Í dag gerðist ég glæpamaður!

Í dag hjálpaði ég til við að fremja lögbrot. Við í Vantrú héldum árlega páskabingóið á Austurvelli í hádeginu, í trássi við hin fáránlegu lög um helgidagafrið.

Eins og Matti bendir á í dag þá snýst þessi viðburður ekki um bingó. Hann snýst ekki heldur um frídaga. Hann snýst um að í lögum á Íslandi í dag er freka og yfirgangur einnar lífsskoðunar leyfður. Af því að trúað kristið fólk heldur upp á þessa daga þá skulum við hin sætta okkur við skerta þjónustu og það að mega flest ekki vinna þó að við fegin vildum. Þetta óréttlæti þrífst í skjóli þess að lúthersk evangelíska trúfélagið er í raun ríkistrúfélag á Íslandi, í trássi við vilja um 75% þjóðarinnar miðað við kannanir. Það er löngu kominn tími til þess að þessir sérhagsmunir verði afnumdir.

Og gerið það nú fyrir mig, ekki spyrja mig hvort að ég vilji þá missa þessa frídaga. Ég treysti einfaldlega stéttarfélögunum til þess að sjá áfram um þau mál eins og þau hafa gert hingað til. Ekki byrja heldur á baulinu um að það sé nú svo notalegt að hafa svona daga öðru hverju þar sem allt er lokað og maður geti bara slappað af. Ég veit ekki með ykkur, en það truflar mína afslöppun aldrei neitt að opið sé í Hagkaup og á listasöfnum, hvað þá að eðlilegar strætisvagnasamgöngur geri mig sturlaðan úr stressi.

En allavega. Ég braut lög í dag. Hér eru myndir af því.