.

Ég vona að Séra Halldór hafi rækt hlutverk sitt sem hjónabandsráðgjafi (já, prestar gegna víst slíku hlutverki af einhverjum ástæðum), eða sem betra væri, sent fólkið til einhvers sérfræðings í þeim efnum. Þarna var augljóslega á ferðinni maður í ansi fallvöltu hjónabandi sem ekki má við miklum skakkaföllum eigi ekki illa að fara. Því varla getur það haft svona mikil áhrif á hjónabönd ráðsetts kirkjunefndarfólks að sömu lög gildi um hjónaband þess og hjónaband Felix Bergssonar og Baldurs Þórhallssonar.

Það þarf svo ekki að koma neinum þeim sem hefur fylgst með íslensku ríkiskirkjunni seinustu árin að afstaðan sem tekin var reyndist vera einhverskonar and-afstaða. Þ.e. málinu var vísað til einhvers apparats sem heitir „Kenninganefnd“ kirkjunnar og svo biskubbs. Sem eins og frægt er orðið telur það jafngilda því að henda hjónabandinu á ruslahaugana að sömu lög gildi um alla fullveðja einstaklinga í landinu.