Að kjósa ekki

Ég er rétt kominn heim eftir að hafa skotist út og kosið. Ekki get ég sagt að það hafi verið fullt út úr dyrum niðri í Smára og fréttir af kjörsókn benda til þess að þetta hafi farið hægt af stað og enn sem komið er allavega ekki aukið hraðann. Ég veit svosem ekki hvað veldur. Ég er alinn upp við það að maður mæti á kjörstað þegar kosningar eru, þó ekki nema bara til þess að stinga auðum miða í kjörkassa. En eftir að ég komst til vits og ára hef ég hins vegar áttað mig á því að það getur alveg fólgist afstaða í því að sniðganga kosningar.

Ef maður tekur orðræðu þeirra sem vilja að eitthvað stórkostlegt komi út úr þessu þingi trúanlega eru þeir sem ekki kjósa annað hvort latir kjánar sem ekki eiga rétt á því að hafa skoðun á þjóðfélagsmálum ef þeir mæti ekki á kjörstað eða þá fulltrúar annarlegra sjónarmiða. Það er eins og þetta fólk  átti sig ekki á því að það eru einfaldlega ekki allir jafn sannfærðir um það þurfti í fyrsta lagi að breyta stjórnarskránni vegna þess sem gerðist fyrir og í hruninu, enda hafa ekki verið færð sterk rök fyrir því. Einnig getur fólk verið í vafa um ágæti fyrirkomulags stjórnlagaþingsins sjálfs, þess að breyta stjórnskipunarlögum í jafn óvenjulegu ástandi og nú ríkir, þess að hafa yfirhöfuð stjórnarskrá eða bara einfaldlega fólksins sem er í framboði.

Það geta s.s. alveg verið til gildar ástæður fyrir því að sitja heima. Þegar ofan á þetta bætist að velja þarf á milli 521 frambjóðenda finnst mér alveg morgunljóst að þeir sem á annað borð efist um ágæti stjórnlagaþings muni fæstir nenna að klóra sig í gegnum þennan hafsjó frambjóðenda.

Ég sjálfur telst til seint til þeirra sem binda miklar vonir við að stjórnlagaþingið og afrakstur þess muni skipta sköpum fyrir framtíðarhorfur þjóðfélagsins. Ég kaus af því að ég tek þátt í öllum kosningum. Mér nýtti mér DV og Sigtið auk græna listanns á Aðskilnaði til þess að finna frambjóðendur og hafði gaman að þessu, einfaldlega af því að ég hef almennt mikinn á huga á samfélagsmálum. Ég bind einnig vonir við að þarna takist allavega að hrinda af stað aðskilnaðarferli lúthers evangelíska trúfélagsins hér á landi við ríkisjötuna.

En að dæma þá úr leik í þjóðfélagsumræðunni sem ekki kjósa finnst mér ekki gáfulegt, hvað þá ef að í ljós kemur að minni en helmingur kosningabærra manna mæti á kjörstað. Þá er einfaldlega hættan á því að spilin snúist við.

9 replies on “Að kjósa ekki”

 1. Breyting á stjórnarskrá er grunnurinn að öllum öðrum breytingum. Og þetta varðar ekki bara hlutum tengdum hruninu heldur varðar þetta líka þá gífurlegu spillingu sem hefur fengið að lifa hérna. Á einveldistíma Sjálfsstæðisflokksins náðu þeir að passa upp á að hver einasti dómari, sýslumaður, lögregluyfirmenn og allir aðrir handhafar valds væru nú örugglega í réttum flokki. Það er bara ekki eðlilegt.

  En já þetta tengist líka hruninu. Ólíkt því sem að XD vill halda fram þá sagði RNA skýrslan ekki að þetta hafi allt verið bankafólkinu að kenna. Þetta skrifast líka á það hvernig ríkið hélt á hlutunum. Og skipulag valds og valddreifingar á uppruna sinn í stjórnarskrá. Eða þannig er allavega hugmyndin nema að hjá okkur kjósum við á 4 ára fresti einstaklinga sem stjórna öllum sviðum landsins án nokkurs aðhalds.

  En ég hef barist fyrir allsherjar endurskoðun á stjórnarskrá löngu áður en þetta hrun kom. Vegna þess að hrunið er svo langt frá því að vera eina vandamálið sem hefur verið á Íslandi. Það eru líka fleiri hlutir sem skipta máli heldur en þetta hrun og það að reyna finna leið til að enginn þurfi að borga fyrir það.

 2. Mikið er ég sammála þér. Þessi 63% sem kusu ekki eru líka að segja eitthvað og það er miklum mun nær að reyna að grafast fyrir um hvað það kann að vera en að fordæma þá sem letingja og ómenni.

 3. Nei Hildur. Það er hægt að draga lærdóm kanski af því þessum 63% en þau eru hinsvegar ekki að segja nokkurn skapaðan hlut.

  Það að skila auðu er að segja eitthvað. Hlutur sem ég hef nú oft gert. Það að mæta ekki er bara einfaldlega að taka ekki þátt. Og það er í lagi að taka ekki þátt en þá þýðir heldur ekki að hvarta yfir niðurstöðum.

  Þetta snýst um svo miklu meira en þetta hrun. Þetta snýst meðal annars um að skilgreina vald. Veistu til dæmis hvað er mikið fjallað um dómsvaldið í stjórnarskrá okkar? Heilar 3 greinar. Tæknilega séð getur forsætisráðherra í sterkri stöðu næstum afnumið dómsvaldið og séð um þetta sjálfur.

  Er ekki kominn tími til að skrifa stjórnarskrá? Við ætluðum að gera það 1944 en dröttuðumst aldrei til þess. Notuðum bara srká sem átti að redda okkur í 1-2 ár. Nema við nenntum ekki að gera neina og erum núna að uppgötva að það sé ekki sniðugt að reyna að reka stjórnkerfi sem byggist á því að allir séu heiðarlegir næs gæjar sem hugsi alltaf um aðra fyrst. Þetta er stjórnkerfið en ekki barbapabbabók.

 4. Það má vel vera að einhverjum hafi verið vorkunn og þeim vaxið í augum að kjósa. Þetta er flóknasta kosning Íslandssögunnar og fullt af fólki kaus að kjósa ekki illa fyrst það treysti sér ekki til að gera það vel. Það fólk á ekki að áfellast.

  En hinar mótbárurnar eru lélegar.

  Ísland gengur í gegnum gríðarlegar hremmingar. Margt brást. Sameiginlega berum við ábyrgð á því hvernig varnarmúrar almannvaldsins brugðust. Allir eru sammála um að illa hafi verið farið með valdið, menn hafi ítrekað vaðið út fyrir valdssvið sitt og verið mishæfir til verka.

  Hvort það varð vegna þess að stjórnarskráin er léleg eða vegna þess að henni er illa fylgt þá er komið að þessu samfélagslega verkefni, að meta hvort tilefni sé til að endurskoða samfélagssáttmálann, grundvöllinn undir því hvernig landinu er stýrt.

  Þetta verkefni er mikilvægt. Og, eins og lýðræðið býður upp á, voru valkostir fyrir næstum öll viðhorf. Stjórnfestufólkið vill engu breyta í stjórnarskránni, ýmist því það er sátt eða vegna þess að það telur vandann liggja annarsstaðar. Aðrir vilja róttækar breytingar. Enn aðrir sjá sér leik á borði að henda kirkjunni út úr skránni eða koma lesbíum inn í hana.

  Hver sem afstaðan er, þá gastu komið henni á framfæri. Og það bar þér auðvitað að gera. Það er ef þú kærðir þig rassgat um það hvernig landi þú býrð í.

  Ef þér er andskotans sama þá það. En þá skaltu ekki undrast þótt þú vekir hörð viðbrögð þeirra sem taka lýðræðið alvarlega og eru tilbúnir að leggja ýmislegt á sig til að tryggja að kærulausi þú njótir sama sess í samfélaginu og þeir sjálfir.

 5. Þið, Jón Grétar og Ragnar, verðið að átta ykkur á því að þeir sem t.d. telja að þetta stjórnlagaþing sé orðið tilgangslaust vegna þess að það hefur einungis tillöguvald eða af einhverjum öðrum sökum völdu margir að sýna þá afstöðu sína með því að taka ekki þátt í þessum kosningum.

  Það að ætla að afskrifa þetta fólk er einfaldlega kjánalegt, sér í lagi þegar það er augljóst að næstum því tveir þriðju þjóðarinnar mættu ekki á kjörstað.

  Þetta snýst ekki um að fólki sé bara sama um hvað gerist í þjóðfélaginu eða að fólk taki lýðræðið ekki alvarlega. Ekki á meðan kjörsókn í þing- og sveitastjórnakosningum er jafn há og hún er og ekki á meðan kjörsókn í það sem var þá næsta tilgangslaus þjóðaratkvæðagreiðsla um IceSave var miklu hærri en í þessum kosningum.

  Með tilliti til þessa og þess sem ég heyrði almennt frá fólki í kringum mig þá er augljóst að kjörsókn skýrist fyrst og fremst af stjórnlagaþinginu sjálfu, framkvæmd þess, tilgangi og frambjóðendum en sinnuleysi kjósenda.

 6. Ef að fólk valdi sér að taka ekki þátt í kosningunum þá valdi það sér það bara það. Það er eins og er ekki lagaleg skylda að mæta þar. En að halda því fram að það hafi verið einhver svakaleg pæling að mæta ekki á kjörstað og að þetta sé eitthvað svaka statement er stórundarleg staðhæfing. Og töluvert annað en svarið sem ég fékk frá fólki sem mætti ekki sem var nánast undantekningalaust „meah… bara…“.

 7. Ok frábært Jón Grétar. Með þinni sannfæringu getum við verið viss um að komast ekki lengra í því að átta okkur á því af hverju færri kusu á laugardaginn en kusu í tilgangslausum kosningum um IceSave. Við getum þá verið viss um að vita ekki af hverju tveir af hverjum þremur Íslendingum ákváðu að mæta ekki á kjörstað, hvort að sökin liggur í tilgangi, framkvæmd eða öðru.

  Nei, dæmum bara þetta pakk sem sinnulausa letingja. Af því að þú hefur fengið svo kjánaleg svör frá fólki.

Comments are closed.