Pólitíkusar ögra leikskólakennurum

Þetta bréf var ekkert annað en ögrun frá pólítíkusunum í Sambandi íslenskra sveitarfélaga (SÍS). Pólitíkusana í stjórninni má sjá í góðri bloggfærslu Harðar Svavarssonar.

Fyrir það fyrsta þá er það algjör sturlun að ætla sér að halda starfsemi gangandi í leikskólum á meðan félagar í FL eru í verkfalli. Starfsfólki inni á deildum myndi snarfækka. Mismikið eftir leikskólum auðvitað en það er t.d. augljóst að á Akureyri þar sem hlutfall félaga leikskólakennara er á flestum leikskólum yfir 80% mun ekki vera hægt að taka á móti mörgum börnum. Á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið almennt ekki jafn hátt og á Akureyri en það mun samt sem áður engan vegin verða hægt að taka á móti nema hluta af börnum hvers leikskóla á hverjum degi. Fyrir svo utan þá staðreynd að ekki verður heldur hægt að halda áfram að aðlaga þann risastóra hóp af börnum sem nú eru að fara að byrja í leikskóla. Árgangurinn sem nú er að byrja í leikskóla, 2010 börnin, er einn sá stærsti í sögu þjóðarinnar.

Ef SÍS fengi sitt fram yrðu þeir starfsmenn inni á deildum leikskóla sem ekki eru í FL (fyrst og fremst leiðbeinendur en líka t.d. aðstoðarleikskólastjórar) undir gríðarlegu álagi. Upp til hópa er þarna um að ræða hæft og gott leikskólafólk en þær aðstæður sem þeim yrði boðið upp á væru slítandi og erfiðar. Ekki síst af því að með þessu útspili sínu er SÍS í raun að stilla þeim upp gagnvart leikskólakennurum, fólki sem vinnur við hlið þeirra á hverjum degi. Þeir eru orðnir að peðum í refskák SÍS. Þetta er lúaleg taktík.

En auðvitað áttum við leikskólakennarar að búast við þessu. Það bendir allt til þess að af verkfalli verði og nú ætla pólitíkusarnir í SÍS að reyna að snúa almenningsálitinu gegn okkur. Það gera þeir með því að reyna að láta líta út fyrir að löglegt sé að samstarfsfólk okkar sem ekki er í FL gangi í okkar störf en að við viljum koma í veg fyrir þetta. Þannig reyna þeir að gera okkur ábyrg fyrir vandræðunum sem verkfallið mun skapa fyrir fjölskyldurnar. Það gera þeir með því að segja kröfur okkar óraunhæfar og að við séum frek, þó að við séum í raun bara að biðja um leiðréttingu vegna þess að öfugt við viðmiðunarstéttir þá frusum við inni með samning sem rann út 2008. Það gera þeir með því að reyna að rugla umræðuna með leikfimisæfingum með tölur.

Við getum búist við fleiri ögrunum. Við getum búist við ústpilum sem eiga að reita okkur til reiði og fá okkur til að gera eða segja eitthvað sem gæti snúið almenningsálitinu gegn okkur. Við getum búist við því að þeir mæti á fundi með báðar hendur tómar en fullyrði svo að það sé ekki hægt að tala við okkur vegna óbilgirni okkar.  Við getum búist við því að þeir reyni að svæla okkur út með því að láta verkfallið dragast á langinn. Og við getum búist við því að þeir fari að biðla til löggjafans um að setja á okkur lög þegar líður á verkfall.

En munum þetta: þeir eru pólitíkusar. Þeir munu aldrei þurfa að bera neina ábyrgð á sinni taktík. Við þurfum að standa á okkar gagnvart samstarfsfólki okkar, foreldrum og börnum. Við skulum halda okkar einföldu og eðlilegu kröfum á lofti og svara því sem svara þarf yfirvegað og með rökum. Leyfum pólitíkusunum að spinna á rokkunum sínum.