Ég er að hlusta á perluna hans Eiríks Fjalars um nútímastúlkuna Nönnu. Fyndnasta sköpunarverk Ladda fyrir utan kannski Grínverjann. Hafði ekki leitt að því hugann svo áratugum skipti þegar ég áttaði mig á því í gærkveldi að ég misskildi alltaf annað erindið hér í denn:
Ekki er hún uppfull af hroka.
Aldrei hún framar tranar sér.
Hæversk og heldur til boka (svo).
Helvíti viðkvæm hún er.
Í þriðju línunni hélt ég alltaf að hann Eiríkur syngi „Hæversk og heldur til poka.“ Þetta var í þá daga þegar ég lifði enn í mínu verndaða málumhverfi og hafði ekki náð því í þaula hvernig slefmælgin virkaði hjá ykkur málsóðunum hérna fyrir sunnan. Ég velti því dálítið fyrir mér á sínum tíma afhverju stúlkan væri að halda til þessum poka. Og var helst á því að hún væri bara svona rosalega hæversk stúlkan: þetta væri ælupoki sem henni fyndist nauðsynlegt að hafa við höndina fyrir þá samferðamenn hennar sem væru búnir að fá nóg af samvistunum.