Við hjónin lágum uppi í rúmi yfir jólabókunum milli jóla og nýárs. Eða, ég lá með jólabók (Sendiherrann eftir Braga Ólafs, skyldirðu spyrja) og frúin var að ljúka reyfaranum sem koma þurfti frá áður en byrjað var á jólabókaflóðinu: Morðinu í Rockville, eftir (og um) Stellu Blómkvist. Og einhvernveginn svo æxlaðist að við fórum enn og aftur (eins og svo margir svo oft) að velta þessari elúsífu Stellu fyrir okkur (þ.e. höfundinum, ekki söguhetjunni) og ég deildi með henni slúðrinu sem ég var þá nýbúinn að rekast á í Fréttablaðinu og þótti hafa ýmislegt með sér: að Stella Blómkvist væri Gerður Kristný, skáldkona og spúsa Kristjáns B. Jónassonar útgáfustjóra Eddu útgáfu (ögn betrumbætt útgáfa af þessari kenningu og þrjár til viðbótar eru reifaðar hjá þessu ágæta skáldi).
Frúnni fannst þetta ekki líklegt. Setti helst fyrir sig það sama og truflaði hana þegar Auður Haralds var orðuð grimmt við embættið: Þessar bækur væru svo augljóslega skrifaðar af karlmanni.
Ýmsir fleiri hafa verið nefndir í gegnum tíðina. Við renndum yfir helstu nöfn sem liggja undir grun en hún gaf lítið fyrir þau öll. „Svo,“ spurði ég, „hver heldur þú að sé Stella Blómkvist?“ Og þá datt uppúr frúnni nafn sem aldrei hefur verið nefnt í þessu samhengi en sem er í raun svo augljóst þegar bent er á það. Þetta gefur augaleið :
Stella Blómkvist er Þorgrímur Þráinsson.
Lykillinn að lausninni er að spyrja réttu spurningarinnar: Hvers vegna í ósköpunum finnur nokkur maður sig knúinn til að gefa út undir dulnefni nú til dags? Hverjum væri ekki sama?
Hverjum indeed.
Um miðjan tíunda áratug síðustu aldar var Þorgrímur Þráinsson mikilvirkur höfundur barna- og unglingabóka, hafði gefið út a.m.k. eina slíka á ári hverju frá hinni kynngimögnuðu frumraun Með fiðring í tánum árið 1989. Hann langaði til að reyna sig við eitthvað annað sem reyndi á hann sem höfund á nýja vegu og skóp því hinn groddalega kvenspæjara Stellu Blómkvist og ævintýri hennar í tengslum við Morðið í stjórnarráðinu.
En nú voru góð ráð dýr. Hvernig getur virtur og mikilsmetinn barnabókahöfundur, hetja hins hreina lífernis og nýráðinn framkvæmdastjóri Tóbaksvarnarráðs verið þekktur fyrir reyfarakenndar sorabókmenntir um keðjureykjandi lesbíu sem lofsyngur sitt nána samband við Jack Daniels í öðrum hverjum kafla? Hann verður að fara huldu höfði, það gefur auga leið.
Þessu til frekari stuðnings: Eftir að fyrsta bókin um Stellu Blómkvist kom út (1997) fara að skjóta upp kollinum gloppur í útgáfuferli þessa áður alltaðþví ofvirka höfundar, Þorgríms Þráinssonar: 1999 – ekkert. 2001 – ekkert. 2002 – ekkert. 2005 – ekkert. 2006 – ekkert. Síðustu átta árin hafa liðið fimm jól án þess að múkk hafi heyrst frá hinu forna stórveldi barna- og unglingabókmenntanna.
En hvað var blessunin hún Stella að gera á meðan? Jú, hún gaf út Morðið í sjónvarpinu (2000). Morðið í hæstarétti (2001). Morðið í alþingishúsinu (2002). Morðið í Drekkingarhyl (2005). Morðið í Rockville (2006). Takið eftir ártölunum og berið saman við eyðurnar hér að ofan (það skeikar reyndar árinu á þeirri fyrstu – e.t.v. þurfti að ritstýra Morðinu í sjónvarpinu þannig að fresta þurfti útgáfu um eitt ár; annað eins hefur gerst á betri bæjum). Merkilegt hvernig einhvernveginn hittist oftar en ekki svo á að þegar Stella Blómkvist birtist á sjónarsviðinu er Þorgrímur Þráinsson fjarri góðu gamni.
Skyldi Þorgrímur Þráinsson vera Stellu Blómkvist það sem Clark Kent er ofurmenninu? William Felt Kokgleypi? Óli frændi jólasveininum?
Það skyldi þó ekki vera?