Í síðustu viku skrifaði ég pistil um þá ákvörðun Reykjarvíkurborgar að veita Kristskirkjunni ekki styrk á grundvelli skoðana forstöðumanns Kristskirkjunnar, skoðana sem eru fráleitt einskorðaðar við þetta eina trúfélag. Þær skoðanir sem ég setti fram í þeim pistli standa ennþá þrátt fyrir að Friðrik Schram, forstöðumaðurinn umræddi, hafi gert sitt besta til þess að ljá stuðningsmönnum borgarinnar í þessu máli öll vopn í hendurnar seinustu daga.
Friðrik skrifar t.d. grein í Fréttablaðið í dag. Í greininni tyggur hann upp sömu þvæluna og Gunnar í Krossinum og fleiri hafa gert í gegnum tíðina þegar kemur að samkynhneigð, þ.e. að það eigi að hatast við syndina en ekki syndarann og að það sé í lagi að vera samkynhneigður svo lengi sem kynlíf sé ekki stundað.
Þetta er ákaflega heimskuleg mantra og gjörsamlega úr takti við raunveruleikann. Þetta er eins og fótboltaþjálfari sem heldur því fram að það sé í fínu lagi að vera örfættur svo lengi sem fólk er ekki að sparka með vinstri fæti.
Það að hata það sem manneskja er er aldrei falleg skoðun, sama í hvaða búning hatrið er klætt.
Fyrir utan það þá koma þessir kónar alltaf upp um sig. Gunnar í Krossinum átti t.d. (og á kannski ennþá) erfitt með að nota önnur orð en kynvilla og kynvillingar þegar hann ræddi um samkynhneigða. Menn sem nota viljandi orð sem þeir vita að særa og meiða, sýna þeir viðkomandi virðingu og ást?
————–
Á heimasíðu Kristskirkju er að finna kostulega grein sem Friðrik hefur þýtt sjálfur um eiginmenn eigi að viðhalda heilbrigðu og Guði þóknanlegu kynlífi. (Finnst einhverjum öðrum en mér áhugi Guðs og Friðriks á kynlífi annara krípi btw? Þetta eru ekki kónar sem ég vildi hafa á rúmstokknum). Greinin er eftir engan annan en Ted Haggard.
Ted Haggard er auðvitað sérfræðingur í Guði þóknanlegu kynlífi. Og reyndar líka kynlífi sem Guð fílar minna. Um árabil stundaði hann nefnilega það fyrra með konunni sinni og það seinna með hinum og þessum karlmönnum, þ.á.m. fylgarþjónustupiltum sem hann fékk til að mæta með amfetamín, svona til að framlengja nú syndina aðeins.
Þeir eru ágætir saman félagarnir í siðaboðskapnum, Schram og Haggard.