Má ljúga eftir landsfund?

Í ályktunum seinasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins segir eftirfarandi:

“ Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið.

Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Nú er alveg hægt að skilja þetta þannig að hætta eigi viðræðum án þess að greiða um það sérstaklega atkvæði. Reyndar finnst mér það réttur skilningur. Og fjölmargir Sjálfstæðismenn sem styðja ákvörðun um viðræðuslit núna benda á að þetta sé nú bara það sem landsfundur sagði.

En bíðum nú við, hver voru skilaboð flokksins til kjósenda fyrir kosningar?

Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan –
þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðargreiðslu á kjörtímabilinu.

Þessi tilvitnuðu orð eru úr stefnuskrá flokksins fyrir síðustu kosningar. Sem fyrrverandi meðlimur í flokknum geri ég mér grein fyrir því að landsfundur er æðsta vald flokksins. Það hafa margir bent á í umræðunni seinustu daga, að þingflokkurinn sé einfaldlega að hlýða landsfundi og það sem þar komi fram gildi.

En þeir sem eru á því að það skipti engu hvað sagt er fyrir kosningar ef hægt sé að skilja landsfundarályktanir á annan hátt eru þá í leiðinni að segja að það sé bara í lagi að ljúga í kosningabaráttu. Og að kjósendur geti bara sjálfum sér um kennt að hafa ekki lesið landsfundarályktanir.

Alveg óháð því hvar fólk stendur varðandi aðild að ESB þá hljótum við að vera sammála um að þetta eru ömurleg vinnurbrögð hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og fáránleg röksemdarfærsla hjá stuðningsmönnum þessara vinnubragða.