Meinlegur misskilningur stjórnlagaráðs

Mér sýnist á öllu að meinlegur misskilningur ríki hjá meðlimum stjórnlagaráðs um það hvað aðskilnaður ríkis og kirkju og afnám sérréttinda ríkiskirkjufólks umfram aðra snýst um. Ég ætla ekki að eyða tíma í þá þvælu Daggar Harðardóttur að það eigi ekki að aðskilja af því að trúleysi sé ekki hlutlaus skoðun. Þeir sem halda að trúleysi sé boðað með því að afnema sérréttindi ríkiskirkjunnar í stjórnarskrá taka mjög líklega ekki rökum hvort sem er.

En misskilningurinn meinlegi kom m.a. fram í dægurmálaútvarpi Rásar Tvö í dag þar sem rætt var við tvo stjórnlagaráðsfulltrúa. Þau sögðu frá því að í hléi á milli ráðsfunda hafi fulltrúarnir komist að því í umræðum sín á milli að Íslendingar væru líklega miðjufólk í trúarskoðunum eins og öðru. Að tiltölulega fáir séu heitttrúar og fáir séu trúlausir en flestir einhversstaðar mitt þar á milli.

Fyrir það fyrsta þá skil ég ekki hvernig það eitt að trúa ekki á yfirnáttúruleg öfl sem skipta sér af lífi manna gerir mig að einstaklingi sem er á andstæðum öfgapól við Gunnar í Krossinum, Snorra í Betel og Karl Sigurbjörnsson. Ég skal alveg sætta mig við að í augum einhverra sé ég svolítið öfgafullur fyrir það að ég legg mig sérstaklega fram við að benda á kjánaganginn sem tilheyrir hindurvitnum og kukli (þó að ég sé ósammála þeirri stimplun á mér) en að hægt sé að setja upp ás þar sem að þeir félagar eru á einum enda og ég vegna þess eins að ég sé trúlaus er bara röklaus hugsanavilla.

En það er ekki  aðal málið. Aðskilnaður ríkis og kirkju og afnám sérréttindaákvæðis stjórnarskrárinnar til handa ríkiskirkjunni snýst bara ekkert um trúarskoðanir fólks! Þetta snýst um réttlæti. Þetta snýst um að eitt ákveðið trúfélag sé ekki með forréttindastöðu. Að meðlimir þess, en þeim fer reyndar hratt fækkandi, séu ekki metnir á annan hátt en aðrir íbúar landsins bara vegna trúarskoðanna sinna.

Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með það hvernig stjórnlagaráð nálgast þetta mál. Mér finnst hræðsla við umræður og þjónkun við sérhagsmuni hafa verið ríkjandi. Mér finnst út í hött að prestur í ríkiskirkjunni skuli fjalla um þetta mál og reyndar sækjast sérstaklega eftir forystu í þeim hópi sem hafði það til umfjöllunar innan ráðsins. Sami maður náði ekki andanum af hneykslun yfir því að í Mannréttindaráði Reykjavíkur sitji stjórnarmaður í Siðmennt þegar umræðan um tillögur MR um afnám trúboðs í opinberum skólum stóð sem hæst, og það þrátt fyrir að alltaf lægi fyrir að Siðmenntarmaðurinn myndi víkja úr nefndinni þegar tillögurnar yrðu teknar fyrir. En það er auðvitað ekki sama Bjarni og séra Örn.

Líklegasta niðurstaða stjórnlagaráðs er að af öllum umdeildum málum sem fjallað verður um fari þetta mál eitt sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er fín niðurstaða. Það hefur verið samfelldur meirihluti fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju í hátt í tvo áratugi skv. Capacent Gallup. En mér finnst furðulegt að sjá stjórnlagaráðsmenn beita því fyrir sig að málið sé svo umdeilt að best sé að ræða það sem minnst því að umræðan verði svo erfið og hatrömm (öfugt við umræður um auðlindir til lands og sjávar væntanlega þá). Ég hélt einmitt að menn hefðu boðið sig fram í þetta starf einmitt til þess að ræða erfiðu málin. Það var kannski minn meinlegi misskilningur.