Fótmæli!

Ég vil lýsa yfir ánægju minni með „óeirðirnar“ í gær. Mikið sem mér fannst þær flottar.

Það gerist alltof sjaldan hér á landi að mótmæli nái að komast yfir þann þröskuld sundurþykkju og megnrar óánægju að uppúr sjóði eins og gerðist í gær. Það var undantekningin frá þeirri reglu sem íslensk mótmæli fylgja nánast alltaf.

Í stað reglu: óregla.

Eins og Bubbi sagði: „Hversvegna eru / lögóregla / til að fela / hitt og þetta…“

Húrra. Í alvöru.

Fulltrúar lögóreglu og annarra yfirvalda kepptust við það hvur um annan þveran að koma fram í fjölmiðlum og benda á að mótmælendur væru fyrir löngu „búnir að koma sínum málstað á framfæri“ og því væri sorglegt að sjá svona farið.

En kommon, það er akkúrat málið: Fólk er orðið hundleitt á að sjá málstað sínum „komið á framfæri“ og svo búið, farið bara heim og leggið ykkur. Farið að horfa á Lost eða Desperate Housewives eða eitthvað.

Þarna fór fólk sem var búið að fá nóg af því að „koma málstað sínum á framfæri.“ Það vildi fá viðbrögð! það vildi sjá hreyfingu! það sætti sig ekki við að vera sent heim án þess að það sæi eitthvað gerast! Niður með auðvaldið! Fokk ðö pólís!

Það finnst mér aðdáunarvert. Fyrir því klappa ég:

Klapp. Klapp. Klapp.

En mér finnst þessi málstaður hinsvegar nauðaómerkilegur. Ég ætla rétt að vona að sem fyrst standi einhver upp og segi trukkabílstjórunum að éta bara það sem úti frýs: Það er engin ástæða til að reyna að snúa niður eldsneytisverð á Íslandi með einhverslags ríkisstyrktu handafli. Mér hrýs hugur við því að reglur um hvíldartíma vöruflutningabílstjóra verði rýmkaðar í þá veru sem þeir krefjast.

Þegar ég keyri næst norður til Akureyrar með konuna mína og börnin þrjú innanborðs vil ég geta treyst því að undir stýri á átjánhjóla flutningabílnum sem mætir mér sitji úthvíldur maður.

En uppþotin þóttu mér æðislegar fréttir. Ég vona að sem fyrst verði mótmælt hér á landi aftur af sama eldmóði. Og þá helst einhverju sem manni finnst skipta máli.