Reykjavíkurborg hefur ákveðið að veita Kristskirkjunni ekki fyrirhugaðan byggingarstyrk vegna skoðana forstöðumanns kirkjunnar á hommum og lesbíum eins og lesa má hér. Mér finnst tvennt athugavert við þessa ákvörðun borgarinnar:
1. Af hverju er Kristskirkjunni refsað sérstaklega fyrir þá skoðun að samkynhneigð sé af hinu slæma og að samkynhneigðir ættu ekki að njóta sömu réttinda og aðrir? Er þetta ekki nokkurn vegin afstaða meira og minna allra trúfélaga á Íslandi? Er t.d. einhver búinn að gleyma áralangri baráttu ríkiskirkjunnar gegn réttindum samkynhneigðra? Lýsa eftirfarandi orð Karls Sigurbjörnssonar biskups um hjónabönd samkynhneigðra skoðunum sem eru annars eðlis en þær sem Friðrik Schram hefur lýst?
Ég held að hjónabandið eigi það inni hjá okkur að við allavegana köstum því ekki á sorphauginn alveg án þess að hugsa okkar gang. #
Það væri líklega hægt að fylla marga pistla með tilvitnunum og gömlum fréttum þar sem fordómar gagnvart hommum og lesbíum hafa komið í ljós í íslenskum trúfélögum. Mér finnst alveg vanta rökstuðning fyrir því að það sem forstöðumaður Kristskirkjunnar boðar sé verra en það sem gengur og gerist í trúarbransanum á Íslandi.
2. Eins röng, heimskuleg, fordómafull og asnaleg mér finnst skoðun Friðriks á samkynhneigðum vera þá á hann rétt á henni. Það er ekki bannað að hafa rangar, heimskulegar fordómafullar og asnalegar skoðanir, sem betur fer.
En hið opinbera veitir trúfélögum styrki. Í mín eyru hljómar það einkennilega að hið opinbera taki upp á því að neita trúfélögum sem hafa idjótískar skoðanir, skoðanir sem eru nota bene að miklu leiti dregnar af trúnni sem félagið er myndað utan um, um styrki úr opinberum sjóðum. Ef trúfélög eiga að fá opinbera styrki þá finnst mér eiginlega ekki hægt að mismuna þeim eftir trúarskoðunum, sama hversu slæmar þær skoðanir eru. Svo lengi sem ekki er um að ræða eitthvað ólöglegt þ.e.
En auðvitað finnst mér fyrst og fremst að hið opinbera eigi bara ekki að styrkja trúfélög yfirhöfuð.