Stundum finnst mér voðalega gott að setja niður blogg sem eru bara nokkrir frekar samhengislausir punktar sem verða kannski seinna að alvöru bloggfærslum.
- Stjórnunarfræðin sem ég hef lært í MA náminu eru áhugaverð. Eitt af því sem mér finnst áhugaverðast er að dágóður partur af þessu er eitthvað sem mér finnst í rauninni common sens. Það er t.d. nokkuð augljóst að til þess að breytingar gangi vel þarf starfsfólkið að vera með í för. Það þarf að sjá tilganginn með breytingunni og sjá kostina fram yfir gamla dótið. En það sem er svo ennþá áhugaverðara er að maður er alltaf að heyra af stjórnendum sem virðast ekki átta sig á hlutunum sem manni sjálfum finnst einfaldastir
- Ég var að undirbúa mig fyrir foreldraviðtöl í leikskólanum í dag og skrifa niður nokkur atriði um börnin í hópnum mínum. Ég áttaði mig þá á því hvað ég er í rauninni með frábærum börnum á hverjum degi. Það er gaman.
- Fred Phelps er dáinn. Það er ljótt að segja það en só bí itt: Farið hefur fé betra. Hann stóð fyrir hatur og fordóma og gerði virkilega ógeðslega hluti.
- Ég hef staðið mig að því undanfarið að verða fyrir smá vonbrigðum þegar stórir sjónvarpsviðburðir eiga sér stað og ég er ekki í aðstöðu til að hanga á twitter. Seinni undanúrslitakvöldið og svo úrslitakvöldið í Söngvakeppninni um daginn er tvö góð dæmi. Það er fátt skemmtilegra en að gera smá grín á twitter þegar svona er í gangi.
- Lokarannsóknin mín heldur áfram að formast í hausnum á mér, með aðstoð frábærra leiðbeinenda. Ég held að þetta verði ákaflega áhugaverð vinna.
- Ég tók þátt í að dæma páskabjórana fyrir ákveðin fjölmiðil í gær (kemur í ljós um helgina). Það var mjög skemmtilegt. Ég rakst enn og aftur á það hvað smekkur fólks er ólíkur þegar kemur að bjór. Þarna var fólk með ólíkan bakgrunn og þekkingu á bjór og ég er nokkuð viss um að niðurstöðurnar hefðu orðið aðrar ef eintómir bjórnördar hefðu tekið þátt. En þá hefði væntanlega ekki verið dæmt á sömu forsendum heldur og almennir neytendur kannski ekki mikið grætt á niðurstöðunum.
- Pústið í bílnum er farið aftur. Sennilega það sama og síðast, þ.e. að rörið hefur farið af alveg við hljóðkútinn. Hjörtur vinur ætla að kíkja á þetta með mér. Það er gott að eiga einn Hjört.
- Í staðinn ætla ég að taka myndir í brúðkaupsveislunni hans og Valdísar í sumar. Nú er ég kominn með almennilegt flass á stóru vélina og ætla að bæta við mig diffuser fyrir veisluna. Þá verð ég held ég bara góður. Gríp litla krílið með líka.
- Eva bauð mér á Ali Baba eftir bjórdómgæsluna í gær. Það er fínn matur. Svona staðir eru á hverju horni í Gautaborg þar sem ég kíkti til títtnefnds Hjartar í heimsókn 2012. Mér finnst það mjög sjarmerandi að geta gengið inn á svona litla og ágæta matsölustaði í íbúðarhverfum, þetta er eitthvað sem vantar mikið til hér. Ég bý sjálfur reyndar í næstu götu fyrir ofan Nýbýlaveg þannig að ég get svosem ekki kvartað sjálfur en Dominos og American Style er kannski ekki alveg sama dótið.
- Á morgun er föstudagur. Einhvern veginn er maður ekki alveg jafn spenntur fyrir helgunum þegar maður veit að þær fara meira og minna í lærdóm. En það stefnir reyndar í vinahitting og spil líka. Það er eitthvað til að hlakka til.