Neikvæðar yrðingar og biskupinn

Ég er búinn að rökræða við eiga í samtali við prestshjónin Árna Svan og Kristínu Þórunni á Eyjunni aðeins seinustu daga. Þau brugðust ókvæða við bloggfærslu Valgarðs Guðjónssonar, sem þau virðast reyndar ekki hafa lesið nógu vel, og eftir að Kristín hreytti ónotum og uppnefnum í Valgarð* í athugasemdum blogguðu þau hjónin ekki einu sinni heldur tvisvar um þessa í sjálfu sér frekar saklausu grein Valgarðs.

Fyrri pistillinn er auðvitað algjörlega misheppnuð tilraun til að beita skemmtilegu stílbragði. Vandamálið er bara að þau hjónin virðast annað hvort ekki alveg skilja út á hvað stílbragðið gengur eða hvað Valgarður átti við með pistlinum. Konur og karlar eru í það minnsta ekki sambærilegar breytur og trúleysi og trúarbrögð.

Seinni pistillinn var lítið skárri en umræðurnar við hann urðu bitastæðari. Árni og Kristín leggja nefnilega mikið upp úr því að alveg eins og við trúleysingjarnir eigum að bera virðingu fyrir þeirra trúarbrögðum og tala um þau af virðingu þá eigi trúaðir að gera slíkt hið sama gagnvart trúleysingjum. Svo eiga jú umræður um trúmál að vera málefnalegar, Betri heimur með betri umræðu. Sem er auðvitað bara frábært.

Málið bara vandast þegar fyrrnefndar athugasemdir Kristínar, og allur fyrri bloggpistillinn, ná því líklega seint að teljast málefnaleg innlegg í neina umræðu. Og þegar þau eru krafin um að gefa upp skoðun sína á tilteknum ummælum tiltekinna einstaklinga, t.d. ummælum biskups um trúleysingja sem hafa oft á tíðum verið ansi hatrömm, þá fást engin svör nema að það sé jafn vont að tala illa um trúlaus og trúaða.

Sem er auðvitað rétt, en fólk verður að þora að standa við svona fullyrðingar þegar því er bent á sértæk dæmi. Líka þegar dæmin snúa að yfirmanninum. Annars er bara um að ræða froðu sem auðvelt að er blása í burtu.

*Kristín notar m.a. orðalagið „drengurinn minn“, sem er fyrir utan hrokann og yfirlætið sprenghlægilegt finnst mér þar sem mér telst til að Kristín hafi verið að halda upp á 10 ára afmælið sitt á svipuðum tíma og Valgarður hvekkti ráðsettar húsmæður í vesturbæjum landsins þegar hann söng um að ætla að ríða einhverri ótilgreindri „þér“ í nótt.