Eins og ég bloggaði um í gær hélt Vantrú páskabingó til þess að mótmæla íslenskri helgidagalöggjöf (og fleiru, lesið bara bloggið). Á Austurvelli söfnuðust saman líklega um 80 manns og skemmtu sér vel með kakó í annari, kleinu í hinni og bingóspjald í hin…nei við erum víst bara með tvær hendur. Þetta voru allvega bráðvel heppnuð mótmæli.
Og ég held að þau verði að teljst fréttnæm. Allavega töldu Fréttablaðið, Vísir.is, Bylgjan, DV og Stöð 2 að svo væri. Það var svosem lítið annað að gerast í gær. Það var svo lítið að gera að á mbl.is var sagt frá gönguferð sem farin var fyrir messu á Álfanesi. Þau miklu býsn gerðust víst líka að Passíusálmarnr voru lesnir víða, í þeim tilgangi að reyna skilja þjáningu Krists kannski. Í sjónvarpsfréttum RÚV var einmitt lika sagt frá geðsjúklingum á Filipseyjum sem húðstrýkja sjálfa sig og láta negla sig við krossa í sama tilgangi, með tilheyrandi hryllingsmyndum. Stöð 2 gerði þessum sjúku mönnum einnig skil. Ég er 28 ára gamall. Ég man ekki til þess að hafa upplifað Föstudaginn langa án þess að sjá fréttir frá Filipseyjum.
En hvorki Mogginn né RÚV sáu eitthvað fréttnæmt við 80 manna mótmælin á Austurvelli. Ég er svosem ekki hissa á fálæti Moggans en ég á ansi erfitt með að skilja hvað RÚV gengur til. En ég ætlaði nú svosem ekki að láta þetta fara í taugarnar á mér. Í kvöld var hins vegar hálfrar mínútu löng frétt um mótmæli í Þýskalandi. Mótmæli gegn helgidagalöggjöf sem ég gat ekki heyrt annað en að væri næstum því orðrétt jafn galin og sú íslenska.
Ef ég væri svo illa búinn að hafa bara aðgang að fréttatímum RÚV þá vissi ég semsagt að trúleysingjar og fylgismenn aðskilnaði ríkis og kirkju í Þýskalandi væru ósáttir við helgidagalöggjöf þar í landi og að þeir hefðu mótmælt á friðsamlegan og skemmtilegan hátt í gær. En að einhverjir hefðu gert nákvæmlega það sama hérna heima, það fengi ég ekki að vita.