Þessa dagana stendur yfir 6. aðalþing Kennarasambands Íslands. Eins og venjan er á svona þingum komu pólitíkusar í heimsókn. Þær heimsóknir voru svolítið spes.
Illugi Gunnarsson er menntamálaráðherra. Það var auðvitað fullkomlega eðlilegt að hann kæmi á KÍ þing og héldi erindi. Það sem var ekki eðlilegt er að hann lét breyta fyrir sig dagskránni þannig að hann talaði fyrstur og rauk svo út. Hann þurfti víst að mæla fyrir málum á þingi. Þetta þýddi það að hefðbundin dagskrá, sem felst í því að formaður KÍ setji þingið eftir tónlistaratriði frá tónlistarnemendum og gestir tali svo á eftir, var rofin. Þetta þýddi líka að Illugi kom sér hjá því að sitja undir góðri og kjarnyrtri opnunarræðu Þórðar Hjaltested, sem menntamálaráðherra hefði haft gott af að hlýða á.
Þingfulltrúar voru ekki mjög glaðir með ráðherrann sinn. Og gleðin jókst ekki beinlínis þegar í ljós kom að málefnin sem hann þurfti að standa fyrir á þingi voru hlutir eins og örnefni. Já, örnefni.
Ræða Illuga var svosem ekkert merkileg. Það var ræða Halldórs Halldórssonar ekki heldur. Halldór talaði líkt og Illugi um mikilvægi sátta og samstöðu. Að við þyrfum að vinna saman að því að bæta menntakerfið okkar. Sem er auðvitað alveg rétt.
Þess vegna var alveg stórmerkilegt að sjá tóninn í auglýsingu Sjálfstæðismanna í Reykjavík sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Við hliðina á stórri mynd af Halldóri var texti þar sem það var m.a. fullyrt að skólakerfið hafði brugðist börnunum okkar en þrátt fyrir það fengi það að hjakka í sama farinu.
Fyrr má nú vera sáttatónninn.
Ég held að yfirgnæfandi meirihluti kennara átti sig á því að skólaþróun er bæði jákvæð og nauðsynleg öllum skólakerfum. Og þó að eflaust mættu einhverjir kennarar vera jákvæðari gagnvart breytingum þá held ég í alvörunni að það muni ekki standa á okkur að taka þátt í þeim og, eins og eðlilegast væri, að vera leiðandi þegar kemur að þeim.
Það verður hinsvegar að viðurkennast að viljinn til þess að standa í breytingum sem ákveðnar eru að ofan minnkar þegar komið er fram við mann á þann hátt sem stjórnmálamenn bæði í sveit og ríki hafa gert. Maður er einhvern veginn ekki til í samstarf við menn sem vilja vera vinir manns einn daginn en segja að maður valdi ekki starfinu sínu þann næsta.