Fyndið grín

Fyrir þremur árum gekk Hrefna í gegnum skeið þar sem hún uppdigtaði ýmsar mismunandi útgáfur af tómatur-sem-labbaði-yfir-götu brandaranum. Þær náðu hámarki í metafýsísku meistaraverki sem ég bloggaði um sællar minningar. Svo hætti hún á toppnum.

Það hefur farið minna fyrir þessu skeiði hjá Unu systur hennar. En upp úr eins manns hljóði sagði hún okkur þó brandara um daginn sem jafnast fyllilega á við þennan sem hlekkt var á að ofan:

„Einu sinni voru tveir bananar.

Svo fór einn yfir götuna og þá kom bíll og keyrði yfir hann.

Svo fór hinn yfir götuna og þá kom annar bíll og keyrði yfir hann.“

Pönsjin gerast ekki öllu súbbversífari en þetta.