Klukkan og rúðustrikaða fólkið

Ég næ engri tengingu við þessar pælingar um að seinka klukkunni á Íslandi. Eftir því sem ég best sé þá er líklega gáfulegast að vera ekkert að hringla með klukkuna, enda fylgir því bæði vesen og kostnaður, en að hugsa frekar um að breyta því einfaldlega hvenær dagurinn, þetta sem við afmörkum flest með annars vegar því hvenær við þurfum að vakna vegna vinnu/skóla/leikskóla/hvaðeina og hins vegar hvenær formlegri dagskrá okkar lýkur og við getum hætt að græða og farið að grilla. Ég er s.s. á svipaðri línu og Örvitinn.

Mér finnst þessi tillaga, og rökin sem fylgja með í greinagerðinni, lýsa alveg ofboðslega rúðustrikaðri hugsun. Klukkan átta á veturna er dimmt. Það er leiðinlegt að hefja daginn þegar það er svona rosalega dimmt. Þess vegna skulum við færa klukkan átta þannig að það verði minna dimmt.

Rúðustrikaða manninum virðist ekki detta í hug annað en að upphaf kennslu í grunn- framhalds og væntanlega að einhverju leyti líka háskólum sé fastbundin við ákveðna afstöðu vísana á klukkunni. Sama gildir um upphaf hins hefðbundna vinnudags. Þetta gæti allt eins verið náttúrulögmál.

En ef vandamálið er hin hverfula birta hér á landi er þá ekki bara langbest að vera með þessa tíma svolítið á hreyfingu. Að yfir dimmustu mánuðina byrji skóla/vinnudagurinn einfaldlega einum til tveimur tímum seinna en ella? Eða er það of flókið til þess að hægt sé að stjórna því frá Alþingi?

————

En að öllu þessu sögðu, og þrátt fyrir að hafa reynt eins og ég get, þá bara gæti mér ekki verið meira sama um hvort klukkunni verði breytt.