Páll Óskar, fordómarnir og íslenska umræðuhefðin

Af einhverjum ástæðum hefur orðið einhver umræða um orð sem Páll Óskar Hjálmtýsson lét falla í viðtali við RÚV í gær. Ég fatta það ekki alveg og held að hún hljóti að byggja á annað hvort misskilningi eða ofurviðkvæmni. Skoðum hvað það var sem Palli sagði sem fer svona fyrir brjóstið á fólki:

Mér finnst gay-pride hátíðin vera löngu komin út fyrir það að vera bara einhver hátíð vegna mannréttindabaráttu samkynhneigðra. Þetta er hátíð fyrir alla þá sem láta sig lágmarks mannréttindi einhverju varða. Alla þá sem eru orðnir leiðir á hatrinu og níðinu – inni á internetinu, öllum ógeðslegu kommentunum sem hægt er að segja um alla minnihlutahópa.

Þetta er auðvitað mjög gild skoðun enda held ég að flestir taki undir þetta. Allavega snýst umræðan ekki um þessi orð, eins og hún ætti nú kannski frekar að gera.

Það er engu líkara en sá eini sem fær að vera í friði í þessum heimi, það er hvítur straight karlmaður í jakkafötum hægri sinnaður og á peninga. Og stundum er þessi karlmaður með Biblíuna í annarri hendi og byssuna í hinni. Allt annað má kalla einhverjum nöfnum. Allt annað er hægt að uppnefna: „Helvítis femínisti, helvítis kéllingar, helvítis hommar, helvítis þið, blíh, blah!“ Þannig að út með kvenfyrirlitninguna, út með fyrirlitningu á öðrum kynþáttum, öðru fólki sem er af annarri stöðu og stétt en þú. Við eigum öll að sitja við sama borð. Og til þess er þessi dagur. Við verðum að gera þetta einu sinni á ári. Við megum ekki sofna á verðinum

Það er þetta sem ég feitletra sem fólk virðist vera viðkvæmt fyrir. Og ég skil ekki af hverju.

Ég held reyndar að það sé rangt hjá Palla að hvítir, kristnir, gagnkynhneigðir karlmenn verði aldrei fyrir fordómum*. En ég skil líka að þegar um er að ræða einhvern mesta forréttindahóp seinni alda þá hneigist margir til að láta einhverja gremju bitna á þeim (eða tja, okkur, ég uppfylli allar þessar kröfur nema kristnina) og til þess að flokka kvartanir hópsins sem hálfgert væl, einmitt vegna þessara forréttinda.

En að Palli hafi verið að dreifa einhverjum fordómum sjálfur, eða að segja að það væri í lagi að níða þennan hóp er algjör þvæla. Það gerir hann hvergi. Hann bendir á að innan þessa hóps finnist fordómafullir menn. Er það rangt? Vantar ykkur dæmi? Eigum við að reyna að finna hvítan, vel stæðan, kristinn, gagnkynhneigðan karlmann lýsa fordómum? Eigum við að þrengja leitina enn frekar og einskorða okkur bara við ummæli sem féllu í tengslum við Gay Pride? Lítið mál:

Mér finnst þetta hörmung. Ég verð að segja það eins og er. Að standa í kynlífsögrandi stellingum uppi á einhverjum vögnum. Frelsið er sjálfsagt en nú orðið eiga þeir sem hafa klassískar biblíulegar skoðanir verulegar undir högg að sækja. Baráttan hefur snúist við. #

Hér erum við með hvítan, vel stæðan, kristinn, gagnkynhneigðan karlmann sem þolir ekki einu sinni að vera í sama þéttbýliskjarna og Gleðigangan er haldin.

En neinei, við skulum ekki ræða þá fordóma sem raunverulega eru til staðar neitt. Við skulum frekar of- og rangtúlka fullkomlega réttmætar ábendingar Páls Óskars og röfla soldið um þær. Það er meira í takt við íslenska umræðuhefð.

*-bætt við 7.8. kl. 17:40: Mér hefur verið bent á að Palli fullyrðir auðvitað ekki að þessi hópur verði aldrei fyrir fordómum heldur segir að „það sé engu líkara en að“ svo sé. Rétt skal vera rétt.

3 replies on “Páll Óskar, fordómarnir og íslenska umræðuhefðin”

  1. Stórkostlegt þetta viðhorf hans Gunnars. „baráttan hefur snúist við“?

    Baráttan fyrir því að fólk fái að vera eins og það er á meðan það ekki bitnar á öðrum hefur sem sagt gengið of langt og tími kominn til að biblíufólk farið að troða „syndurunum“ aftur inn í skápa, kannski?

    Það er kannski ágætt að karlinn sé bara í sveitinni á meðan aðrir fagna frelsi og víðsýni.

  2. Nákvæmlega. Nema hann eigi við að nú eigi kristið fólk við samskonar félags- og lagalega stöðu að eiga og samkynhneigðir hér áður fyrr.

  3. Ég á erfitt með að ímynda mér að kristið fólk eigi í vandræðum með að fá að stunda trú sína að öðru leyti en því að það kemst illa upp með allskyns mismunun og andúð á öðru fólki.

    En hver veit, kannski eiga þeir bágt.

Comments are closed.