Það var þögn. Og svo var hún rofin af hrópandanum í norsku eyðimörkinni.
Hvað skal segja?
Það er alltaf hægt að byrja á að óska gleðilegs nýs árs.
– – –
Ég vorkenni honum Ólafi dálítið. Svona sem manneskju. Ég vorkenni honum næstum jafn mikið fyrir það ámæli sem hann liggur undir og ég vorkenni honum fyrir það að vera leiksoppur spunalækna í sjálfstæðisflokknum. Og jú, líka pínu fyrir að hafa komið sér í þá stöðu sem hann gerði. En ég get ekki að því gert að mér finnst hann hafa komið sér í hana sjálfur.
Einhverjir munu þurfa að telja á sér fingurna áður en yfir lýkur. Einhverjir munu verða aumir um afturendann.
– – –
Annars var konan mín (óflokksbundin húsmóðir úr millistétt) meðal þeirra sem létu í ljósi fyrirlitningu sína á viðburðunum á fimmtudaginn var. Mikið rosalega var ég stoltur af henni.
– – –
Sem minnir mig á: Mér finnst að ætti að leiðrétta augljósar rangfærslur og vinstri slagsíðu í kennslubókum í Íslandssögu. Við ættum að skammast okkar fyrir þá aðför að lýðræðinu sem Jón Sigurðsson og taglhnýtingar hans frömdu á Þjóðfundinum 1851.
Vér-mótmælum-allir hvað. Helvítis skríll og mussuviðrini.
– – –
Ég lét þess getið fyrir þremur mánuðum að ég væri farinn að fá álit á Birni Inga. Það hefur aukist síðan, og hefur aldrei verið meira en nú, eftir að hann hætti í pólitík.
Ég er ekki að grínast. Hann á eftir að ná langt, strákurinn. Og gæti jafnvel átt eftir að gera góða hluti í leiðinni.
– – –
Annars er allt gott að frétta. Við buðum Einari og Siggu í mat á laugardagskvöldið var. Við karlarnir rufum innsiglið á flösku af Scapa-viskíi og fórum langt með helftina af henni.
Jú, og svo má geta þess að ég er loksins búinn að skrá mig úr Þjóðkirkjunni – gerði það degi fyrir fyrsta desember, síðastliðinn.