Íslensk fegurð

(rifjað upp í tilefni af kveðjustund)

Þau voru á leið heim.

Hún hafði ekið manni sínum og dætrum upp til Kaupmannahafnar. Fluginu hafði seinkað, það var enn góður tími til stefnu og hjónin ákváðu fyrir stelpurnar eftir aksturinn að eyða því sem eftir væri af deginum í Tívolí, þegar búið væri að ganga frá öllum málum á flugvellinum.

Þau tóku lest niður í miðborgina.

„Húrra,“ sagði sú eldri, „mig hefur alltaf langað að fara í lest.“

Þau áttu indælan dag, þótt ekki viðraði sem best; það var þungskýjað og gekk yfir með skúrum meðan þau vöfruðu um skemmtigarðinn. Öðru hvoru fann hún eiginmann sinn strjúka henni létt um mjóbak og rass. Kyssa hana á hálsinn. Eldri dóttir þeirra hljóp á milli þeirra leiktækja sem hún hafði aldur til. Sú yngri svaf í regnhlífarkerrunni.

En það sem hún átti aldrei eftir að gleyma átti sér stað áður, á leiðinni frá Kastrup upp til Kaupmannahafnar:

Þau voru öll dálítið slæpt eftir aksturinn og rekistefnuna á flugvellinum. Maður hennar stóð yfir regnhlífarkerrunni með yngri stelpuna frammi við dyrnar. Sjálf sat hún með eldri stelpuna í kjöltu sér úti við gluggann. Stelpan flatti báðar hendur á glerinu og hallaði enninu upp að því.

Í fyrstu sást ekkert út um gluggann nema svört iður jarðar.

Móðan af líkamshita stelpunnar á glerinu.

Svo bjarmaði smám saman fyrir glætu.

„Vá,“ sagði dóttir hennar.

Lestin þaut út úr járnbrautargöngunum og rann eftir niðurgröfnum stokki með hlaðna veggi á báðar hliðar. Það rigndi úr þungbúnum himni.

„Vá,“ sagði dóttir hennar.

Smám saman sléttist úr börmum stokksins og þeir breyttust í grasi grónar hlíðar sem teygðu sig upp í gráan himininn. Rigningartaumar skriðu eftir glerinu. Þar fyrir handan voru myrk ský og gulnað grasið sem þaut hjá undir þeim.

„Vá,“ sagði þriggja ára dóttir hennar, „þetta er svo fallegt.“

Og hún, sem var dálítið niðurdregin (hún taldi sér trú um að það væri eftir asann og ergelsið yfir seinkuninni á fluginu) og hafði dálitlar (en ástæðulausar) áhyggjur af því hvort þau hefðu tíma til að hendast þetta, hún leit upp og framan í dóttur sína sem hallaði sér upp að glerinu.

„Já, það er alveg rétt hjá þér ástin mín. Þetta er mjög fallegt.“

Hún faðmaði dóttur sína að sér.

„Hættu mamma, ég er að horfa.“

Meðan dóttir hennar horfði hugfangin út um gluggann stalst hún til að strjúka sér um kinnina.

(Reykjavík 2005)