Mánaðarskipt færslusafn fyrir: janúar 2008

Tímarnir okkar / Tímarnir afa og ömmu

Hjaddna…

…sko…

…ekki það að mér finnist þeir ekki fínir og allt það…

…en hafiði heyrt nýja lagið með Sprengjuhöllinni? Þetta úr leikritinu fyrir norðan?

Ég var allavega að heyra það áðan í fyrsta skipti. Það var í útvarpinu sko. Þessu sem maður þarf að stilla á bylgjulengdina.

Alltaf svo fastur á tuttugustu öldinni.

Allavega.

Strax í fyrsta versi fór það að naga mig: Hvar hef ég heyrt þetta áður?

(Því ég hafði heyrt þetta áður. Og það ekki með Sprengjuhöllinni. Ég var alveg með það á tæru.)

Í öðru erindinu small það. Gerið svo vel, velkomin til fortíðar:

Dansandi ástardúett og einræður Jagós

Við hjónin fórum í leikhús í gær. Á frumsýningu á Ótelló, Desdemóna og Jagó í Borgarleikhúsinu.

Það var… magnað.

Það eina sem flutt er af þýðingunni hans Helga Hálfdanarsonar eru einræður Jagós (Hilmir Snær Guðnason), en Desdemóna (Elsa G. Björnsdóttir) talar táknmál og Ótelló (Brad Sykes) tjáir sig í dansi. Svo rennur þetta líka saman: við sjáum leikarana dansa og þá heyrandi tala táknmál.

Mér þótti þetta alveg hreint yndisleg sýning (er klisja að tala um sjónræna upplifun?). Ég táraðist undir upphafsatriðinu – nokkuð sem ég man ekki til að hafi komið fyrir mig í leikhúsi síðan ég fór á Ronju ræningjadóttur fyrir margt löngu síðan (les: 2 árum).

Við ætlum að sjá þetta aftur á sunnudagskvöldið kemur. Þá stefni ég á að vera búinn að lesa leikritið fyrir dýpri upplifun (mental note: muna að stoppa á bókasafninu á leiðinni heim á eftir).

Þögnin rofin

Það var þögn. Og svo var hún rofin af hrópandanum í norsku eyðimörkinni.

Hvað skal segja?

Það er alltaf hægt að byrja á að óska gleðilegs nýs árs.

– – –

Ég vorkenni honum Ólafi dálítið. Svona sem manneskju. Ég vorkenni honum næstum jafn mikið fyrir það ámæli sem hann liggur undir og ég vorkenni honum fyrir það að vera leiksoppur spunalækna í sjálfstæðisflokknum. Og jú, líka pínu fyrir að hafa komið sér í þá stöðu sem hann gerði. En ég get ekki að því gert að mér finnst hann hafa komið sér í hana sjálfur.

Einhverjir munu þurfa að telja á sér fingurna áður en yfir lýkur. Einhverjir munu verða aumir um afturendann.

– – –

Annars var konan mín (óflokksbundin húsmóðir úr millistétt) meðal þeirra sem létu í ljósi fyrirlitningu sína á viðburðunum á fimmtudaginn var. Mikið rosalega var ég stoltur af henni.

– – –

Sem minnir mig á: Mér finnst að ætti að leiðrétta augljósar rangfærslur og vinstri slagsíðu í kennslubókum í Íslandssögu. Við ættum að skammast okkar fyrir þá aðför að lýðræðinu sem Jón Sigurðsson og taglhnýtingar hans frömdu á Þjóðfundinum 1851.

Vér-mótmælum-allir hvað. Helvítis skríll og mussuviðrini.

– – –

Ég lét þess getið fyrir þremur mánuðum að ég væri farinn að fá álit á Birni Inga. Það hefur aukist síðan, og hefur aldrei verið meira en nú, eftir að hann hætti í pólitík.

Ég er ekki að grínast. Hann á eftir að ná langt, strákurinn. Og gæti jafnvel átt eftir að gera góða hluti í leiðinni.

– – –

Annars er allt gott að frétta. Við buðum Einari og Siggu í mat á laugardagskvöldið var. Við karlarnir rufum innsiglið á flösku af Scapa-viskíi og fórum langt með helftina af henni.

Jú, og svo má geta þess að ég er loksins búinn að skrá mig úr Þjóðkirkjunni – gerði það degi fyrir fyrsta desember, síðastliðinn.