SÍS í skrýtum leik

Enn er deilt um hvort að leiðbeinendur megi ganga í störf leikskólakennara í yfirvofandi verkfalli. Þetta er furðuleg deila, svo furðuleg að ég er ekki ennþá viss um að SÍS ætli raunverulega að láta á þetta reyna. Mig grunar að þetta sé fyrst og fremst taktík, að takmarkið sé að gera leikskólakennara að vonda fólkinu sem stendur í vegi fyrir því að leikskólar geti – löglega – tekið við börnum þrátt fyrir verkfall. Leikskólakennarar versus fjölskyldurnar.

En þetta er fáránleg pæling. Hverjum dettur í hug að þegar fagstétt leggur niður vinnu geti vinnuveitandinn leyst málið með því að láta ófaglærða einfaldlega ganga í störfin? Sér einhver fyrir sér að ef að sjúkraliðar færu í verkfall gætu ófaglærðir starfsmenn, eins og finnast á fjölmörgum hjúkrunarstofnunum, einfaldlega leyst þá af á meðan? Svona í alvöru?

Framkoma SÍS er pólitíkusunum sem þar ráða ríkjum ekki til framdráttar.

3 replies on “SÍS í skrýtum leik”

 1. Ég er nú búin að starfa á leikskóla,sem „leiðbeinandi“ í 11 ár.
  Mér finnst það svolítið gróft að segja að við séum ekki hæf(við ófaglærðu) að hugsa um börnin þegar „faglært“ starsólk er ekki á staðnum.Hef gert það í fjölda ára og get ekki séð að börnin hafi haft verra af.Að sjálfsögðu styð ég leikskólakennara í baráttu sinni,heilshugar og þeir eiga sannarlega skilið að fá borgað samkvæmt menntun,en mér mislíkar hvernig litið er á „ófaglegt“ starfsfólk,eins og við erum kölluð.Við sinnum ekkert minna litlu englunum heldur en „faglærðu“.Meira ef eitthvað er,í leikskólanum sem ég starfa eru miklu fleiri leiðbeinendur,en leikskólakennarar.
  Þannig að ég lít á þetta sem lítilsvirðingu við okkur,sem ekki höfum lagt á okkur að læra leikskólakennarann,heldur verið að ala upp börnin meðan að aðrir eru að læra að gera það sem við erum að gera alla daga! ég hef margoft tekið að mér deildarstjórn,vegna þess að ekki fékkst lært starfsfólk í stöðuna.VIÐ erum undirstoðir leikskólanna! Einnig finnst mér ekki hægt að líkja okkar starfsgrein við sjúkraliða,hef reyndar líka gengið í það starf líka á Kópavogshæli að sinna fötluðum börnum.

 2. Það er engin van- eða lítilsvirðing við ófaglært starfsfólk leikskóla í þessari grein Ásta. Engin. Og hvergi segi ég að ófaglært starfsfólk sé ekki hæft.

  Ég er heldur ekki að líkja ykkur við sjúkraliða, það er misskilningur.

  Má ég í mestu vinsemd biðja þig um að lesa greinina aftur. Mér sýnist þú ekki alveg hafa náð því sem ég er að segja og mér sárnar að þú gerir mér upp van- og lítilsvirðingu í garð leiðbeinenda og ýjir að því að ég telji þá ekki hæfa.

  Þessi grein, og umræðan almennt um hvort hægt sé að hafa leikskóla opna í verkfallinu, snýst um hvað sé löglegt og siðferðislega réttlátt að gera. Hún snýst ekki um hæfni leikskólakennara eða leiðbeinenda.

Comments are closed.