Að kjósa ekki

Ég er rétt kominn heim eftir að hafa skotist út og kosið. Ekki get ég sagt að það hafi verið fullt út úr dyrum niðri í Smára og fréttir af kjörsókn benda til þess að þetta hafi farið hægt af stað og enn sem komið er allavega ekki aukið hraðann. Ég veit svosem ekki hvað veldur. Ég er alinn upp við það að maður mæti á kjörstað þegar kosningar eru, þó ekki nema bara til þess að stinga auðum miða í kjörkassa. En eftir að ég komst til vits og ára hef ég hins vegar áttað mig á því að það getur alveg fólgist afstaða í því að sniðganga kosningar.

Ef maður tekur orðræðu þeirra sem vilja að eitthvað stórkostlegt komi út úr þessu þingi trúanlega eru þeir sem ekki kjósa annað hvort latir kjánar sem ekki eiga rétt á því að hafa skoðun á þjóðfélagsmálum ef þeir mæti ekki á kjörstað eða þá fulltrúar annarlegra sjónarmiða. Það er eins og þetta fólk  átti sig ekki á því að það eru einfaldlega ekki allir jafn sannfærðir um það þurfti í fyrsta lagi að breyta stjórnarskránni vegna þess sem gerðist fyrir og í hruninu, enda hafa ekki verið færð sterk rök fyrir því. Einnig getur fólk verið í vafa um ágæti fyrirkomulags stjórnlagaþingsins sjálfs, þess að breyta stjórnskipunarlögum í jafn óvenjulegu ástandi og nú ríkir, þess að hafa yfirhöfuð stjórnarskrá eða bara einfaldlega fólksins sem er í framboði.

Það geta s.s. alveg verið til gildar ástæður fyrir því að sitja heima. Þegar ofan á þetta bætist að velja þarf á milli 521 frambjóðenda finnst mér alveg morgunljóst að þeir sem á annað borð efist um ágæti stjórnlagaþings muni fæstir nenna að klóra sig í gegnum þennan hafsjó frambjóðenda.

Ég sjálfur telst til seint til þeirra sem binda miklar vonir við að stjórnlagaþingið og afrakstur þess muni skipta sköpum fyrir framtíðarhorfur þjóðfélagsins. Ég kaus af því að ég tek þátt í öllum kosningum. Mér nýtti mér DV og Sigtið auk græna listanns á Aðskilnaði til þess að finna frambjóðendur og hafði gaman að þessu, einfaldlega af því að ég hef almennt mikinn á huga á samfélagsmálum. Ég bind einnig vonir við að þarna takist allavega að hrinda af stað aðskilnaðarferli lúthers evangelíska trúfélagsins hér á landi við ríkisjötuna.

En að dæma þá úr leik í þjóðfélagsumræðunni sem ekki kjósa finnst mér ekki gáfulegt, hvað þá ef að í ljós kemur að minni en helmingur kosningabærra manna mæti á kjörstað. Þá er einfaldlega hættan á því að spilin snúist við.