Það tók berserki íslenskrar stjórnmálaumræðu ekki langan tíma að átta sig á mikilvægasta atriðinu varðandi ásetning og ástæður Anders Breivik (ABB) fyrir voðaverkum sínum á föstudaginn. Nú skal rifist um hvort að maðurinn sé hægra megin í pólitík, eins og hann sjálfur heldur fram, eða vinstra megin. Á bloggum, á Facebook og í rotþróm ræða menn nú þetta lykilatriði.
Aðal röksemdarfærsla þeirra sem mótmæla því að ABB hafi verið hægrimaður virðist vera að skilgreina nasisma og nýnasisma sem vinstri stefnur. Ég nenni þeirri umræðu ekki, hún er jafn leiðinleg og hún er tilgangslaus í þessu tilfelli því að ABB var einfaldlega ekki nasisti eða nýnasisti. Ég hef hvergi séð fjallað um hvaða skoðanir hann hafði í efnahagsmálum en sá málstaður sem hann vildi koma á framfæri með voðaverkunum er andstaða við fjölmenningarstefnuna sem hann telur að sé að spilla hreinni menningu og samfélögum hér á vesturlöndum með sífelldum innflutning á múslimum. Grunninn að þessari fjölmenningarstefnu taldi ABB sig finna í marxisma/sósíalisma sem gripið hefði verið til til að hefta útbreiðslu fasisma.
Hvar á hinu pólitíska litrófi hefur nú fólk með svipaðar skoðanir, einhvers konar menningarlega íhaldssemi, verið staðsett hingað til? Er það ekki frekar til hægri? Og erum við ekki vön því að þeir sem að fyrirlíta vinstri stefnu séu frekar flokkaðir til hægri í pólitík?
Ég átta mig ekki almennilega á því af hverju hægri menn, og svo að það sé nú á hreinu þá er ég sjálfur hægra megin við miðju í pólítik, hér á landi bregðast sumir svona illa við því að bent sé á þá staðreynd að ABB var hægri maður í pólitík. Segir það eitthvað um mig og mínar skoðanir að þær séu taldar vera sömu megin við einhvern ímyndaðan miðpunkt og skoðanir þessa hryðjuverkamanns? Jafnvel þó að þær gætu ekki verið ólíkari? Nei, auðvitað ekki. Og þess vegna gæti mér ekki verið meira sama þó að mogginn, MOGGINN FOR KRÆING ÁT LÁD!, bendi á að þarna hafi verið hægrimaður á ferðinni. Auðvitað eru til öfgaskoðanir á mínum væng stjórnmálanna, er einhver svo barnalegur að halda að svo sé ekki?
En það er samt eitthvað svo ótrúlega hallærislegt við þessa umræðu, og þá meina ég frá báðum hliðum. Í stað þess að einbeita sér að hatrinu sem vellur út úr manifestói ABB, sem að aðgerðir hans snerust um að koma á framfæri, og velta því fyrir sér hvernig hægt sé að tækla þessa öfga sem og aðra er verið að reyna að færa til merkimiða.
Á meðan að næsta sprengja telur niður, sprengja sem gæti jafnvel sprungið á Íslandi, standa gamlir (og ungir) útverðir kalda stríðsins í hring og rífast um hvort að miðinn á sprengjunni sé blár eða rauður.