Tímans hverfulleiki (II) og stúlka á rauðum kyrtli

Var að átta mig á því að sú gleðilega stund sem svo lengi virtist í órafjarlægð er alveg að fara að renna upp: Ég flýg heim á fimmtudagskvöldið kemur. Ekki til að vera, heldur fyrir vikufrí með fjölskyldunni og setur í kúrsi við HÍ. Prógrammið er ekki fullbókað ennþá, þannig að vinir og kunningjar sem vilja nota tækifærið eru hvattir til að hafa samband í tölvupóstinn minn (hjorvarpez hjá Gémeilnum) eða í íslenska gemsann (sem ég lít á flesta daga eftir klukkan fimm að íslenskum tíma).

– – –

Gróf upp um daginn þýðingar sem ég gerði fyrir mörgum mörgum árum á textunum úr Carmina Burana, eftir að kórfélagarnir óskuðu eftir að fá þær fyrir tónleikaprógramm seinna í haust. Þær komu mér bara skemmtilega á óvart:

Stóð stúlka
á rauðum kyrtli.
Væri honum strokið
skrjáfaði kyrtillinn.
Eia!

Stóð stúlka
sem lítil rós.
Stirndi af andliti
og munni í blóma.
Eia!

Þeir kunnu þetta, munkarnir í gamladaga. Greddan er ekki endilega best fönguð með fjálglegum lýsingum á treköntum og aftaníferðum.

– – –

(Humm. Eftirá að hyggja veitir síðasta efnisgrein kannski ágætis innsýn í það hversu góð hugmynd það er að ég skuli bráðum eiga mér nokkra daga í hlýju hjónasængur.)