Langt svar við leiðinlegri spurningu um leikskólakennara

Spurt hefur verið: af hverju fórstu í þetta nám vitandi það að launin væru svona léleg?

Svarað er nú: af því að mér fannst starfið áhugavert, námið spennandi og fagheimurinn fullur af skemmtilegum pælingum sem eru í sífelldri þróun. Já og vegna þess að mér finnst gaman að umgangast og að vinna með börnum. Og það gleymdist alveg að segja mér að lág laun væru náttúrulögmál og að þegar ég hóf nám hafi ég fyrirgert rétti mínum til þess að krefjast hærri launa en þeirra sem voru í boði á þeim tíma.

Ég lít ekki svo á, og vil helst ekki að þið gerið það heldur, að ég hafi verði að fórna mér af einhverri góðmennsku. Ég hef einfaldlega brennandi áhuga á þessu starfi og þessum fræðum. Með því fylgir auðvitað að ég vil gera mitt til þess að veita þeim börnum sem ég kynnist í starfinu þá menntun, vinskap og umhyggju sem ég get veitt þeim.

Starfið er gríðarlega gefandi. Það eru kannski launin fyrir „góðmennskuna“. En starfið er líka gríðarlega krefjandi og getur jafnvel á stundum verið slítandi, andlega og líkamlega. Mér finnst ég ekki vera frekur eða furðulegur fyrir að vilja að vinnuveitandi minn greiði mér laun í samræmi við það sem fólk í viðmiðunarstéttum eins og grunnskólakennarar (ég sat nota bena þónokkra áfanga með grunnskólakennurum í mínu námi) fær fyrir sína góðu vinnu.