Biskupsstofa í spunaham

Ég minntist á það í seinusta bloggi mínu að Dögg Harðardóttir stjórnlagaráðsmaður vildi meina að með því að fjalla ekki sérstaklega um ríkiskirkjufyrirkomulagið í stjórnarskrá væri verið að boða trúleysi. Seinustu daga hafa svo ríkiskirkjuprestar tekið upp svipaðan málflutning varðandi tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um að fjarlægja trúboð úr opinberum leik- og grunnskólum.

Þetta er skrýtinn leikur hjá prestunum. Það að ekki megi boða kristna trú þýðir að þeirra mati að tekin hafi verið upp sérstök trúleysisstefna. Þeir vilja s.s. meina að það sé ekki til neitt sem heiti hlutleysi í trúmálum og að valið standi einungis um það hvaða trúar- eða lífsskoðanir séu boðaðar. Boðun trúarskoðana er þannig samkvæmt því sem prestarnir segja óhjákvæmilegur fylgifiskur skólastarfs. Þetta er, vægast sagt, skrýtin málflutningur. Ég verð að viðurkenna að ég kann ekki alveg við þær aðdróttanir í garð kennara sem mér finnst liggja í þessari skoðun prestana. Ég tel mig fullfæran um að vera hlutlaus gagnvart skjólstæðingum mínum þegar kemur að trúmálum í mínu starfi alveg eins og ég er hlutlaus varðandi aðra hluti sem ég tel að séu á forræði foreldra.

En hversu galin er þessi hugmynd samt? Hversu illa gáttað þarf fólk að vera til þess að trúa því virkilega að afnám boðunnar ákveðins málstaðar sé sjálfkrafa upptaka annars málstaðar?

Félagi Matti bendir svo á að þessum pælingum fylgi alltaf sá boðskapur kirkjunnar að líf okkar trúleysingjanna sé gildislaust, kalt og tómt. Kristilegi náungakærleikurinn og það allt þið munið.

En dettur einhverjum í hug að allir þessir prestar detti allir alveg bara óvart inn á sömu línuna akkúrat núna? Þetta var nefnilega ekki opinbera línan þegar málið kom fyrst upp. Reyndar er þetta alveg ný nálgun. Af þessu tilefni langar mig að benda á tvennt. Í fyrsta lagi er Einar Karl Haraldsson, atvinnujafnaðarmaður og spunameistari, húsköttur Biskupsstofu. Í annan stað vil ég rifja upp að fyrir ekki margt löngu kom í ljós að Biskupsstofa borgaði KOM-almannatengslum tæpa kvartmilljón á mánuði fyrir ráðgjöf.

Spunarokkarnir niðri á Laugarvegi 31 eru s.s. á fullum snúningi. Eins og venjulega.