Presturinn og góðvildin

Sr. Gunnar Kristjánsson er víst einn af þeim prestum sem vill meiri pólitík í predikanir. Í dag sagði hann þetta í predikun á Reynivöllum:

Aðeins með trúnni á upprisuna getum við sýnt þá góðvild sem hefur engan tilgang nema sjálfa sig.

Ef þú trúir því ekki bókstaflega að fyrir tæpum 2000 árum hafi maður verið líflátinn en svo vaknað upp frá dauðum þá getur þú ekki sýnt óskilyrta góðvild.

Ég efast ekki um það að einhverjir, t.a.m. Gunnar sjálfur, geti fundið út hvernig svona rugl samræmist kærleika, virðingu og umburðarlyndi gagnvart þeim sem ekki deila trúarskoðunum manns en ég á voðalega erfitt með að sjá það sjálfur.

Og af því að það þarf sennilega að taka það fram þá má Gunnar trúa þessu mér alveg að meinalausu. Ég get bara ekki gert að því en þegar ríkiskirkjuprestar tala um að bera þurfi virðingu fyrir trúar- og lífsskoðunum annara og að við eigum að sýna öllum kærleik þá finnst mér eins og að ég þurfi líka að umbera það að þetta gildi bara í aðra áttina. Því að ég sé rosalega vondur þegar ég bendi á hræsnina.