Jarre, Grier og táningarnir

Nei, ég hef ekki hugmynd um það hverjir Jerome Jarre og Nash Grier eru. Né langar mig sérstaklega að vita það. Þeir vekja ekki áhuga minn. Samt tókst þeim að fylla Smáralindina af táningum núna um daginn. Flott hjá þeim.

Fyndnustu viðbrögðin í þessu öllu saman finnst mér þó ekki koma frá æstum krökkunum í verslunarmiðstöðinni heldur jafnöldrum mínum á Facebook. Djöfull erum við að verða gömul. Það að horfa á fólk um og yfir þrítugt fussa og sveia yfir ungdómnum og skilja ekkert í því hvernig einhverjir gaurar sem það veit ekki hverjir eru geta valdið svona viðbrögðum er ekkert minna er stórkostlega fyndið.

Auðvitað eru þessir gaurar ekki hluti af okkar menningarheimi (flestra okkar allavega). Það væri hreinlega stórfurðulegt ef svo væri. Við erum rétt rúmlega tveimur áratugum eldri en flestir þeir sem fylktu liði í Smáralind. Menningarheimur unglinga (eða menningarheimar ætti þetta kannski frekar að vera) skarast ekki við menningarheim okkar gamla fólksins nema að takmörkuðu leyti. Sem betur fer, það tilheyrir einfaldlega þessum aldri að vera öðruvísi en þeir sem eldri eru.

Þá finnst mér líka fyndið að fólk sé að fussa yfir því að þarna hafi orðið öngþveiti. Eins og að það sé eitthvað skrýtið við það að krakkarnir hafi viljað sjá þessa stráka, eða jafnvel komast á Vine myndband hjá þeim. Svo er nú ekki eins og það þurfi mikið til þess að öngþveiti skapist hér á landi. Eru nokkuð það mörg ár síðan einhver handleggsbrotnaði þegar fólk þusti inn í opnun einhverrar raftækjabúðar?