Kæra Guðríður – Pressugrein

Ég á aðsenda grein á Pressunni í dag. Ákvað að birta hana hér líka:

Kæri formaður Bæjarráðs Kópavogsbæjar, Guðríður Arnardóttir

Ég ákvað að skrifa þér þetta opna bréf því að ég er svolítið hissa á þér. Nei, ég lýg því reyndar, ég er ekki „svolítið“ hissa. Ég er algjörlega forviða. Mér finnst nefnilega eins og þú haldir að ég og samstarfsfólk mitt séum ekki mjög vel gefin. Ég get fullvissað þig um að það er misskilningur.

Ég vinn á leikskóla í bænum. Og eins og annað starfsfólk leikskóla í Kópavogi varð ég mjög hissa þegar í ljós kom að bærinn ætlaði að leggja niður afsláttinn sem þau okkar sem eru svo heppin að eiga börn fá af dvalargjöldum leikskóla. Einhliða og án samráðs. Svona eins og þegar ákveðið var að bærinn myndi ekki gefa jólagjafir og að sumarlokanir leikskóla 2011 stæðu í fjórar vikur, en um þessar ákvarðanir fréttum við fyrst í gegnum fjölmiðla.

En „afgreiðsla“ þín á erindi leikskólastjóra í bænum vegna afnáms á afslætti á dvalargjöldum er það sem liggur helst á mér. Ég set afgreiðslu innan gæsalappa því að þú tókst þetta mál ekki til umfjöllunar í bæjarráði, var það nokkuð? Ó nei. Þegar kom að því að fjalla um málefni sem hvílir þungt á starfsfólki leikskóla í bænum heyktist þú á því og hengdir þig annars vegar í smáatriði og hins vegar mótsögn.

Smáatriðið er að leikskólastjórar séu skilgreindir sem millistjórnendur. Þannig var hægt að úthýsa þeim sem besta yfirsjón hafa yfir starf leikskóla í bænum án þess að taka mark á athugasemdum þeirra. Vel gert!

Hitt atriðið lýsir ekki mikilli virðingu fyrir starfsfólki leikskóla. Eftir að hafa fengið þau boð að ofan, án þess að geta haft neitt um það að segja, að afslátturinn skyldi afnuminn voru skilaboðin nú þau að ekki væri hægt að fjalla um erindi leikskólastjóra af því að þetta varðaði kjaramál sem bæri að meðhöndla við kjarasamningsborð!

Fyrirgefðu Guðríður en ég bara fæ þetta ekki til að ganga upp í hausnum á mér. Hvernig getur bæjarráð tekið einhliða ákvarðanir um kjarasamningsatriði? Eins og þið gerðuð reyndar í dag, 21. janúar? Mun það sama gerast þegar málið fer fyrir bæjarstjórnina sjálfa?

Ég verð að segja eins og er Guðríður að mér finnst þetta ekki lýsa mikilli virðingu í garð okkar leikskólastarfsfólks. Eins og þú sérð á þessu bréfi mínu og hefur vafalaust heyrt líka í bænum þá ríkir ekki beint mikil hamingja með þessa ákvörðun ykkar eða málsmeðferðina. Við gerum okkur grein fyrir því að niðurskurðar er þörf en það sem við köllum eftir er smá viðleitni í átt til samstarfs. Og samstarfið þarf að byggja á virðingu.

Egill Óskarsson

Leikskólakennaranemi og starfsmaður í leikskólanum Fögrubrekku