Af hverju er ég á leiðinni í verkfall?

Ég skil þetta í alvörunni ekki.

Ég útskrifaðist sem leikskólakennari í vor. Ég er nýorðinn deildarstjóri og er að fara að taka á móti börnum í aðlögun í fyrsta skipti. En ég er einhvern veginn í lausu lofti af því að flest bendir til þess núna að þann 22. ágúst, eftir minna en tvær vikur, leggi ég niður störf í ótilgreindan tíma.

Ef að kröfur okkar leikskólakennara væru ósanngjarnar eða óeðlilegar þá gæti ég skilið það hvernig Samninganefnd Sveitarfélaganna (SS…öhh nei ok, SNS frekar) hefur dregið fæturnar í umræðunum. Þá gæti ég skilið það af hverju það er verið að hrekja stéttina í verkfall. En kröfurnar eru einfaldlega mjög eðlilegar og fullkomlega sanngjarnar.

Kristín Dýrfjörð útskýrir hér vel hver staðan er (önnur fín grein eftir Kristínu er hér). Leikskólakennarar brunnu í raun inni með sinn samning og eru því tveimur samningum á eftir viðmiðunarstéttinni grunnskólakennurum. Það sem stendur umfram í kröfum leikskólakennara sé miðað við aðra samninga sem gerðir hafa verið nýlega er auka 11% hækkun. Áfacebook-síðu Félags Leikskólakennara voru þessi skilaboð sett fram í kvöld (ég geri ráð fyrir að Haraldur F. Gíslason, formaður félagsins hafi sett þau inn):

Einföld krafa
Deilan snýst um 11% leiðréttingu á launum leikskólakennara vegna þess að við drógumst aftur úr viðmiðunarstéttum. Til að setja þessa 11% tölu í samhengi þá er hún ca. 15.000 kr. hækkun á laun leikskólakennara eftir skatt og launatengd gjöld. Það er varla ein ferð í Bónus.

Þetta er svo einfalt og sanngjarnt. Þess vegna skil ég ekki af hverju SNS, sem á endanum gerir það sem sveitarfélögin segir henni að gera, er að hrekja leikskólakennara í verkfall.