Fáránleg tillaga Árna Johnsen og félaga

Í gær var útbýtt á þingi tillögu til þingsályktunar „um mikilvægi fræðslu um kristni og önnur trúarbrögð og lífsviðhorf“. Þingsályktunartillagan sjálf er algjör froða sem erfitt er að sjá einhverja merkingu úr. Reyndar er merkilegt að hún fjallar ekkert um mikilvægi fræðslu um önnur trúarbrögð og lífsviðhorf heldur er eingöngu bent á kristnu arfleiðina í grunnskólalögunum og alþingi á að álykta að mikilvægt sé að vel sé staðið að fræðslu um hinn kristna menningararf. S.s. algjörlega innihaldslaust þvaður í ljósi þess að þetta er eitthvað sem skólar gera nú þegar.

Greinargerðin sem fylgir er hins vegar upplýsandi. Árni og félagar eru að bregðast við tillögum mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar. Þeim finnst ósanngjarnt að ríkiskirkjan fái ekki lengur að mæta í grunnskóla til að kynna æskulýðsstarf fyrst að íþróttafélög fái að gera það. Af því að eins og allir vita þá eru trú- og lífsskoðunarfélög algjörlega sambærileg við íþróttafélög. Svo kemur þetta gullkorn hérna:

Hafa börn og foreldrar ekki rétt á að vita hvað er í boði fyrir börnin og velja sjálf úr? Verði tekið fyrir þessa kynningu er um að ræða ofríki undir merkjum trúfrelsis. Trúfrelsi er m.a. fólgið í því að hafa tækifæri til að velja. Barnasáttmálinn á t.d. að tryggja rétt barna til að velja.

Ég vona að meðflutningsmenn Árna hafi gleymt að lesa yfir greinargerðina því að ég trúi því ekki að þau átti sig ekki á því að það er engin að taka réttinn til þess að velja af börnum. Það er verið að færa valið af skólatíma og úr opinberu menntakerfi yfir á tímann sem börnin eiga með foreldrum sínum. Sem er auðvitað rétti vettvangurinn til þess að íhuga þátttöku í trúarstarfi.

Næst er Gídeonfélagið tekið fyrir. Aftur virðast þingmennirnir ekki átta sig á því að það er ekki verið að banna Gídeon að gefa þeim sem vilja Nýja Testamentið. Það er bara verið að koma í veg fyrir að það fari fram í skólastofum þar sem félagsmenn Gídeon hafa sýnt sterka tilhneigð til þess að iðka trúarathafnir eins og bænir með börnunum.

Af hverju getur Gídeon ekki gefið börnunum NT eftir öðrum leiðum?  Af hverju geta börn ekki valið sér trúarstarf utan skólatíma? Af hverju ÞARF þetta að fara fram í opinberum skólum?

Margir þeirra skóla sem hafa samstarf við sóknarkirkjur kynna slíkt samstarf á heimasíðu sinni í þeim tilgangi að foreldrar geti brugðist við kjósi þeir að börn þeirra taki ekki þátt í því sem kirkja og skóli bjóða upp á í sameiningu.

Þarna liggur hnífurinn grafinn. Það er einfaldlega ekki réttlætanlegt að bjóða upp á atburði á skólatíma sem sumir þurfa annað hvort að taka þátt í gegn trúarsannfæringu eða lífsskoðun eða verða tekin frá skólafélögum sínum annars.

Það vekur líka sérstaka athygli mína, en engan vegin undrun, að Árni og félagar pæla ekkert í leikskólanum. Það er enn ein vísbendingin um að þarna sé á ferðinni illa hugsuð árás á Mannréttindaráð RVK-borgar sem byggist fyrst og fremst á ummælum presta og annara kirkjumanna, sem hafa fyrst og fremst einblínt á grunnskólann.

Þingmennirnir sem standa að þessari tillögu með Árna eru Ragnheiður E. Árnadóttir, Jón Gunnarsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Vigdís Hauksdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson.

Bætt við 27. nóvember:

Í athugasemdum við þessa grein sem birtust á síðu Vantrúar er bent á mjög áhugaverða staðreynd sem rennir enn frekari stoðum undir þá fullyrðingu að ekki hafi verið vandað til verka þegar þessi tillaga var samin. Í greinargerðinni er vitnað til skýrslu sem gefin var út af Office for Democratic institutions and Human Rights og Organization for Security and Co-operation in Europe. Það er skrýtið að vitna í skýrslu þessara samtaka því að þegar hún er lesin er augljóst að niðurstöður hennar ganga þvert gegn þeirri skoðun sem skýn í gegnum greinargerðina. Ég ætla að leyfa mér að birta bara í heilu lagi athugasemd Jóns Steinars (sem mig minnir að sé Ragnarsson):

Í þessu ótrúlega hnoði, sem kallast frumvrp, er vísað í skýrslu frá alþjóðlegum samtökum, sem vilja efla trúfrelsi og skilning á lífsviðhorfum í skólakerfinu. Þeirra marmið er klárlega það að halda trúboði utan skólakerfis og nálgast trúarbragðakennslu hlutlaust.

Þetta plagg og tilvitnun út úr samhengi er horsteinn frumvarpsins og virðist sem flytjendur skilji tilvitnunina sem stuðning við markmið sín þegar í raun tilvitnunin undirstrikar að hér sé um fræðilega nálgun að ræða en ekki innrætingu. Þetta kemur svo klingjandi klárlega fram í skýrslunni sjálfri, sem í raun réttri styður ályktun mannréttindaráðs í bak og fyrir og gengur jafnvel lengra í sinni afmörkun.

Þau alþjóðlegu samtök, sem standa að téðri skýrslu og leiðbeiningum um trúarbragðafræðslu eru gömul og hefur Ísland verið þáttakandi og samþykkt ályktanir þeirra frá 1973.

Ef við höfum skuldbundið okkur til að fylgja vinnureglum þessarar skýrslu, þá legg ég til að þessi samtök verði beðin um álit á þessu máli mannréttinanefndar. Þá er nokkuð víst að þeir muni fallast á rök nefndarinnar og jafnvel hnykkja enn frekar á hlutleysiskröfum.

Hér er þessi skýrsla, sem vísað er í: http://www.osce.org/publications/odihr/2007/11/28314_993_en.pdf

Í henni eru tekin nokkur dæmi um dómsmál gegn trúboði og dreyfingu trúarrita í skólum, þar sem menn hafa kært slíkt og unnið. Menn geta peistað málin af listanum inn í google og lesið þau.

Ég legg til að menn lesi þetta vel og nýti sér það einmitt sem rök gegn þessu fáránlega frumvarpi, því ekkert í því styður kröfuna heldur þvert á móti.

Í markmiðum stofnunarinnar segir þetta m.a.:

„The starting point is the understanding that teaching about religions and beliefs is not devotionally and denominationally oriented. It strives for student awareness of religions and beliefs, but does not press for student acceptance of any of them; it sponsors study about religions and beliefs, not their practice; it may expose students to a diversity of religious and non-religious views, but does not impose any particular view; it educates about religions and beliefs without promoting or denigrating any of them; it informs students about various religions and beliefs, it does not seek to conform or convert students to any particular religion or belief. Study about religions and beliefs should be based on sound scholarship, which is an essential precondition for giving students both a fair and deeper understanding of the various faith traditions.“

Við erum hlutaðeigendur að þessu mjög svo secular samkomulagi og ættum að fylgja því eftir út í hörgul.

Manni dettur helst í hug að flutningsmenn frumvarpsins hafi ekki lesið plaggið þrátt fyrir tilvitnananámagröftinn, eða þá að þeir skilja hreinlega ekki ensku.

Vonandi átta þingmennirnir sig á því hversu óvönduð þessi tillaga er og draga hana til baka. Hún er þeim ekki til framdráttar, hvernig sem á málið er litið.

3 replies on “Fáránleg tillaga Árna Johnsen og félaga”

Comments are closed.