Nú get ég loksins breytt headernum á síðunni minni. Ég er ekki lengur skeggjaður leikskólakennaranemi heldur skeggjaður leikskólakennari. Útskrifaðist um helgina með 1. einkunn (7.88) frá Háskólanum á Akureyri. Ég get mælt heilshugar með því að fólk stundi fjarnám frá HA. Viðmót kennara og starfsfólks eru til fyrirmyndar og allt hefur staðist eins og stafur á bók varðandi námið.
Varðandi þetta með að ég skilgreini mig hér í header sem skeggjaðan leikskólakennara. Ég er ekkert rosalega upptekinn af því að ég sé karlleikskólakennari. Allavega ekki miðað við marga sem ég ræði við um þetta. Jújú, við erum fáir og jú auðvitað er gott og í raun nauðsynlegt að fólk af báðum kynjum starfi á leikskólum. Ég var hins vegar að mennta mig sem leikskólakennari, ekki sérstaklega sem karlleikskólakennari.
Ég var svo heppinn (eða sniðugur ef út í það er farið) að geta fléttað eitt af mínum helstu áhugamálum við námið í lokaverkefninu mínu. Verkefnið snerist um ljósmyndun í leikskólum og var tvíþætt. Annars vegar var um að ræða fræðilega ritgerð og hins vegar gerði ég kennsluvef. Ritgerðin er ekki enn komin inn á Skemmuna en kennsluvefinn getið þið skoðað hér. Ætlunin er að halda honum við og hyggst ég færa hann yfir á sitt eigið vefsvæði á næstu mánuðum. Að öllum líkindum fylgir þá bloggið mitt með á sama stað.
Það sem tekur við hjá mér er að ég held áfram að vinna á leikskólanum Fögrubrekku. Í haust mun ég taka við hóp af börnum sem flest eru fædd snemma árið 2010. Það er mjög spennandi verkefni. Fyrirkomulagið á leikskólanum Fögrubrekku er þannig að við hópstjórarnir fylgjum barnahópunum upp allan skólaferil þeirra þannig að ég mun ef allt fer að óskum eyða næstu fjórum til fimm árum með þessum börnum sem ég mun kynnast í haust.
Ég ætla einnig í framhaldsnám en ætla að taka mér alveg frí úr skóla fram að áramótum allavega til að ákveða hvaða braut ég feta í áframhaldandi námi.
Svo er ég líka kannski að fara í verkfall í ágúst en ég ákvað að sleppa því að fjalla um kjaramál í þessum pistli. Þau eru svo leiðinleg. En ég er bara glaður og ánægður nýútskrifaður leikskólakennari næstu dagana.