Beðið eftir KSÍ

Er einhver ennþá á þeirri skoðun að Ólafur Jóhannesson sé hæfur til þess að gegna stöðu landsliðsþjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta? Er ekki komið nóg? Ég nenni ekki að fara yfir árangur liðsins undir stjórn Ólafs eða afneitunina sem hann sjálfur virðist lifa við sem birtist m.a. í fáránlegum viðbrögðum við spurningum blaðamanna.

Nú eru þrír leikir eftir í undankeppni fyrir EM 2012 og allir vita að Ólafur verður ekki þjálfari liðsins í undankeppni fyrir HM 2014 sem hefst haustið eftir úrslitakeppni Evrópumótsins. Flestir búast við að KSÍ láti samning sinn við Ólaf renna út sem þýðir að nýr stjóri mun í mesta lagi fá einn vináttuleik áður en hann stýrir því í sínum fyrsta keppnisleik. Næsti þjálfari landsliðins mun ennfremur stjórna liðinu á meðan kynslóðaskiptin sem blasa við, þegar kjarninn úr U-21 liðinu sigursæla leysir af eldri leikmenn sem í mörgum tilfellum eru nú þegar heilum klassa lakari en ungviðið. Það skiptir þess vegna miklu máli að fær þjálfari veljist til verksins og að hann fái þann stuðning frá KSÍ sem hann þarf.

Árangur íslenska liðsins undir stjórn Ólafs í undankeppni EM er engin og lagast varla úr þessu. Af hverju – í ósköpunum! – er maðurinn ekki látinn fara? Af hverju ekki að gefa nýjum manni tækifæri til þess að prófa sig áfram með liðið þessa þrjá leiki sem eftir eru af undankeppninni? Heldur einhver í alvörunni að það gæti komið verr út en að leyfa núverandi þjálfara, sem virðist ekki hafa hugmynd um hverjir eru 11 bestu leikmenn liðsins né hvað hann vill eiginlega að þeir geri á vellinum hverju sinni, að klára mótið?