Gídeonformaður á fölskum forsendum

Fjalar Freyr Einarsson skrifaði grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Í blaðinu titlaði hann sig grunnskólakennara en gefur ekki frekari deili á sér í greininni sjálfri, sem er um margt sérstök og sýnir m.a. stórfurðulegan skilning á hugmyndafræði Skóla án aðgreiningar. Það vakti líka athygli mína að Fjalar talar um ‘öfgatrúleysingja’ og reynir þannig að mála þá sem eru ósammála honum sem hættulegt fólk (því við vitum jú öll að öfgar eru hættulegar).

Fjalar Freyr hefur komið við sögu í umræðu um trúboð í skólum áður, þar sem hann hefur m.a. haldið á lofti þeim ósannindum að hér á landi berjist einhverjir fyrir því að banna kennslu um trúarbrögð og tiltók hann þar sérstaklega Siðmennt. Sigurður Hólm svaraði grein Fjalars sem birtist í Morgunblaðinu í febrúar á þessu ári.

En hver er þessi Fjalar Freyr Einarsson? Ef marka má greinina í Fréttablaðinu er hann bara grunnskólakennari sem hefur áhyggjur af yfirgangi trúleysingja. En þegar þetta hérna er skoðað kemur í ljós að Fjalar er hvorki meira né minna en formaður Gídeonfélagsins á Íslandi. Sem setur áhyggjur hans auðvitað í ákveðið samhengi.

En Fjalar hefur leikið þennan leik víða upp á síðkastið. Þegar fjölmiðlar tóku tillögur Mannréttindaráðs RVK til umfjöllunar hringdi Fjalar Freyr inn í símatíma í síðdegisútvarpi Rásar 2 þar sem hann kynnti sjálfan sig sem grunnskólakennara og fann þessu allt til foráttunnar. Í kjölfar þess viðtals birtist annað viðtal við hann í Morgunblaðinu þar sem hann segist vera kennari í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði (skoðið neðarlega í þessari grein).

Og hann hefur líka látið gamminn geysa í umræðum á netinu. Hérna sést hvar Fjalar kemur inn í umræðuna eftir að Tinna Gígja bendir á að það sé klárlega trúboð þegar Gídeonmenn mæti inn í skólastofur og biðji með börnum:

@ Tinna

Hvaðan hefur þú þá vitneskju að utanaðkomandi s.s. Gídeonmenn séu að koma í skólana og kenna börnum að biðja? Ég hef sjálfur tekið all nokkrum sinnum á móti Gídeonmönnum og aldrei hefur það komið til að biðja. Þeir hafa í engu farið gegn nokkru sem ég get ekki samþykkt í skólastofunni. Farðu með rétt mál Tinna.

Og sjáið þetta hér:

Ég hafði samband við Gídeonfélagið og sagði þeim frá þessu. Þeir urðu mjög undrandi og sögðu þetta ekki samkvæmt þeim reglum sem félagið setti og könnuðu málið.

Þetta hefur verið áhugavert samtal sem Fjalar átti við sjálfan sig. Ég er viss um að hann varð mjög undrandi.

En allt skilur þetta eftir sig stóra spurningu: af hverju kemur formaður Gídeonfélags Íslands, félags sem á mikilla hagsmuna að gæta í þessari umræðu, ekki hreint fram? Af hverju þessi feluleikur? Er Fjalar ef til vill hræddur um að orð hans hafi minna vægi þegar fólk veit hvaða hagsmuna hann hefur að gæta?