Kennarar á móti breytingum

Algengt viðkvæði í umræðunni um styttingu framhaldsskólans er að kennarar séu bara alltaf á móti öllum breytingum. Að þeir séu hrikalega íhaldssöm stétt sem stendur vörð um staðnað menntakerfi sem ekkert hafi breyst í áraraðir. Ég held að þetta sé tóm vitleysa.

Andstaðan við „tillögurnar“ sem lagðar hafa verið fram núna hafa að mínu viti ekkert með það að gera að kennarar vilji heilt yfir ekki endurskoða námstíma til stúdentsprófs. Tvö atriði skipta þar miklu meira máli. Annars vegar það að það er ekkert fast í hendi varðandi þessar tillögur. Ráðherra hefur slegið úr og í varðandi það hvort að iðnnámið eigi að fylgja með. Hann talaði líka um það fyrr á kjörtímabilinu að skoða þyrfti skólakerfið heildstætt, en ekki endilega að einblína bara á framhaldsskólann. Og það er alveg augljóst að áður en svona nokkuð er ákveðið er gáfulegra að gera mat á skólakerfinu og sjá hverju þarf og er hægt að breyta. Allt þetta hafa kennarar bent á.

Hitt atriðið er svo það að sú taktík að henda styttingunni inn á samningsborðið örfáum klukkutímum fyrir verkfall, eftir langar viðræður, er einfaldlega fáránlegt. Og er einhver í alvörunni hissa á því að stétt sé ekki alveg tilbúin til þess að fá kjarahækkun útfrá þeim forsendum að hækkunin verði til með því að segja upp hluta hennar?

En það er þetta með það að kennarar séu alltaf á móti breytingum. Þeir sem halda þessu fram geta ekki haft mikla þekkingu á skólakerfinu á Íslandi og þeim breytingum sem þar hafa átt sér stað.

Kennaramenntunin sjálf tók miklum breytingum fyrir örfáum árum síðan. Nýjar aðalnámskrár eru samþykktar með nokkra ára millibili. Og ef við skoðum bara framhaldsskólann þá hefur verið hringlað fram og til baka með brautafyrirkomulag og einingakerfið á undanförnum árum.

Þegar ég byrjaði í framhaldsskóla voru 4-5 brautir í boði í mörgum skólum. Á meðan ég var ennþá í námi var framboðið takmarkað við þrjár brautir. Fyrir nokkrum árum var tekið upp nýtt einingakerfi sem í rauninni gerði reiknilíkanið sem skólarnir notast við til þess að reikna út fjárhag sinn ónýtt. Það á enn eftir að bæta úr því (og hefði kannski verið gáfulegra og ræða það á undan þeim breytingum sem mönnum langar að gera).

Nú og svo er nú ekkert svo langt síðan að skólum var veitt leyfi til þess að ákveða sjálfir hver almennt lengd námstíma til stúdentsprófs er. Tillögur Illuga snúast því í raun um aukna miðstýringu í menntakerfinu.

Ég er algjörlega á því að það þurfi að gera breytingar á íslensku menntakerfi. Reyndar er ég á því að öll menntakerfi eigi alltaf að vera að leita að leiðum til þess að þróa sig áfram. Mér er hinsvegar ekki sama hvaða breytingar eru gerðar og á hvaða forsendum.

Og það að kennarar hafi staðið í vegi fyrir öllum breytingum á íslensku menntakerfi í áratugi er tóm della. Þvert á móti má jafnvel segja að stundum hefðu þeir einmitt betur komið í veg fyrir stefnulaust hringl með ákveðin skólastig af höndum yfirvalda.