Við hjónin fórum í leikhús í gær. Á frumsýningu á Ótelló, Desdemóna og Jagó í Borgarleikhúsinu.
Það var… magnað.
Það eina sem flutt er af þýðingunni hans Helga Hálfdanarsonar eru einræður Jagós (Hilmir Snær Guðnason), en Desdemóna (Elsa G. Björnsdóttir) talar táknmál og Ótelló (Brad Sykes) tjáir sig í dansi. Svo rennur þetta líka saman: við sjáum leikarana dansa og þá heyrandi tala táknmál.
Mér þótti þetta alveg hreint yndisleg sýning (er klisja að tala um sjónræna upplifun?). Ég táraðist undir upphafsatriðinu – nokkuð sem ég man ekki til að hafi komið fyrir mig í leikhúsi síðan ég fór á Ronju ræningjadóttur fyrir margt löngu síðan (les: 2 árum).
Við ætlum að sjá þetta aftur á sunnudagskvöldið kemur. Þá stefni ég á að vera búinn að lesa leikritið fyrir dýpri upplifun (mental note: muna að stoppa á bókasafninu á leiðinni heim á eftir).