Þögnin rofin

Það var þögn. Og svo var hún rofin af hrópandanum í norsku eyðimörkinni.

Hvað skal segja?

Það er alltaf hægt að byrja á að óska gleðilegs nýs árs.

– – –

Ég vorkenni honum Ólafi dálítið. Svona sem manneskju. Ég vorkenni honum næstum jafn mikið fyrir það ámæli sem hann liggur undir og ég vorkenni honum fyrir það að vera leiksoppur spunalækna í sjálfstæðisflokknum. Og jú, líka pínu fyrir að hafa komið sér í þá stöðu sem hann gerði. En ég get ekki að því gert að mér finnst hann hafa komið sér í hana sjálfur.

Einhverjir munu þurfa að telja á sér fingurna áður en yfir lýkur. Einhverjir munu verða aumir um afturendann.

– – –

Annars var konan mín (óflokksbundin húsmóðir úr millistétt) meðal þeirra sem létu í ljósi fyrirlitningu sína á viðburðunum á fimmtudaginn var. Mikið rosalega var ég stoltur af henni.

– – –

Sem minnir mig á: Mér finnst að ætti að leiðrétta augljósar rangfærslur og vinstri slagsíðu í kennslubókum í Íslandssögu. Við ættum að skammast okkar fyrir þá aðför að lýðræðinu sem Jón Sigurðsson og taglhnýtingar hans frömdu á Þjóðfundinum 1851.

Vér-mótmælum-allir hvað. Helvítis skríll og mussuviðrini.

– – –

Ég lét þess getið fyrir þremur mánuðum að ég væri farinn að fá álit á Birni Inga. Það hefur aukist síðan, og hefur aldrei verið meira en nú, eftir að hann hætti í pólitík.

Ég er ekki að grínast. Hann á eftir að ná langt, strákurinn. Og gæti jafnvel átt eftir að gera góða hluti í leiðinni.

– – –

Annars er allt gott að frétta. Við buðum Einari og Siggu í mat á laugardagskvöldið var. Við karlarnir rufum innsiglið á flösku af Scapa-viskíi og fórum langt með helftina af henni.

Jú, og svo má geta þess að ég er loksins búinn að skrá mig úr Þjóðkirkjunni – gerði það degi fyrir fyrsta desember, síðastliðinn.

4 replies on “Þögnin rofin”

  1. Skondið að ég var að ræða í síma áðan og voru höfð milli mín og viðmælanda nákvæmlega sömu orð um vorkunn, bara um annan mann og aðra stöðu, þessi dómarastaða og Þorsteinn greyið.

  2. Já akkúrat! Eins og mér fannst sá gjörningur all hinn skítlegasti, þá er erfitt að finnast nokkurn skapaðan hlut um Þorstein Davíðsson, svona persónulega. Nú er ég ekki í hópi mestu aðdáanda föður hans (eins og má finna merki í fyrri skrifum mínum) en strákurinn – hvað er hægt að segja? Hann er kúríósa fyrir það eitt hvað hann passar sig rosalega að vera ekki í sviðsljósinu. Hann er Gísli á Uppsölum Sjálfstæðisflokksins.

  3. Ég gæti sem best trúað því að ekki sé auðvelt að vera sonur Davíðs. Hann hlýtur að hafa heljartak á syninum fyrst sá lætur þetta yfir sig ganga. Ekki það að ég viti neitt um hann, var þó samferða honum einhver ár í menntó, þekktist þá sem Davíðsson (líkt og Karlsson í Búkollu).

Comments are closed.